Aðgerðaráætlun um hvernig bæta megi lestrarárangur

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag að skipa starfshóp sem skili fyrir apríllok tímasettri aðgerðaáætlun um læsi.

Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum leikskóla, grunnskóla, frístundastarfs, skólaþjónustu, háskólasamfélagsins og Miðju máls og læsis. Fagráð um leiðir til að efla málþroska, lestrarfærni og lesskilning barna og ungmenna hefur skilað sínum tillögum, en nýr starfshópur á að koma með tillögu að nánari útfærslu þeirra, sérstaklega hvernig megi stuðla að auknum framförum nemenda og hækka hlutfall þeirra sem geta lesið sér til skilnings. Jafnframt á hópurinn að greina niðurstöður lestrarskimana og eftir atvikum annarra fyrirliggjandi prófa m.a. út frá fylgni við lýðfræðilegar breytur, samsetningu nemendahópa og kennsluaðferðir.

Í greinargerð með tillögunni sem meirihluti Bjartrar framtíðar, Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata stóð að segir m.a.:

Læsi-2, sem er próf til notkunar við lesskimun í 2. bekk grunnskóla hefur verið lagt fyrir í Reykjavík frá árinu 2002 eða í 15 ár. Hlutfall nemenda sem geta lesið sér til skilnings hefur farið hæst í 71% á þessu tímabili. Meðaltal þessa árabils er 65,7%. Niðurstaðan á vorönn 2017 var undir meðaltali þessara ára. Skýrsla fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings kom út vorið 2015 en markviss innleiðing fór af stað haustið 2016 þegar ráðgjafastöðin Miðja máls og læsis tók til starfa á skóla- og frístundasviði. Þar hófu störf fjórir ráðgjafar sem sinna hátt í 150 starfsstöðvum. Ráðgjafarnir hafa hafa sinnt ráðgjöf, haldið námskeið og flutt erindi um mál og læsi fyrir kennara, starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og foreldra í Reykjavík. Meðal annars hófust síðastliðið haust nýliðanámskeið um mál og læsi fyrir alla nýja starfsmenn leikskóla. Þau verkefni eru öll liður í því að bæta vinnu með mál og læsi sem með tímanum bætir árangur barna í lestri. Fjármagn til kennslu í íslensku sem öðru tungumáli var einnig aukið í janúar 2017. Grunnskólar fá í dag úthlutað 130.000 kr. á ársgrundvelli fyrir hvern nemanda sem þarf mikinn stuðning samkvæmt niðurstöðum sérhæfðs próf sem mælir þekkingu nemenda í íslensku sem öðru tungumáli.

Þá kemur fram í greinargerð að haustið 2015 hafi verið úthlutað fjármagni í stuðning vegna læsis fyrir 300 nemendur í skólum borgarinnar en mikil breyting varð um áramótin 2016-2017 þegar úthlutun var aukin. Á vorönn 2017 var úthlutað vegna 1.923 barna og á haustönn sama ár vegna 2.147 barna.

Jafnframt segir í greinargerð að grípa þurfi snemma inn til að mæta þörfum íslenskra barna sem standi höllum fæti í málþroska miðað við jafnaldra, þ.e. eru með málþroskaraskanir.  Auka þurfi meðvitund um stuðning og aðferðir sem auki árangur í námi þessa hóps en gera má ráð fyrir að 2-3 börn séu með málþroskaröskun í hverjum 20 barna hópi. Tilgangurinn sé að finna svo fljótt sem verða má þá hópa nemenda sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda og stuðla að því að sá stuðningur skili þeim góðum framförum.

Þá kemur fram að tengja þurfi vinnu nýs starfshóps við menntastefnu Reykjavíkur sem nú er í smíðum og áætlað er að liggi fyrir í fyrsta ársfjórðungi 2018. Ein af megináherslum menntastefnunnar er læsi og er  stefnt að því að öll börn geti lesið sér til gagns og gamans og hafi náð nauðsynlegri leikni í öllum þáttum læsis.