Rekstur fyrir skapandi greinar í Gufunesi

Reykjavíkurborg auglýsir eftir samstarfsaðila til að reka og halda utan um rekstur fyrir skapandi greinar í skrifstofuhúsnæði í Gufunesvegi 17. Leitað verði eftir aðila sem mun taka húsnæðið á leigu, hafa umsjón með núverandi leigutökum á vegum Reykjavíkurborgar og sjá um framleigu og utanumhald í samvinnu við Reykjavíkurborg.

  • Reykjavíkurborg auglýsti árið 2020 húsnæði á leigu fyrir skapandi verkefni í eignum borgarinnar í Gufunesi. Um var að ræða tímabundið verkefni meðan svæðin væru í skipulags- og uppbyggingarferli.
  • Rýmunum var síðan úthlutað til einstakra listamanna og annarra í skapandi greinum.

Húsnæðið að Gufunesvegi 17 er um 2600 fermetrar og eru um 25% af húsnæðinu að losna.   Gert er ráð fyrir að húsnæðið verði áfram nýtt sem vinnu- og lærdómsaðstaða þar sem mismunandi skapandi greinar svo sem listgreinar, hönnun, forritun og önnur nýsköpun komi saman. Staðsetning verkefnisins hentar vel í ljósi þess sem er og verður í næsta nágrenni og þeirri uppbyggingu sem er á næsta leiti. Markmiðið er að efla sköpun í breiðum skilningi, binda saman sköpunarkraft einstaklinga og minni fyrirtækja í borginni, efla fræðslu og þekkingarmyndun fyrir skapandi fólk og ýta undir tengslamyndun í skapandi greinum. Horft verður til þess að starfsemin í húsinu falli að nærumhverfinu og gæði það lífi.

  • Á árinu 2022 var farið í endurbætur utanhúss á húsinu, m.a. múrviðgerðir, skipt um þakið, skipt um glugga og málað.

Áhugasamir eru beðnir um að láta vita tímanlega af skoðun með því að senda tölvupóst til Eignaskrifstofu Reykjavíkur á esr@reykjavik.is

Fyrirspurnir um húsnæðið má senda til Eignaskrifstofu Reykjavíkur, esr@reykjavik.is.

Skilafrestur fyrir Áhuga- og hugmyndalýsingu er til og með 10. mars 2023.  Henni þarf að skila í tölvupósti til esr@reykjavik.is merkt „Áhuga- og hugmyndalýsing Gufunesvegar 17“.

Mynd af Gufunesvegi 17 í Gufunesi. Stórt og mikið hús. Sjór og esja í bakgrunni.