Þrettándabrennan

Framkvæmdir Mannlíf

""

Mikil stemming var við Þrettándabrennuna við Ægisíðu sl. sunnudag en þar fór fram árleg brenna á vegum foreldrafélaganna í Vesturbæ í samstarfi við Þjónustumiðstöð Vesturbæjar. Líkt og undanfarin ár var byrjað við KR- heimilið og voru þar sungin nokkur lög undir stjórn Guðmundar Steingrímssonar sem spilaði undir á harmonikku. Gísli Marteinn Baldursson formaður Hverfisráðs Vesturbæjar sagði nokkur orð við nærstadda en svo var lagt af stað í skrúðgöngu að Ægisíðunni í fylgd lögreglu og nemenda úr Hagaskóla sem leiddu gönguna með kyndlum. Þegar að Ægisíðunni var komið var kveikt í brennunni sem sjaldan eða aldrei hefur verið eins stór á þrettándanum. Fjöldi fólks mætti á brennuna, en vel á annað þúsund manns var þarna saman komin sem tókst afar vel og svo gæddi fólk sér á heitu kaffi og kakói sem Frostaskjól var með til sölu.

Foreldrafélögin og Þjónustumiðstöðin vilja færa öllum þeim aðilum og fyrirtækjum sem á einhvern hátt studdu þenna viðburð bestu þakkir.