Reykjavík - heteró eða hinsegin

Mannréttindi

""

Rannsókn Freyju Barkardóttur mastersnema sýnir að hinsegin starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa jákvæða reynslu af vinnustöðum sínum en finnst þeir þó einkennast af gagnkynheigðarhyggju.

Sumarið 2014 vann Freyja Barkardóttir, mastersnemi í kynjafræðum að verkefninu „Er Reykjavík bara heteró eða líka hinsegin?“ á vegum Reykjavíkurborgar. Markmið þess var að skoða hvernig hinsegin starfsmenn Reykjavíkurborgar upplifðu vinnustaði borgarinnar. Er gagnkynhneigð menning ríkjandi hjá Reykjavíkurborg? Verður hinsegin starfsfólk fyrir fordómum og mismunun á vinnustöðum borgarinnar? Rannsóknin sýndi að þó að margir viðmælendur hefðu almennt jákvæða reynslu af því að vera hinsegin á vinnustöðum Reykjavíkurborgar einkenndust vinnustaðirnir af gagnkynhneigðarhyggju.

Tilefni rannsóknarinnar var meðal annars könnun sem gerð á meðal félagsfólks í Samtökunum ´78 í janúar og febrúar 2014. 70% svarenda höfðu orðið fyrir leiðinlegum atvikum á vinnustað sínum oft, stundum eða sjaldan og í 56% tilvika höfðu atvikin átt sé stað innan síðustu þriggja ára. Þessar niðurstöður gáfu því tilefni til skoða nánar líðan og stöðu hinsegin fólks á vinnustöðum Reykjavíkurborgar. Verkefnið var styrkt af Vinnumálastofnun.

Rannsóknin byggðist fyrst og fremst á viðtölum við hinsegin starfsmenn Reykjarvíkurborgar. Útgangspunktur rannsóknarinnar var að skoða hvort vinnustaðir Reykjavíkurborgar einkenndust af kerfisbundinni gagnkynhneigðarhyggju og hvort áreitni, fordómar og mismunun gagnvart hinsegin fólki væri innbyggð í menningu vinnustaðarins. Hugtakið hinsegin er í þessu samhengi notað sem sveigjanlegt regnhlífarhugtak yfir samkynhneigð, tvíkynhneigð, trans, intersex, asexual og hvaða önnur heiti sem þátttakendur töldu vera við hæfi.

Rannsóknin sýndi að á meðan margir viðmælendur höfðu almennt jákvæða reynslu af því að vera hinsegin á vinnustöðum Reykjavíkurborgar einkennast vinnustaðirnir af gagnkynhneigðarhyggju. Gagnkynhneigðarhyggja er skilgreind sem kerfislæg í formgerð og menningu stofnunar og birtist hún hinsegin einstaklingum meðal annars í skilningsleysi, óþægilegum spurningum og gagnkynhneigðri orðræðu. Fjórar birtingamyndir gagnkynhneigðarhyggjunnar stóðu upp úr í gögnunum: Hinsegin fólk þarf að koma út úr skápnum á vinnustaðnum (annars er gert ráð fyrir gagnkynhneigð í öllum umræðum), það er sett í hlutverk málsvarans fyrir málefnum hinsegin fólks, það upplifir óviðeigandi athugasemdir sem snúast að kynhneigð og kynvitund og einnig upplifir það að samstarfsfólk þorir ekki eða vill ekki ræða persónuleg málefni þess vegna þess að það er hinsegin.

Þannig var hægt að greina ákveðna togstreitu í upplifun viðmælenda sem einnig einkennir stöðu réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi. Annars vegar hefur samfélagið opnast mikið gagnvart hinsegin fólki; á vinnustaðnum er hægt að koma út úr skápnum og fólk fær að vera hinsegin óáreitt. Hinsvegar er hinsegin fólk minnihlutahópur sem enn í dag þarf að rökstyðja tilvistarétt sinn, eins og niðurstöður þessarar rannsóknar sýna.

Það er greinilegt að fordómar gegn hinsegin fólki eru enn ríkjandi í samfélaginu og á grundvelli þessarar rannsóknar er vonast til þess að betur megi bregðast við þeim eins og þeir birtast á vinnustöðum borgarinnar. Rannsóknin sendir einnig þau skilaboð til starfsfólks og þjónustuþega borgarinnar að ekki megi mismuna fólki vegna kynhneigðar eða kynvitundar. Allir viðmælendur voru sammála um það að það mætti hafa meiri fræðslu um málefni hinsegin fólks á vinnustöðum þeirra. Markmiðið með að hafa fræðslu á vinnustöðum borgarinnar væri að útrýma fordómum, með því að leyfa fólki að kynnast málefnum hinsegin fólks betur. Hér má lesa greinagerð um rannsóknina: „Við erum alltaf gay“. Reynsla og upplifun hinsegin starfsfólks hjá Reykjavíkurborg. Hér má finna fræðslusíðu um hinsegin málefni.