Á mótorhjólum hringinn í kringum Ísland

Mannlíf

""

Sigurður Björn Blöndal, formaður borgarráðs og Stefán Eiríksson borgarritari tóku á móti 18 Spánverjum í ráðhúsi Reykjavíkur í dag, en um er að ræða hóp fólks sem ætlar að ferðast í kringum Ísland á mótorhjólum næstu vikurnar.

Forsprakki hópsins er Hugo Scagnetti, yfirmaður nýsköpunar hjá spænska símafyrirtækinu Telefonica, en hann er þekktur í heimalandi sínu og hefur ferðast um allan heim á mótorhjóli. Í fyrra fór hann einn í heimsferð á 80 dögum á mótorfáki sínum. 

Að þessu sinni er Scagnetti mættur með 17 félögum sínum og er markmið ferðarinnar að kynnast landi og þjóð en um leið að minnast Spánverjavíganna árið 1615. Baskar stunduðu hvalveiðar við Íslandsstrendur á 17. öld nánar tiltekið við Vestfirði. Sagan segir að 80 skipverjar af þremur spænskum hvalveiðiskipum sem fórust undan strönd Reykjafjarðar árið 1615 hafi komist lífs af og þeir komist á árabátum fyrir Horn. Á Dynjanda tóku þeir annað skip ófrjálsri hendi og fóru á veiðar. Þeir skutluðu hval og komu sér upp bækistöð á Sandeyri. Ari sýslumaður í Ögri fór ásamt mönnum sínum og drápu þeir 32 skipverja en 50 komust undan til Patreksfjarðar og fóru þeir þaðan með kaupskipi síðar. (Sjá nánar á síðu Baskavinafélagsins)

Mótórhjólin sem hópurinn ferðast um á (Yamaha XT1200Z Super Ténéré) eru búin nýjustu tækni sem gerir þeim mögulegt að miðla upplýsingum af ferðalagi sínu í máli og myndum. 

Á ferð sinni um landið munu þeir heilsa upp á ráðamenn í ýmsum bæjarfélögum og færa þeim gjöf til að treysta vinabönd. Að lokinni afgreiðslu í tolli í dag komu þeir við í Ráðhúsi Reykjavíkur og færðu borginni bókina Don Kíkóti eftir Cervantes að gjöf. Því næst þeystu þeir á brott á vit ævintýranna á Íslandi. Borgin óskar þeim góðrar ferðar.