Lífsgæðakjarnar framtíðarinnar
Hugmyndaleit og kall eftir samstarfsaðilum
Lífsgæðakjarnar eru heiti yfir nýja nálgun á húsnæði sem er einkum hugsað fyrir eldra fólk þar sem áhersla er á fjölbreytt búsetuform. Eignaríbúðum, leiguíbúðum og jafnvel hjúkrunarrýmum er raðað saman í aðlaðandi umhverfi með aðgengi að fjölbreyttri þjónustu og í bland við íbúðarhúsnæði fyrir aðra aldurshópa. Markmiðið er að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og komið er til móts við ólíkar þarfir.
Reykjavíkurborg auglýsir nú annars vegar eftir hugmyndum vegna þróunar á lífsgæðakjörnum og hins vegar eftir samstarfsaðilum sem vilja taka þátt í uppbyggingu lífsgæðakjarna.
Hugmyndaleit
Reykjavíkurborg leitar eftir ábendingum og áhugaverðum fyrirmyndum vegna þróunar og uppbyggingar á lífsgæðakjörnum framtíðarinnar. Með þessari hugmyndaleit vill borgin draga fram, og varpa ljósi á áhugaverðar hugmyndir og verkefni sem tengjast framþróun í húsnæðismálum eldra fólks. Efni hugmyndanna verður nýtt við mótun á verkefninu til framtíðar.
- Hugmyndir berist á netfangið athafnaborgin@reykjavik.is með efnislínunni “Hugmyndaleit - lífsgæðakjarnar.
Kall eftir samstarfsaðilum
Samhliða hugmyndaleitinni óskar borgin eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu og rekstur á lífsgæðakjörnum. Óskað er eftir að mögulegir samstarfsaðilar lýsi annars vegar hugmyndum sínum og mögulegum útfærslum. Fram komi hver sé hugmynd viðkomandi að samsetningu húsnæðis og þjónustu, hlutfall óhagnaðardrifins húsnæðis, samhengi við skipulag næsta nágrennis, íbúa og þjónustuþega, stærð og skala og svo framvegis.
Bæði er auglýst eftir mögulegum samstarfsaðilum sem vilja þróa lífsgæðakjarna á eigin lóðum en einnig þeim sem hafa hug á því að þróa slík verkefni á svæðum í eigu borgarinnar. Endanleg staðsetning slíkra verkefna hefur ekki verið ákveðin en gert er ráð fyrir að lífsgæðakjarnar geti m. a. byggst upp í Úlfarsárdal við Leirtjörn vestur á Ártúnshöfða, og við Borgarspítala í Fossvogi.
- Samstarfstillögur berist á netfangið athafnaborgin@reykjavik.is með efnislínunni “Lífsgæðakjarnar - samstarfsaðilar”.
Umsóknarfrestur
- Frestur til þess að senda inn erindi er 30. maí 2023.