Spennandi að fjárfesta í Reykjavík

Fjármál Atvinnumál

""

Reykjavíkurborg er annar mest spennandi fjárfestingarkostur Norðurlandanna að mati fDi Intelligence tímaritsins sem gefið er út af stórblaðinu Financial Times. Reykjavíkurborg og Íslandsstofa skoða nú að hafa samstarf um þátttöku á alþjóðlegri fasteignaþróunarráðstefnu til að kynna tækifærin í höfuðborginni.
 

Reykjavíkurborg var nú í mars í öðru sæti á lista yfir norður evrópskar borgir framtíðarinnar í sérriti fDi Intelligence: „European Cities and Regions of the Future 2014/2015“.  fDi Intelligence er gefið út af Financial Times og sérhæfir sig í umfjöllun um beina erlenda fjárfestingu. Einungis Helsinki var fyrir ofan Reykjavík en bæði Stokkhólmur og Kaupmannahöfn lentu í neðri sætum í flokknum „Norður evrópskar borgir að Bretlandi og Írlandi undanskildum“.

European Cities and Regions of the Future er gefið út á tveggja ára fresti og varpar ljósi á borgir og svæði með mikil tækifæri til fjárfestinga á komandi árum. Listarnir eru unnir af sérfræðingum tímaritsins og byggja á sjálfstæðri gagnaöflun þar sem meðal annars er skoðuð laun, verg landsframleiðsla, innviðir, menntunarstig, atvinnusköpun og verðbólga á 468 stöðum, bæði borgum og héruðum.

Það var skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg sem hafði umsjón með þátttöku borgarinnar í greiningu fDi Intelligence. Skrifstofan  hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu í Reykjavík með samhæfingu skipulags, fjárfestinga og framkvæmda.  Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri atvinnuþróunar á skrifstofunni segir árangurinn eftirtektarverðan og sýni sterkar grunnstoðir hagkerfis Reykjavíkurborgar í alþjóðlegum samanburði.

Stærsta fasteignaþróunarráðstefna í heimi

Hrólfur Jónsson skrifstofustjóri Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg tók á móti sérstakri viðurkenningu Fdi Magazine á MIPIM fasteignaþróunarráðstefnunni í Cannes í síðustu viku. Hrólfur leiddi þar íslenska sendinefnd sem kannaði möguleika þess að Reykjavík myndi taka þátt í MIPIM, en ráðstefnan er stærsta ráðstefna sinnar tegundar í heiminum. Á MIPIM kynna borgir, lönd og fylki fjölda þróunarverkefna á sínu svæði með það að markmiði að fá erlenda fjárfesta til liðs við verkefnin svo þau geta orðið að veruleika auk þess sem verktakar, verkfræðistofur, arkitektar, fjármálastofnanir o.fl. líta á MIPIM sem eina skilvirkustu leiðina til að kynna starfsemi sína í tengslum við erlenda verkefnaöflun.

Yfir 20 þúsund gestir frá um 80 löndum sækja ráðstefnuna, 4.303 fjárfestar og 1.650 stjórnendur fyrirtækja.

Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar sér um markaðssetningu og þróun lands í samræmi við  atvinnustefnu borgarinnar og aðalskipulag.  Hún vinnur í samráði og samvinnu við fagsvið og fyrirtæki borgarinnar, önnur sveitarfélög, hið opinbera sem og  einkaaðila.