Kolaportið: Leigutaki og rekstraraðili almenningsmarkaðar að Tryggvagötu 19
Reykjavíkurborg leitar að öflugum og framsýnum rekstraraðila til að leiða næsta kafla í sögu Kolaportsins, einstaks samkomustaðar í miðborginni, þar sem mannlíf, menning og frumkvöðlastarf dafna.
Kolaportið er einstakur vettvangur í borgarlandslaginu, einn af fáum stöðum þar sem fólk af ólíkum uppruna og bakgrunni kemur saman, hvort sem er til að versla, selja, spjalla eða einfaldlega njóta samvista. Það er ekki aðeins markaður, heldur miðstöð félagslegra tengsla og líflegs borgarsamfélags.

Sýn borgarinnar er að Kolaportið þróist áfram sem kraftmikill almenningsmarkaður, staður þar sem frumkvöðlar geta prófað nýjar hugmyndir, vörur og þjónustu, og þar sem nýsköpun, handverk, matarmenning og fjölbreytt verslun mynda einstakan samruna. Markaðurinn á að vera aðgengilegur öllum og stuðla að þátttöku fólks úr öllum áttum samfélagsins með blómlegu viðburðarhaldi.
Við viljum sjá Kolaportið blómstra sem lifandi borgarrými sem dregur fólk að, hvort sem er heimamenn eða ferðafólk, og styrkja þannig miðborgina sem spennandi og fjölbreyttan áfangastað allt árið um kring.
Nýr rekstraraðili mun velja söluaðila og veitingastaði til samstarfs, aflar tilskilinna leyfa, sér um kynningar- og markaðsmál og annast allan daglegan rekstur hússins, þar með talið rekstur á salernum og öryggisvörslu.
Reykjavíkurborg áætlar að gera húsaleigu- og rekstrarsamning við væntanlegan rekstraraðila sem mun byggja á húsaleigusamningi á milli Reykjavíkurborgar og Framkvæmdarsýslunnar – Ríkiseigna (FSRE) sem eiganda, með það að markmiði að reka almenningsmarkað í húsnæðinu.
Gögn sem áhugasamir skulu skila með tilboði sínu
- Boðið heildar leigufjárhæð á mánuði án vsk. Virðisaukaskattur leggst ekki á leiguverð. Lágmarks boðin leigufjárhæð á mánuði er kr. 3.777.457,- Leigufjárhæð er bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem er í júní 2025 649,7 stig.
- Greinargóðar upplýsingar um farsæla reynslu bjóðanda af sambærilegum verkefnum. Sambærileg verkefni geta verið rekstur mathallar, verslunarrekstur, rekstur skemmtigarða og blandaðrar afþreyingar.
- Staðfesting frá Skattinum að umsóknaraðili sé í skilum með opinber gjöld.
- Staðfesting frá viðkomandi lífeyrissjóðum að umsóknaraðili sé í skilum með lífeyrissjóðsiðgjöld.
- Greinargerð og teikningar með tilboði þar sem fram koma hugmyndir að skipulagi húsnæðis og tillaga að rekstri almenningsmarkaðar. Í greinargerð skulu koma fram að lágmarki eftirfarandi upplýsingar:
- Upplýsingar um áætlaðan opnunartíma (alltaf skal þó opið um helgar)
- Teikningar af skipulagi húsnæðis
- Kynning á framtíðarsýn almenningsmarkaðar
- Kostnaðaráætlun
- Rekstraráætlun
- Upplýsingar um samstarfsaðila eins og við getur átt -
Aðrar upplýsingar sem krafist er samkvæmt matsþáttum 1 - 11, sbr. kafli 3 Mat tilboða
Áhugasamir bjóðendur skulu vera skuldlausir við Reykjavíkurborg, í skilum með opinber gjöld og greiðslur lífeyrissjóðsiðgjalda.Mat tilboða
Við mat á tilboðum verður horft til þess að áætluð starfsemi í húsnæðinu verði góð viðbót við framboð á verslun og þjónustu sem fyrir er í miðbæ Reykjavíkur. Bjóðendur eru hvattir til að kynna sér vel skýrsluna „Almenningsmarkaðir – Þarfagreining og úttekt“ sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg og er hluti af gögnum með auglýsingu þessari.
Skipuð verður þriggja manna matsnefnd sem yfirfer tilboð. Besta tilboð er valið á grundvelli hagkvæmasta hlutfalls á milli hæst boðna leiguverðs (25 stig) fyrir einn mánuð og annarra matsþátta (75 stig)Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að taka ákjósanlegasta tilboði að dómi matsnefndar eða hafna öllum.
Tilboðum sem innihalda boðna leigufjárhæð undir 3.777.457,- á mánuði verður hafnað.
Leigusali áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum sem fá 63 stig eða minna skv. mati matsnefndar.
Fylgiskjöl með auglýsingu
Eftirfarandi fylgiskjöl eru hluti af auglýsingu og er þau að finna á útboðsvef:
- Drög að húsaleigusamningi á milli Reykjavíkurborgar og FSRE,
- Drög að húsaleigu- og rekstrarsamningi á milli rekstraraðila og Reykjavíkurborgar,
- Grunnmynd af umræddu svæði sem fellur undir hið leigða,
- Matsbað matsnefndar,
-
„Almenningsmarkaðir – Þarfagreining og úttekt“. Skýrsla unnin fyrir Reykjavíkurborg 2024.
Skil umsókna og fyrirspurnir
Fyrirspurnir skulu berast fyrir 24. júní. 2025 í gegnum útboðskerfi Reykjavíkurborgar og verður svarað þar.
Tilboðum skal skila rafrænt í útboðskerfi Reykjavíkurborgar, eigi síðar en kl. 10:00 þann 8. júlí 2025.
Ekki verður tekið við umsóknum sem berast eftir framangreindan tíma.Skoða auglýsingu á útboðsvef
Sjá nánar á: www.utbodsvefur.is og á útboðsvef Reykjavíkurborgar: Útboðsvefur Reykjavíkurborgar - Home