Glatt á hjalla á hverfishátíð í Laugarneshverfi

Mannlíf Menning og listir

""

íbúar í Laugarneshverfi gerðu sér glaðan dag í gær og héldu hverfishátíð Laugarnes á ljúfum nótum fyrir framan Laugarneskirkju.

Jón Gnarr borgarstjóri setti hátíðina og var margt um manninn. Hæfileikaríkir íbúar létu svo ljós sitt skína og meðal skemmtiatriða var Skólahljómsveit Austurbæjar sem spilaði nokkur lög, kórar í hverfinu, kór Laugarnesskirkju og kór Laugarnesskóla, hófu upp raust sína og Hljómsveitin Helíum steig á stokk.

Hoppukastali gladdi ungu kynslóðina, sögubíllinn kom við og frískir íbúar prufuðu klifurvegg Skjöldunga. Ungt fimleikafólk úr Ármanni var svo með fimleikasýningu. Veðrið var hið besta í upphafi en þegar rigna tók fluttu gestir sig inn í krikjuna og héldu hátíðahöldunum áfram.