Veggmyndir eftir Erró í efra Breiðholt

Umhverfi Menning og listir

""

Borgarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag að ráðist verði í nauðsynlegan undirbúning fyrir uppsetningu á tveimur veggmyndum eftir Erró í efra Breiðholti. Áformin ganga út á að skreyta gafla tveggja bygginga í hverfinu.

Einar Örn Benediktsson formaður menningar- og ferðamálaráðs og fulltrúi Besta flokksins mælti fyrir tillögunni. Í greinargerð með henni kemur fram að Erró hafi boðist til að gefa Reykjavíkurborg höfundarverk sitt fyrir tvo veggi í þessu skyni. Hann hafi í gegnum tíðina sýnt Reykjavíkurborg og Listasafni Reykjavikur einstakan rausnarskap með því að gefa safninu verk sín.

Erró er heiðursborgari Reykjavíkur og það yrði mikill fengur að fá varanlegt listaverk eftir þennan heimsfræga listamann í almenningsrými í borginni. Verk Errós í Breiðholti yrðu einnig til þess að breiða út list í opinberu rými utan miðborgarinnar, fegra Breiðholtið og auka stolt íbúanna af nærumhverfi sínu.

Verk Errós hafa verið sýnd á mörgum helstu söfnum Evrópu og víða um heim. Veggmyndir hans prýða merkar byggingar í mörgum borgum og hafa reynst mikið aðdráttarafl og aukið umhverfisgæði þar sem þær hafa verið settar upp.

Tillagan var samþykkt samhljóða.