Kennarar fjölmenntu í Ráðhúsið

Skóli og frístund

""

Grunnskólakennarar streymdu í Ráðhúsið í morgun að afloknum baráttufundi á Ingólfstorgi og afhentu Jóni Gnarr borgarstjóra og Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs, ályktun fundarins. 

Félag grunnskólakennara lagði niður vinnu í dag til að knýja á um samninga og liggur allt grunnskólastarf niðri í landinu. Þeir héldu fjölmennan útifund áður en þeir komu á fund borgarfulltrúa með yfirlýsingu sem þeir lásu upp. 

Í henni segir m.a.:

- Grunnskólakennarar hvetja til að gengið verði til samninga hið fyrsta svo ekki þurfi að koma til þeirrar röskunar á skólastarfi sem fylgja mun boðaðri vinnustöðvun. Hún mun hafa áhrif á 43 þúsund nemendur og fjölskyldur þeirra. Slík aðgerð er neyðarúrræði sem kennarar eru nú þvingaðir í vegna seinagangs viðsemjenda við samningsgerðina. Grunnskólakennarar hafa verið samningslausir í 2 ár og nú er þolinmæði þeirra á þrotum -. 

Grunnskólakennarar hafa boðað frekari vinnustöðvun 21. og 27. maí hafi samningar ekki tekist.