Loftgæði í Reykjavík gætu verið enn betri

Umhverfi Skipulagsmál

""

Bíllinn er helsti mengunarvaldurinn í Reykjavík en rok og rigning hafa jákvæð áhrif á loftgæði í borginni.  Loftið sem við öndum að okkur í Reykjavík er þó almennt talið gott borið saman við borgir í Evrópu en gæti verið enn betra. Þetta kom m.a. fram í fróðlegum erindum á málþingi sem umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hélt um loftgæði.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur skipulagði þingið, sem haldið var á Hótel Reykjavík Natura fimmtudaginn 16. apríl sl. Auk veðurfars hafa gróður, nagladekkjanotkun, notkun bensíns og díselolíu og umferðarhraði áhrif á loftgæði í borginni.

Frummælendur á málþinginu voru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Björn Axelsson skipulagsfulltrúi, Hjalti Guðmundsson og Þórólfur Jónsson deildarstjórar hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, Ómar Smári Ármannsson frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Þorsteinn Jóhannsson hjá Umhverfisstofnun, Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava S. Steinarsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Margrét M. Norðdahl og Hilmar Sigurðsson frá hverfisráði Hlíða.

Erindin fjölluðu um stefnu borgarinnar í loftgæðamálum, viðbragðsáætlanir, áhrif skipulags gatnahreinsunar og hálkuvarna á loftgæði, trjágróður, áhrif umferðarstýringar á  loftgæði auk þess sem fulltrúar frá hverfisráði Hlíða, þau Margrét og Hilmar, fjölluðu um mikilvægi loftgæða fyrir borgarbúa. Í máli þeirra kom fram að hvert og eitt okkar getur haft áhrif með því að taka afstöðu, nota vistvænar samgöngur og huga að þáttum sem valda mengun t.d. nagladekkjanotkun.

Þorsteinn Jóhannsson frá Umhverfisstofnun hélt erindi um heilsufarsáhrif loftmengunar og þar kom fram að rekja megi ótímabær dauðsföll um 18 Íslendinga á hverju ári  til loftmengunar. Það er þó með því minnsta sem gerist í Evrópu en næstir okkur eru Norðmenn með 32 ótímabær dauðsföll á ári. Flest eru dauðsföll vegna loftmengunar í Ungverjalandi eða 157 á ári.

Þórólfur Jónsson, deildarstjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar, sagði tré og gróður gegna lykilhlutverki í því að draga úr loftmengun. Hann nefndi þéttan trjágróður við Miklubraut,frá Lönguhlíð að Kringlumýrarbraut, sem dæmi um framsýni en trén, sem voru gróðursett á sjöunda áratug síðustu aldar, draga úr loftmengun við brautina. Hann nefndi einnig að óspillt náttúra og óslegin tún draga frekar úr mengun en tún sem eru slegin. Hann telur að fjölga megi trjám og runnum í borginn og rækta upp fleiri græn tún í borgarlandinu.

Flestir nefndu veður sem áhrifaþátt og að rok og votviðri ynnu gegn loftmengun. Erindin fjölluðu um ólíka þætti loftmengunar og áhrif þeirra á heilsu og vistkerfi en öll erindin er hægt að kynna sér nánar hér að neðan;

Loftgæðin í Reykjavík

Kristín Lóa Ólafsdóttir og Svava S. Steinarsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Áhrif skipulags á loftgæði

Björn Axelsson skipulagsfulltrúi.

Áhrif gatnahreinsunar og hálkuvarna á loftgæði

Hjalti Guðmundsson hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Trjágróður og loftgæði

Þórólfur Jónsson hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Umferðastýrð loftgæði?

Ómar Smári Ármannsson frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Heilsufarsáhrif loftmengunar. Mengun frá bensín- og díselbílum

Þorsteinn Jóhannsson frá Umhverfisstofnun.

Bætt loftgæði fyrir borgarbúa

Margrét M. Norðdahl og Hilmar Sigurðsson