Sex hundraðasti bókmenntaþátturinn

Skóli og frístund

""

Einn elsti bókmenntaþátturinn sem framleiddur er hér á landi, nánar tiltekið í myndveri grunnskólanna í Reykjavík, náði ákveðnum áfanga í dag þegar sex hundraðasti þátturinn varð til.  

Það voru nemendur í 5. bekk í Háaleitisskóla sem náðu þessum áfanga þegar þeir komu í myndver til Marteins Sigurgeirssonar og fjölluðu í máli og myndum um bækur sem þeir höfðu nýlega lesið. Þarna var greint frá merkum barnabókmenntum og höfundum, s.s. Guðrúnu Helgadóttur, Jennu Jensdóttur og JK Rowling höfundi Harry Potter bókanna.

Um 12.500 grunnskólanemendur hafa frá upphafi gert bókmenntaþætti í myndverinu og kynnt og gagnrýnt jafn margar bækur. Í þessum þáttum sem hvetja til bóklesturs, fá nemendur að kynnast þáttagerð fyrir sjónvarp og gera í mynd grein fyrir upplifun sinni af góðum barnabókmenntum. Þá fá börnin leiðbeiningar í að taka ljósmyndir og hugsa í myndrömmum og myndmáli. Við hverja kynningu eru fimm nemendur á upptökugræjunum og sá sjötti kynnir sína bók.  

Myndver grunnskólanna í  Reykjavík er staðsett í Háaleitisskóla/Hvassaleiti og hefur í 20 ár þjónað grunnskólanemum og kennurum með kennslu í kvikmyndagerð, ljósmyndun og annarri myndtúlkun í skapandi skólastarfi.