Átakið Hreinsum saman - tökum þátt og tínum rusl á vegum Reykjavíkurborgar mun standa yfir daganna 2.-7. maí líkt og í fyrra. Þá tóku fjölmargir borgarbúar virkan þátt í hreinsuninni og vonir standa til að svo verði einnig núna.
Reykjavíkurborg, borgarbúar, fyrirtæki, stofnanir og skólar taka þátt í Evrópskri hreinsunarviku þessa daga. Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt í vikunni, sem nær hámarki í viðamiklum hreinsunardegi laugardaginn 6. maí. Þann dag er gert ráð fyrir að íbúar tíni saman rusl á götum og í hverfum borgarinnar. Hver og einn getur valið sér svæði til að hreinsa.
Hægt er að velja opið leiksvæði og nágrenni á sérstakri skráningarsíðu. Um er að ræða tínslu á almennu rusli en ekki garðúrgangi.
Öll opin leiksvæði verða skráð inn á skráningarsíðuna og auðvelt að velja sér stað á korti. Þeir sem vilja geta fengið ruslapoka á hverfastöðvum Reykjavíkurborgar á Njarðargötu, við Jafnasel og Stórhöfða á laugardeginum 6. maí eða dagana á undan. Húsfélög eru hvött til að taka saman höndum og hvetja íbúa til að taka þátt.
Tökum þátt og tínum rusl
Starfsfólk Reykjavíkurborgar verður til staðar laugardaginn 6. maí og mun svo sækja ruslapokana á valda staði sem merktir verða á kortum eða tilkynntir til borgarinnar á netfangið upplysingar@reykjavik.is eða í síma 411 1111.
Grunnskólar í Reykjavík eru einnig hvattir til að taka til í nærumhverfi sínu og geta skráð sig á sérstakri skráningarsíðu fyrir skóla.
Fyrirtæki eru hvött til að taka þátt í hreinsunarvikunni og geta þau skipulagt hreinsun í nærumhverfi sínu þegar þeim hentar og skráð sig á svæðið.
Allir sem taka þátt í hreinsunarátakinu geta sent myndir á facebook síðu Hreinsum saman!
Tengill
#hreinsumsaman