Yfirkjörstjórn Reykjavíkur
Ár 2022, miðvikudaginn 23. febrúar, var haldinn fundur yfirkjörstjórnar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15:01. Viðstödd voru Ari Karlsson, Eva B. Helgasdóttir og Tómas Hrafn Sveinsson. Auk þeirra voru mætt á fundinn áheyrnarfulltrúarnir Bjarni Sigtryggsson og Ásta Karen Ágústsdóttir. Þá voru mætt Helga Björk Laxdal skrifstofustjóri borgarstjórnar og starfsmennirnir Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Páll Hilmarsson. Viðstaddur var með fjarfundarbúnaði áheyrnarfulltrúinn Guttormur Þorsteinsson.
Þetta gerðist:
-
Fundargerð fundar yfirkjörstjórnar 9. febrúar 2022 lögð fram.
-
Eva B. Helgadóttir upplýsir að búið sé að ráða framkvæmdastjóra Landskjörstjórnar og að vinna við breytingar á kosningalögum og setningu reglugerða sé hafin og að fundað hafi verið með dómsmálaráðuneyti og framkvæmdastjóra Landskjörstjórnar um stöðu mála.
Ari Karlsson upplýsir aðkomu sína að undirbúningi reglusetningar vegna setu í undirbúningsnefnd, samkvæmt IV. bráðabirgðaákvæðis við kosningalög nr. 21/2021.
Fram fara umræður.
Yfirkjörstjórn og áheyrnarfulltrúar leggja fram sameiginlega bókun:
Yfirkjörstjórn Reykjavíkur leggur áherslu á að frumvarp um nauðsynlegar breytingar á kosningalögum varðandi viðmiðunardag kjörskrár og fresti, sbr. fyrri athugasemdir Reykjavíkurborgar, verði sem fyrst lagt fram á Alþingi til samþykktar. Þá er nauðsynlegt að reglugerðir og reglur sem setja ber samkvæmt nýjum kosningalögum verði sem fyrst settar. Yfirkjörstjórn leggur sérstaka áherslu á að nauðsyn standi til þess að reglugerðir um söfnun meðmæla (sbr. 41. gr.), um kjörgögn og fl. (sbr. 65. gr.) og um aðstoð við atkvæðagreiðslu (sbr. 89. gr.) og reglugerð um efni auglýsinga um framboðslista og birtingarhátt (47. gr.) verði settar sem allra fyrst þannig að nægilegt tóm veitist til undirbúnings á framkvæmd kosninga. Yfirkjörstjórn óskar eftir því að upplýst verði um stöðu ofangreinds eins fljótt og auðið er.
Skrifstofustjóra borgarstjórnar er falið að koma bókun á framfæri við landskjörstjórn og dómsmálaráðuneyti.
-
Lögð eru fram eyðublöð fyrir meðmælendalista og framboðslista vegna borgarstjórnarkosninga.
Fram fara umræður.
Skrifstofa borgarstjórnar mun uppfæra eyðublöð til samræmis við ábendingar og senda til yfirkjörstjórnar til endanlegrar samþykktar.
-
Páll Hilmarsson upplýsir að fundað hafi verið með fulltrúum umhverfis- og skipulagssviðs og Sýningakerfa varðandi uppsetningu á kjörklefum fatlaðra, sbr. 3. lið í fundargerð yfirkjörstjórnar 9. febrúar sl. Gerð verði tillaga að uppsetningu sem verði lögð fram í aðgengis- og samráðsnefnd.
Helga Laxdal upplýsir að við þessar kosningar verði notast við meðmælendakerfi Þjóðskrár sem er sama kerfi og notast var við 2018 og ekki verði unnt að undirrita meðmælalista með rafrænum undirritunum.
Helga Laxdal upplýsir um fund með sýslumanni en utankjörfundaratkvæðagreiðsla muni hefjast laugardaginn fyrir páska. Verið er að leita að húsnæði fyrir atkvæðagreiðslu í Reykjavík.
Fundi slitið klukkan 15:49