Málþing um samgöngur og samgönguviðurkenning veitt í dag

Samgöngur

""

Evrópsk samgönguvika stendur nú sem hæst og verður málþing haldið í dag í Ráðhúsi Reykjavíkur um samgöngusamninga fyrirtækja og í lok málþings verður veitt árleg samgönguviðurkenning.

Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft.

Klukkan 14.30 í dag, mánudaginn 18. september, efna Festa og Reykjavíkurborg til fundar um samgönguáætlanir fyrirtækja og stofnana. Varpað verður ljósi á þau tækifæri sem fyrirtæki og stofnanir hafa til að skipuleggja samgöngur sínar beturog skoðað hvað felst í samgönguáætlunum og samgöngusamningum auk þess sem fyrirtæki kynna sínar samgöngustefnur.

Fundurinn er öllum opinn en hann er sniðinn að fyrirtækjum og stofnunum sem hafa áhuga á bættum samgöngum, fyrirtækjum sem skrifað hafa undir loftslagsmarkmið, sem og aðra áhugasama. Erindi flytja Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi, Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisstjóri Landsspítalans og er Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara fundarstjóri.

Eftir fundinn mun Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri afhenda samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar í sjötta skiptið. Auglýst var eftir umsóknum eða tilnefningum frá fyrirtækjum, félagsamtökum, stofnunum og einstaklingum. Valið er byggt á árangri af aðgerðum sem fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir eða einstaklingar hafa gripið til í þeim tilgangi að t.d. einfalda starfsfólki að nýta sér aðra samgöngumáta en einkabílinn, draga úr umferð á sínum vegum og/eða stuðla að notkun vistvænna orkugjafa. Dagskrá verður lokið um fjögur.

Í tilefni dagsins verða broskallar tengdir við umferðarljósin á Lækjargötu/Bankastræti. Þá lét Strætó bs skreyta einn vagn í tilefni vikunnar í samstarfi við Reykjavíkurborg og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Erindi málþingsins (glærur)

Samgöngur í Reykjavík - Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar

Samgöngur hjá Advania - Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania

Samgöngumál á Landsspítala - Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisstjóri Landsspítalans

Tengill 

Samgönguvika 2017

Ráðstefnan 18. sept