Gríðarlega mikil uppbygging framundan

Stjórnsýsla Skipulagsmál

""

Uppbygging í Reykjavík stefnir í að verða meiri en nokkru sinni áður, eftir því sem fram kom í erindum á opnum fundi um stöðu atvinnulífs í borginni, sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun.

Mikill áhugi var fyrir fundinum og var hvert sæti setið. Áhersla var á að draga fram stöðu mála í  atvinnuþróun, ferðamennsku og mannvirkjagerð í Reykjavík.  Í kynningum á fundinum kom fram að eftir fimm ára lægð í uppbyggingu er ljóst að komandi misseri munu einkennast af auknum framkvæmdum, einkum í ferðaþjónustu og byggingu íbúðarhúsnæðis. 

Jón Gnarr borgarstjóri bauð gesti velkomna og sagði spennandi tíma framundan í Reykjavík. Uppgangur ferðaþjónustu væri ótrúlegur og sem dæmi um áhuga erlendra miðla á Reykjavík nefndi hann að í sinni borgarstjóratíð hefði hann rætt við yfir 500 erlenda fjölmiðla.

Ferðaþjónustan stærsta útflutningsgreinin

Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar og ferðamálasviðs,  gaf sýndi í kynningu sinni vöxt ferðaþjónustu í Reykjavík, en ferðaþjónustan er orðin stærsta útflutningsgrein Íslands.  Hún dró fram áherslur í ferðamálastefnu Reykjavíkur til ársins 2020, sem eru menningarborg, heilsuborg, ráðstefnuborg og vetrarborg.

Svanhildur sagði frá sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins en þar er unnið með vörumerkið „Reykjavík“. Í þeirri vinnu hafa verið dregið fram lykilorð úr rannsóknum meðal gesta borgarinnar og þeirra sem hafa áhuga á Íslandi, en þau lykilorð sem tengd eru við borgina eru vinaleg, friðsæl, menningarleg, litrík, nútímaleg, hrein og smá.  Nær allir gestir sem til Reykjavíkur koma eða 98% þeirra ætla að mæla með borginni við vini.

Skapandi greinar og uppbyggingarsvæði

Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri atvinnuþróunar,  sagði frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem heldur utan um margvísleg þróunarverkefni innan borgarkerfisins í samræmi við atvinnustefnu borgarinnar.  Hlúð er að Reykjavík sem ákjósanlegum stað til að stofna og byggja upp alþjóðleg þekkingarfyrirtæki. Í samvinnu við háskólana og Landsspítalann sé unnið að uppbyggingu þekkingarsvæðis. Þá sagði hann frá því að Reykjavík hefði í könnun fDi magazine um framtíðarborgir lent í 2. sæti á undan Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.

Árangur margvíslegra samstarfsverkefna er að koma í ljós og nefndi Óli Örn Fab Lab í Breiðholti og frumkvöðlasetur skapandi greina sem opnar á Hlemmi í næstu viku og kyndir þar undir einum heitasta reit borgarinnar.

Viðsnúningur í byggingu íbúða

„Reykjavík dregur vagninn í auknum hagvexti í landinu,“ sagði Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs og hann sýndi í sinni kynningu gífurlega aukningu á byggingu íbúðarhúsnæðis.  Á árabilinu 2007 – 2012 hefði þurft að byggja 2.700 fleiri íbúðir en raun var og segir Dagur nauðsynlegt að vinna upp þetta gap til að mæta þörf fyrir íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Frá þessu alkuli eftir hrun var árið 2013 byrjað að byggja 614 íbúðir og nú í ár gera spár ráð fyrir að framkvæmdir við 950 íbúðir hefjst.  Aukningin árið 2015 gæti svo orðið mun meiri.

Dagur gerði óskir ungs fólks um búsetu að umræðuefni, en það vill einkum búa miðsvæðis í leiguhúsnæði og þær óskir ríma mjög vel við nýsamþykkt aðalskipulag. Hann fór síðan í kynningarglærum sínum yfir helstu uppbyggingarreitina og ljóst er að þar er ákaflega margt í pípunum.

Í samantekt Dags er einnig gerð grein fyrir uppbyggingu hótel og gististaða í Reykjavík, en bygging nær 1.200 gistiherberja er í gangi.  Hann sagði að borgaryfirvöld vildu greiða þessari uppbyggingu leið og það tæki þrýsting af því þá yrði síður almennt íbúðarhúsnæði notað sem gistirými. Dagur sagði þó nauðsynlegt að staldra við því ekki gæti þessi þróun haldið áfram og komið væri að þolmörkum miðborgarinnar. Stækka þyrfti svæðið og nefndi hann nokkra möguleika í því sambandi.

 

Kynningarglærur frá fundinum: