Tónlistarmaðurinn fluttur að Hörpu

Menning og listir

""

Styttan Tónlistarmaðurinn eftir Ólöfu Pálsdóttur hefur verið flutt af Hagatorgi þar sem hún hefur verið síðan 1977 á nýjan stað fyrir framan Hörpu. Ólöf var viðstödd hátíðlega athöfn í Hörpu í dag þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri færði listakonunni þakkir fyrir framlag sitt.

Tónlistarmaðurinn kominn heim.
Sellóleikarinn Erling Blöndal Bengtsson sat fyrir við gerð styttunnar og æfði sig allan tímann á meðan.  Í dag spilaði sellóleikarinn Bryndís Halla Gylfadóttir og ljáði honum bæði strengi og boga sem styttan hefur ekki. Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands bauð Tónlistarmanninn velkominn og Halldór Guðmundsson forstjóri Hörpu hélt stutt ávarp.

Þess má geta að Ólöf á einnig verkið Sonur í Perlufesti sem sett var upp í Hljómskálagarðinum fyrr í sumar en hún er eina eftirlifandi konan sem á verk þar. Fyrir það verk hlaut hún gullverðlaun Konunglega listaháskólans í Kaupmannahöfn árið 1955. Hún var kosinn heiðursfélagi Konunglega breska myndhöggvarafélagsins 1986. Ólöf er fædd árið 1920.

Í kvöld hefst síðan 64 starfsár Sinfóníuhljómsveitarinnar og má því segja að Tónlistarmaðurinn sé kominn heim þar sem hann fylgir Sinfóníunni yfir í ný heimkynni en honum var valinn upphaflega staður fyrir framan Háskólabíó á meðan Sinfóníuhljómsveitin starfaði þar.

Að sögn Hafþórs Yngvasonar forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur sem hefur haft veg og vanda af flutningi verksins á nýjan stað kostar flutningurinn um eina milljón króna. Til stendur að koma nýju verki fyrir á Hagatorgi í stað Tónlistarmannsins og bíður það frekari ákvörðunar.