Hagir utangarðsfólks í Reykjavík

Velferð

""

349 einstaklingar voru skráðir sem utangarðs í júní á þessu ári. Karlar eru í meirihluta meðal utangarðsfólks, eða 238. Þetta kemur fram í skýrslu um hagi og líðan utangarðsfólks.

Þetta og fleira kom fram á fundi velferðarsviðs með fulltrúum Rauða krossins, Samhjálpar, SÁÁ og Fangelsismálastofnunar þar sem skýrsla sviðsins um aðstæður þeirra sem skilgreinast sem utangarðs í borgarsamfélaginu var kynnt. Utangarðsfólk er ekki endilega húsnæðislaust en skilgreining á því hvað það þýðir að vera utangarðs má finna í skýrslunni.

 Á fundinum var einnig farið yfir þau úrræði sem velferðarsvið rekur í dag og styrkir og þær áætlanir sem eru varðandi fjölgun bæði sérstækra búsetuúrræða og almenns leiguhúsnæðis.

Þátttakendur í rannsóknarskýrslu um hagi utangarðsfólks voru starfsmenn þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar, Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands, Samhjálp, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Fangelsismálastofnun og SÁÁ sem ýmist þjónusta utangarðsfólk og/eða þekkja vel til aðstæðna þeirra.

Utangarðsfólk er flest af íslenskum uppruna, eða 86,5%. Sex af hundraði eru Pólverjar og 5,3% frá tólf öðrum löndum. Ekki var vitað um þjóðerni átta einstaklinga.

Flestir sem skilgreinast utangarðs í borgarsamfélaginu eru á aldrinum 21–40 ára, eða tæpur helmingur og fæstir voru í yngstu og elstu aldurshópunum, eða tvö prósent  á aldrinum  18–20 ára og sjö prósent 61–80 ára.

Áfengisvandi og misnotkun annarra vímuefna voru talin helsta orsök þess að einstaklingar lendi utangarðs en næstalgengasta orsökin eru geðræn vandamál.  80% þeirra 142 utangarðsmanna sem eru með geðrænan vanda glíma einnig við áfengis-  og vímuefnavanda.

Flestir neyta áfengis- og annarra vímuefna að staðaldri, eða 62% þeirra en 23% einstaklinganna voru hættir neyslu. Hlutfall karla og kvenna er jafnt hvað varðar neyslu áfengis og annarra vímuefna að staðaldri. Einnig er það nokkuð jafnt hlutfall milli kynja þegar kemur að neyslu annarra vímuefna en áfengis. Karlar sem neyta eingöngu áfengis eru hlutfallslega fleiri en konur og hlutfallslega fleiri karlar  hafa hætt neyslu.

Flestir þátttakendur sögðu utangarðsfólk leita til velferðarsviðs Reykjavíkur, Landspítalans, SÁÁ, AA-samtakanna og Rauða kross Íslands. Einnig nefndu þátttakendur stofnanir og félagasamtök á borð við Samhjálp, Virk starfsendurhæfingu, Reglu Móður Theresu, VR teymið, Fjölskylduhjálpina, Draumasetrið – áfangaheimili, Krýsuvíkursamtökin, heilsugæsluna, Hjálpræðisherinn, og Vernd – fangahjálp.

Samanburður milli ára

Fjölgað hefur verulega í hópi utangarðsfólks ef rannsóknin nú er borin saman við sambærilega kortlagningu á árinu 2012. Karlmenn eru í meirihluta líkt og árið 2012 en konum hefur hlutfallslega fækkað.

Hlutfall einstaklinga af erlendum uppruna stendur í stað á milli áranna 2012 og 2017 og ekki hefur fjölgað hlutfallslega í neinum aldurshópi á milli ára.

Fjöldi utangarðfólks sem býr í langtímabúsetuúrræðum  stendur í stað á milli ára eða um 17% af heildarfjölda þeirra.

Húsnæðismál utangarðafólks

Utangarðsfólk er breiður hópur með ólíkar þarfir. Sumir geta búið í sjálfstæðri búsetu með stuðningi en aðrir þurfa sértæk úrræði.

Borgarráð hefur samþykkt að fjölga félagslegum íbúðum um að lágmarki 500 árin 2015–2020 og um 100 til viðbótar til 2034, alls yfir 600 íbúðir.  Einnig fór af stað sérstakt átaksverkefni í haust til að fjölga félagslegum leiguíbúðum enn hraðar og búið er að kaupa yfir 100 nýjar félagslegar leiguíbúðir á árinu og stefnt er að því að íbúðirnar verði um 150 fyrir árslok.

Í uppbyggingaráætlun borgarinnar um sértæk húsnæðisúrræði til ársins 2030 er gert ráð fyrir 200 íbúðum fyrir fatlað fólk, þar af fimm íbúðakjarnar fyrir einstaklinga með geðfötlun en einn þeirra verður fyrir fólk með geðfötlun og fíknivanda. Auk þess er stefnt að fjölgun smáhýsa fyrir fólk með vímuefnavanda.   

Í Víðinesi fer  fljótlega af stað nýtt úrræði þar sem velferðarsvið mun bjóða upp á 14 herbergi til leigu sem tímabundna lausn fyrir fólk sem annars væri húsnæðislaust.

Fyrir einstaklinga sem eiga í margháttuðum félagslegum vanda, s.s. vegna áfengis- og vímuefnaneyslu rekur velferðarsvið sjö heimili fyrir 60 íbúa. Heimilin eru sum hver starfrækt með þjónustusamningum og í samstarfi við félagasamtök. Markmiðið er m.a. að veita víðtækan stuðning sem lið í endurhæfingu og aðlögun að sjálfstæðri búsetu. Reykjavíkurborg styrkir auk þess rekstur áfangaheimila sem rekin eru af þriðja aðila og alls tekur borgin þátt í að greiða kostnað vegna 142 rýma á áfangaheimilum.

Skýrslan í heild sinni