Opnað fyrir umsóknir í skólahljómsveitir

Skóli og frístund

""

Tekið er á móti umsóknum í skólahljómsveitirnar fjórar í Reykjavík frá og með 24. mars næstkomandi, kl. 09.00. Sækja þarf um í gegnum Rafræna Reykjavík/Mínar síður.

Formlegur umsóknarfrestur er til 1. júní vegna skólaársins 2017-2018, en hægt er að skila inn umsóknum allt árið vegna yfirstandandi skólaárs hverju sinni. 

Inntaka í hljómsveitirnar byggir á m.a. á tímasetningu umsóknar og hvort laust er á hljóðfærið sem sótt er um í skóla hvers barns. Hægt er að setja athugasemd í umsóknir um t.d. fyrra nám, biðlista og fleira. Þeir sem þegar hafa reynt að sækja um vegna næsta skólaárs eru beðnir að endurtaka umsóknina inn á rétt skólaár. Sjá Rafræna Reykjavík.

Nám og Námsgjöld  - haustönn 2017
Í skólahljómsveitum er kennt á öll helstu málm- og tréblásturshljóðfæri auk slagverkshljóðfæra. Einnig eru dæmi um að kennt sé á bassa. Hægt er að leigja hljóðfæri hjá sveitunum. Námsgjöld fyrir haustönn 2017 eru 13.675 kr. og hljóðfæragjald fyrir þá önn er 4.150 kr.

Metnaðarfullt hljóðfæranám hjá úrvalskennurum
Í skólahljómsveitum er boðið upp á metnaðarfullt hljóðfæranám með vel menntuðum og reynslumiklum kennurum. Námið tekur mið af aðalnámskrá tónlistarskóla.

Aðaláhersla á samspil - skylduþátttaka
Mikilvægt er að nemendur sem hefja nám í skólahljómsveit geri sér grein fyrir því að aðaláherslan er á samspil og að allir nemendur eiga að taka virkan þátt í æfingum sveitanna og tónleikahaldi. Í einkatímum fá nemendur kennslu og þjálfun í að spila á sitt hljóðfæri.

Þegar teknir eru inn nemendur í skólahljómsveitir borgarinnar er stuðst við eftirfarandi viðmið:

  • Nemendur sem eru í hljómsveitinni og ætla að halda áfram ganga fyrir.
  • Umsóknir sem berast fyrir 1. júní njóta forgangs.
  • Umsóknir sem berast eftir 1. júní verða teknar til umfjöllunar áður en starfið hefst.
  • Lágmarksaldur nemenda við inntöku í skólahljómsveitir er 8 ár eða nemendur í 3. bekk.
  • Hafi nemandi verið á biðlista eru meiri líkur á að hann fái pláss í hljómsveit.
  • Skólahljómsveitirnar eru fjórar: Skólahljómsveit Austurbæjar, Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts, Skólahljómsveit Grafarvogs og Skólahljómsveit Miðbæjar og Vesturbæjar. Hver hljómsveit þjónar ákveðnu afmörkuðu hverfi. Umsóknir sem koma úr hverfi hljómsveitarinnar ganga fyrir.
  • Umsóknir nemenda sem eru í 4. bekk ganga að jafnaði fyrir.
  • Nemendur sem koma úr tónlistarnámi annars staðar, t.d. öðrum skólahljómsveitum eða öðrum tónlistarskólum, geta gengið fyrir inn í námið en sú afgreiðsla er háð ákvörðun stjórnanda hverju sinni.
  • Það getur skipt máli hvaða hljóðfæri er sótt um. Flókin samsetning skólahljómsveita, staðsetninga kennara í skólum og á hvaða hljóðfæri viðkomandi kennari kennir, hefur áhrif á inntöku nýrra nemenda.
  • Framboð hljóðfæra í einstökum skólum getur verið breytilegt milli ára.

Sjá meira um skólahljómsveitirnar. 

Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts

Skólahljómsveit Austurbæjar

Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar

Skólahljómsveit Grafarvogs

Sjá kynningarblað um skólahljómsveitirnar