Metnaðarfullar tillögur um leiðir til að efla lestrarfærni barna

Skóli og frístund

""

Fagráð um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings meðal barna og ungmenna í skólum hefur skilað tillögum sínum með áfangaskýrslu sem kynnt var í skóla- og frístundaráði í dag.

Fagráðið leggur fram fimm megintillögur sem endurspegla áherslu á markvissa stefnumörkun og eftirfylgd með framförum í læsi, öflugan stuðning og ráðgjöf við starfsfólk leik- og grunnskóla, snemmtæka íhlutun, samstarf skólastiga og áherslu á markvissa læsiskennslu út allan grunnskólann.

Skýr framtíðarsýn
Tillögurnar fimm eru í nokkrum liðum og miðar sú fyrsta að því að 90% grunnskólanemenda nái lágmarksviðmiðum í lestrarskimun í 2. bekk. M.a. er lagt til að læsisstefna leikskóla og lestrarstefna grunnskóla verði endurskoðaðar með hliðsjón af þeim markmiðum. Allir leik- og grunnskólar eiga í ljósi þeirra að móta sína áætlun með leiðum til að efla málþroska og læsi. Jafnframt er lagt til að leik- og grunnskólar í sama hverfi setji sér samstarfsáætlun um mál og læsi og nái það til frístundastarfsins. Þá leggur fagráðið til að innleidd verði stöðluð viðmið um læsi í 1. - 10. bekk, að leikskólar leggi prófið HLJÓM2 fyrir börn á síðasta leikskólaári samhliða könnun á stafaþekkingu þeirra, og að skimað verði fyrir málþroskavanda á aldrinum 2 - 3 ára. 

Miðstöð máls og læsis
Önnur megintillaga fagráðsins kveður á um aðgerðir til að bæta stuðning, ráðgjöf og símenntun leik- og grunnskólakennara á sviði máls og læsis. Lagt er til að sett verði á laggirnar Miðstöð máls og læsis sem vinni sérstaklega að því að byggja upp fagmennsku kennara með tilliti til lestrarkennslu. Miðstöðin verði starfrækt á vegum skóla- og frístundasviðs en starfi í nánu samstarfi við sérfræðiþjónustu skóla á þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Með því verði tryggt aðgengi allra skóla að ráðgjöf og stuðningi og sérstaklega horft til leikskólans og yngsta stigs grunnskólans.  Meðal þess sem Miðstöð máls og læsis mun gera er að standa fyrir námskeiðum, halda úti heimasíðu og byggja upp gagnagrunn um raunprófaðar kennsluaðferðir í samvinnu við sérfræðinga á Menntavísindasviði HÍ. Þá leggur fagráðið til að skipulag og verklag tengt sérfræðiþjónustu skóla verði endurskoðað og að fé til símenntunar verði í auknum mæli varið til að mennta og þjálfa leik- og grunnskólakennara í að fylgjast með málþroska og skima fyrir frávikum.  Þá er í tillögu um markvissa lestrarkennslu í öllum árgöngum grunnskólans kveðið á um sérstakar viðbragðsáætlanir fyrir nemendur sem ekki ná settum viðmiðum í lestri.

Meginverkefni fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings var að setja fram tillögur sem miða  að því að bæta málþroska og læsi allra leik- og grunnskólabarna, byggðar á gagnreyndri nálgun, víðtæku samráði og því sem vel væri gert í leik- og grunnskólum Reykjavíkur, sem og annarra sveitarfélaga. Rík áhersla var lögð á að móta tillögur sem tryggja að sem flest börn hefji grunnskólagöngu sína með traustan grunn í undirstöðuþáttum læsis og jafna þannig tækifæri þeirra til náms og í lífinu öllu.

Sjá áfangaskýrsluna í heild sinni.