HM-kosningar hefjast á föstudag

Betri hverfi Framkvæmdir

""

Kosningar í íbúalýðræðisverkefninu Hverfið mitt hefjast á föstudag 3. nóvember og standa til 19. nóvember. Allir sem verða 16 ára í ár og eldri geta kosið.

Íbúar í Reykjavík munu kjósa hvaða hugmyndir koma til framkvæmda, til ráðstöfunar eru alls 450 milljónir króna og gefur það umtalsvert svigrúm.  Framkvæmdafé var hækkað í fyrra og mæltist það vel fyrir. 

Stjörnu prýdd hugmynd fær aukið vægi  

Nýjung í ár er að kjósendur geta að auki sett stjörnu við eitt verkefni og  þannig gefið því verkefni eitt aukaatkvæði. Markmiðið er að sjá hvaða verkefni eru íbúum í hverfunum allra mikilvægust.  Mögulegt er að greiða atkvæði oftar en einu sinni, en það er síðasta atkvæðið sem gildir.

Þegar kosningar hefjast þann 3. nóvember verður opnað fyrir kosningavefinn á slóðinni hverfidmitt.is. Fram að kosningum vísar vefslóðin á almenna upplýsingasíðu um verkefnið.

Vonast til að slá ný met í kosningaþátttöku

Hugmyndasöfnun í mars gekk vonum framar og slógu íbúar nýtt met í hugmyndaauðgi, en alls bárust 1.080 hugmyndir. Teymi fagfólks á umhverfis- og skipulagssviði mat í framhaldi hvaða hugmyndir væru tækar í kosningu og hverfisráð stillti upp allt að 25 hugmyndum sem kosið verður um í nóvember. Þessa dagana er verið að undirbúa og álagsprófa kosningakerfið.

Í fyrra var slegið met í kosningaþátttöku en þá kusu 9,4% þeirra sem atkvæðisrétt höfðu. „Við viljum auðvitað slá þátttökumetið aftur,” segir Unnur Margrét  Arnardóttir, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg. „ Aukin þátttaka í kosningum og hugmyndasöfnun bendir til að þess að við séum á réttri leið”. 

Þetta er í sjötta sinn sem íbúar í Reykjavík koma að vali verkefna í hverfunum og sífellt er verið að gera  umbætur á verkefninu, vefsíðunni og samráðsferlinu, til að bregðast við athugasemdum og gagnrýni.

 

Tengdar síður: