FRÁ HJARA VERALDAR

Mannlíf Menning og listir

""

Laugardaginn 8. mars opnar sýning í Þjóðarbókhlöðunni til heiðurs skáldkonunni, myndhöggvaranum og leikkonunni Melittu Urbancic. Sýningin opnar með málþingi um ævi og verk Melittu á sama stað og stendur dagskráin frá kl. 13 - 15. 

Melitta Urbancic (1902-1984) leitaði hælis á Íslandi árið 1938 ásamt eiginmanni sínum, tónvísindamanninum, tónskáldinu og hljómsveitarstjóranum Victor Urbancic (1903-1958) og börnum þeirra. Fjölskyldan fluttist hingað frá heimalandinu, Austurríki, eftir valdatöku nasista, en Melitta var af gyðingaættum. Hjónin mörkuðu varanleg spor í menningarlíf Íslendinga með framlagi sínu til listalífsins í landinu. 
 
Melitta Urbancic lagði stund á heimspeki og germönsk málvísindi við háskólann í Vínarborg og Ruprecht-Karls háskólann í Heidelberg. Hún lauk doktorsgráðu í Heidelberg með rannsókn sinni á verkum skáldsins Christian Dietrich Grabbe. Meðfram háskólanáminu stefndi hún á feril sem leikkona og fékk fyrsta ráðningarsamning sinn við leikhúsið í Koblenz undir listamannsnafninu Makarska. Hún hafði einnig áhuga á sviðum leikstjórnar og leikbókmennta.
 

Ferill hennar sem listakona tók snöggan enda vegna ofsókna nasista, hún flúði til Íslands og sneri ekki til baka til Austurríkis eftir lok stríðsins 1945. Á Íslandi starfaði Melitta við tungumálakennslu, bæði í MR og sem einkakennari heima fyrir. Hún kenndi ensku, frönsku og þýsku.

Ljóðabókina Vom Rand der Welt skrifaði Melitta um reynslu sína af útlegðinni á Íslandi en bókin kemur nú út í fyrsta sinn. Útgáfan er á þýsku og íslensku, með ítarlegum eftirmála um ævi og verk Melittu eftir Gauta Kristmannsson. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfan gefa út. Melitta má heita óþekkt sem höfundur nema meðal þeirra sem hafa rannsakað verk fólks í útlegð. Engu að síður er framlag hennar á sviði ljóðlistar, bréfaskrifta, þýðinga og menningarlegra samskipta landanna tveggja verulegt, að ógleymdu frumkvæði hennar á sviði býflugnaræktar á Íslandi.

Dagskrá:

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður: Ávarp.

Sjón, formaður stjórnar Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO: Ávarp.

Kvartettinn Kvika flytur íslenska þjóðvísu við fornkvæðið „Svíalín og hrafninn“  í þýskri þýðingu Melittu Urbancic. Útsetning: Victor Urbancic.

Gauti Kristmannsson: „Bergmál minninganna.“ Melitta Grünbaum / Makarska / Urbancic.

Sölvi Björn Sigurðsson les ljóð eftir Melittu í eigin þýðingu. Sabine Leskopf les á þýsku.

Frú Vigdís Finnbogadóttir opnar sýninguna.

HLÉ MEÐ VEITINGUM

Sibyl Urbancic, dóttir Melittu Urbancic: Móðurmál.

Kvartettinn Kvika flytur  íslensk þjóðlög við ljóðin  „Látum af hárri heiðarbrún“  (Matthías Jochumsson) og „Skjótt hefur sól brugðið sumri“  (Jónas Hallgrímsson) í þýðingu Melittu. Útsetningar: Victor Urbancic.

Oddný Sverrisdóttir: Íslandsástríða. Fjallað verður um hvernig austuríski rithöfundurinn Rudolf Habringer kynntist fyrir tilviljun lífi og starfi Urbancic fjölskyldunnar sem síðan varð kveikjan að og rauði þráðurinn í skáldsögu hans Islandspassion.

Angela Rawlings, ljóðskáld: BÝ – a talk about the ‘útlendingaljóðskáld’s ecolinguistic activism through apiculture and Icelandic-language acquisition.

Ljóðalestur. Sölvi Björn Sigurðsson les á íslensku. Sabine Leskopf les á þýsku.

Sjá nánar:  https://bokmenntir.is/vidburdir/fra-hjara-veraldar-dagskra-og-syning-um-melittu-urbancic/#sthash.76cfdVut.dpuf