Húsnæði leikskólans Bakka til leigu

Við leitum að áhugasömum aðilum til að nota húsnæði leikskólans Bakka í Staðahverfi í Reykjavík fyrir leikskólastarf. 

Börn í sandkassa á lóð Ártúnsskóla.

Bakki er til leigu

Reykjavíkurborg, vegna Reykjavíkurborgar – eignasjóðs, auglýsir eftir áhugasömum aðilum til að taka húsnæði leikskólans Bakka, Bakkastöðum 77, í Staðahverfi í Reykjavík á leigu undir leikskólastarf. 

Markmið Reykjavíkurborgar með útleigu Bakka er að:  

  • Fjölga leikskólaplássum í Reykjavík fyrir börn á aldrinum 12 mánaða til sex ára. 
  • Tryggja rekstur leikskóla í Staðahverfi sem uppfyllir kröfur laga um leikskóla og reglna Reykjavíkurborgar um leyfi til reksturs leikskóla. 
  • Fjölga valkostum foreldra um leikskólastarf sem styður við menntunarlegar áherslur þeirra.  
  • Allri starfsemi í húsinu verði hagað á þann veg sem hæfir húsnæði fyrir leikskóla.  Fyllsta tillit sé tekið til þessa í innréttingum, tæknibúnaði, rekstri og umgengni.  

Mat tilboða: 

Umsóknir verða metnar á grundvelli eftirfarandi þátta: 

  • Fyrirhugaðu leikskólastarfi og hversu vel það samræmist markmiði Reykjavíkurborgar með útleigunni. 
  • Reynslu umsækjanda af leikskólastarfi. 
  • Leigufjárhæð og getu til að standa skil á henni. 

 

Umsækjendur sem sækjast eftir því að taka húsið á leigu skulu vera í skilum með opinber gjöld og greiðslur lífeyrissjóðsiðgjalda og geta ekki verið í vanskilum við Reykjavíkurborg.   

Sérstök matsnefnd Reykjavíkurborgar mun fara yfir umsóknir. 

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að taka ákjósanlegasta tilboði að dómi matsnefndar eða hafna öllum.  

Athygli skal vakin á því að kvöð er á um að leikskólastarfsemi í húsinu hefjist sem allra fyrst. 

 

Samningstími: 

Gert er ráð fyrir að nýr leigusamningur hefjist sem fyrst og gildi til fimm ára með möguleika á framlengingu í allt að þrjú ár til viðbótar, samþykki báðir aðilar slíka framlengingu. 

Samningsaðilum er heimilt er að segja upp samningnum með eins árs fyrirvara, þó eigi fyrr en 12 mánuðum eftir að starfsemi hefst í leikskólanum. 

 

Nánari upplýsingar:  

Eignaskrifstofa Reykjavíkurborgar tekur á móti fyrirspurnum á netfangið esr@reykjavik.is  

 

Fylgigögn með umsókn: 

Eftirfarandi gögnum ber að skila með umsókn: 

  1. Staðfesting frá Tollstjóra að umsóknaraðili sé í skilum með opinber gjöld.  
  2. Staðfesting frá viðkomandi lífeyrissjóðum að umsóknaraðili sé í skilum með lífeyrissjóðsiðgjöld.  
  3. Greinargerð sem lýsir fyrirhugaðri leikskólastarfsemi og reynslu af leikskólastarfsemi. 
  4. Greiðsluhæfi leigjenda til að geta staðið undir umsömdum leigugreiðslum. 

 

Skil umsókna: 

Umsóknum skal skilað í lokuðu umslagi merkt Leikskólinn Bakki – Bakkastaðir 77" í Þjónustuver Reykjavíkurborgar eigi síðar en kl. 12.00 á hádegi föstudaginn 27. janúar 2023.

 

Húsnæðið: 

Húsnæði leikskólans Bakka er allt húsnæðið að Bakkastöðum 77, 110 Reykjavík. Það er samkvæmt skrá Fasteignamats ríkisins skráð 479,1 m2 að stærð. Eignasjóður Reykjavíkur er eigandi 100% fasteignarinnar.   

Húsnæði hefur verið notað undir rekstur leikskóla frá árinu 2003 og hefur yfir stóru útileiksvæði fyrir leikskóla að ráða á lóðinni.  

Kvaðir: 

Rekstraraðili/leigutaki skal hlíta fyrirmælum Reykjavíkurborgar, m.a. Skóla- og frístundasviðs og Umhverfis- og skipulagssvið, um umgengni hússins og lóðar. Eftirfarandi kvaðir fylgja húsinu: 

  1. Óheimilt er að reykja í húsinu. 
  2. Framkvæmdir og breytingar, s.s. málun, eru óheimilar nema með samráði við Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. 
  3. Uppfylla þarf öll skilyrði Vinnueftirlits Ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Ríkisins, og  vegna eldvarna Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. 

Leigutaka er óheimilt að framleigja húsnæðið. 

Leigukjör: 

Húsaleiga greiðist fyrirfram með gjalddaga 1. hvers mánaðar. Við leiguna leggst ekki virðisaukaskattur. Beri gjalddaga upp á frídag skal miða við næsta virka dag þar á eftir.  Húsaleigu skal greiða samkvæmt útsendum greiðsluseðlum Reykjavíkurborgar og fylgja reglum um dráttarvexti. Húsaleigan miðast við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og breytist með henni til hækkunar eða lækkunar á eins mánaðar fresti. 

Framlag húseiganda: 

Með húsnæði fylgir ýmis búnaður, bæði laus og fastur, hægt er að óska eftir ítarlegum lista. 

Framlag rekstraraðila: 

Rekstraraðili leggur til annan búnað en þann sem er í húsinu. Rekstraraðila er heimilt að leggja til viðbótarhúsgögn, borðbúnað, dúka o.s.frv., en bera skal val á húsgögnum undir húseiganda/leigusala. Rekstraraðili greiðir kostnað vegna viðhalds tækja sem hann einn nýtir en húseigandi leggur til. 

Rekstrarkostnaður: 

Leigutaki ber eftirtalinn rekstrarkostnað vegna hins leigða húsnæðis: 

  1. Leigutaki greiðir vatns-, rafmagns- og hitakostnað, sem og leigu til veitustofnana fyrir mæla og slíkan búnað. 
  2. Leigutaki greiðir einnig kostnað við ræstingu, húsvörslu og umhirðu á húsnæðinu og sorphirðu. 
  3. Leigutaki skal að auki bera kostnað af viðhaldi á eftirtöldum kerfum: 
  • Þjófavarnarkerfi. 
  • Tölvukerfi. 
  • Leigutaki greiðir kostnað vegna viðhalds á eldvarnarbúnaði, og fjarskipta- og móttökubúnaði. 

Leigutaki skal jafnframt hlíta ákvæðum laga og reglugerða um rekstur leikskóla, sem og annarra laga sem við geta átt varðandi rekstur hans. 

 Vanefndir:  

Leigutaki skal í einu og öllu rækja samningsskyldur sínar í samræmi við ákvæði samnings aðila. Þannig er leigusala heimilt að rifta samningi aðila ef leigutaki sinnir ekki leikskólaþjónustu til samræmis við samninga þar að lútandi. Vilji leigusali neyta riftunarréttar samkvæmt framangreindu skal hann veita leigutaka hæfilegan frest til úrbóta, með skriflegri áskorun, og verði leigutaki ekki við kröfum leigusala innan þess frests er leigusala heimilt að lýsa yfir riftun án frekari fyrirvara. 

Leiti leigutaki nauðasamninga, greiðslustöðvunar eða verði úrskurðaður gjaldþrota, eða hjá honum er gert árangurslaust fjárnám, er leigusala heimilt að rifta samningi aðila án frekari fyrirvara eða rökstuðnings. 

Rísi mál vegna verkefnis þessa skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. 

Að öðru leyti en að framan greinir gilda ákvæði laga um vanefndaúrræði samningsaðila.  

Annað: 

Teikningar af Bakka, Bakkastöðum 77, er að finna á teikningavef Reykjavíkurborgar.