Yfirkjörstjórn Reykjavíkur
Ár 2022, föstudaginn 13. maí, var haldinn fundur yfirkjörstjórnar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 18:00. Viðstödd voru Ari Karlsson, Eva B. Helgadóttir og Tómas Hrafn Sveinsson. Auk þeirra voru mætt á fundinn áheyrnarfulltrúarnir Ásta Karen Ágústsdóttir, Bjarni Sigtryggsson og Guttormur Þorsteinsson. Með á fundinum voru þau Helga Björk Laxdal skrifstofustjóri borgarstjórnar, Bjarni Þóroddsson, Páll Hilmarsson og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir starfsfólk yfirkjörstjórnar.
Þetta gerðist:
-
Fært er í gerðabók að klukkan 09:00, miðvikudaginn 11. maí sl., voru 10 atkvæðakassar með atkvæðabréfum utan kjörfundar sótt til embættis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu af Evu B. Helgadóttur f.h. yfirkjörstjórnar, Páli Hilmarssyni og Auði Lilju Erlingsdóttur, starfsfólki yfirkjörstjórnar og færðir í borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Viðstaddur afhendingu var Birgir Steinarsson, umboðsmaður Pírata.
Í borgarstjórnarsal voru innsigli á atkvæðakössum, sem ölll voru heil, rofin að viðstöddum eftirfarandi umboðsmönnum framboðslista: Ara Tryggvasyni og Önnu Hjartardóttur, Ábyrgri Framtíð, Rúnari Sigurjónssyni, Flokki fólksins, Jóhanni Karli Sigurðssyni, Framsóknarflokki, Aroni Þór Tafjord, Miðflokki, Birgi Steinarssyni, Pírötum, Gunnari H. Gunnarssyni, Erni Sigurðssyni og Guðmundi Óli Scheving, Reykjavík, bestu borginni, Sigríði Ingibjörg Ingadóttur, Samfylkingu, Gísla Kr. Björnssyni, Sjálfstæðisflokki, Þórdísi Bjarnleifsdóttur og Guðrúnu Vilhjálmsdóttur, Sósíalistaflokki, Ingvari Þóroddssyni, Viðreisn og Steinari Harðarsyni, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði.
Í kjölfarið hefst yfirferð og flokkun atkvæðabréfa til afhendingar í kjördeildir af hálfu yfirkjörstjórnar, sbr. 92. gr. kosningalaga, í borgarstjórnarsal.
-
Fært er í gerðabók að klukkan 18:00 innsiglaði Ari Karlsson f.h. yfirkjörstjórnar að viðstöddum Páli Hilmarssyni og Bjarna Þóroddssyni, innganga að borgarstjórnarsal þar sem móttekin utankjörfundaratkvæði eru varðveitt. Innsiglisnúmer er að finna í fylgiskjali með fundargerð þessari.
-
Fært er í gerðabók að klukkan 09:00, fimmtudaginn 12. maí sl., voru 3 atkvæðakassar með atkvæðabréfum utan kjörfundar sótt til embættis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu af Bjarna Sigtryggssyni f.h. yfirkjörstjórnar, Páli Hilmarssyni og Auði Lilju Erlingsdóttur, starfsfólki yfirkjörstjórnar, og færðir í borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Við komu í Ráðhús Reykjavíkur voru innsigli að borgarstjórnarsal, sem voru heil, rofin af Bjarna Sigtryggssyni, atkvæðakassar færðir í salinn og innsigli þeirra, sem ölll voru heil, rofin að viðstöddum eftirfarandi umboðsmönnum framboðslista: Sigurði Þórðarsyni, Flokki fólksins, Hauki Loga Karlssyni, Framsóknarflokki, Aroni Þór Tafjord, Miðflokki, Birgi Steinarssyni, Pírötum, Erni Sigurðssyni, Reykjavík, bestu borginni, Sigríði Ingibjörg Ingadóttur, Samfylkingu, Sólrúnu Sverrisdóttur, Sjálfstæðisflokki, Þórdísi Bjarnleifsdóttur og Guðrúnu Vilhjálmsdóttur, Sósíalistaflokki, Ingvari Þóroddssyni, Viðreisn og Steinari Harðarsyni, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði.
Í kjölfarið heldur áfram yfirferð og flokkun atkvæðabréfa til afhendingar í kjördeildir í borgarstjórnarsal.
-
Fært er í gerðabók að klukkan 18:00 innsiglaði Ásta Karen Ágústsdóttur f.h. yfirkjörstjórnar að viðstöddum Páli Hilmarssyni og Bjarna Þóroddssyni, innganga að borgarstjórnarsal, Innsiglisnúmer er að finna í fylgiskjali með fundargerð þessari.
-
Fært er í gerðabók að klukkan 09:00, föstudaginn 13. maí sl., voru 5 atkvæðakassar með atkvæðabréfum utan kjörfundar sótt til embættis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu af Helga Bergmann, f.h. yfirkjörstjórnar, Páli Hilmarssyni og Auði Lilju Erlingsdóttur, starfsfólki yfirkjörstjórnar, og færðir í borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Við komu í Ráðhús Reykjavíkur voru innsigli að borgarstjórnarsal, sem voru heil, rofin af Helga Bergmann, atkvæðakassar færðir í salinn og innsigli þeirra, sem ölll voru heil, rofin að viðstöddum eftirfarandi umboðsmönnum framboðslista: Sigurði Þórðarsyni, Flokki fólksins, Jóhanni Karli Sigurðssyni, Framsóknarflokki, Óttari Ottóssyni, Miðflokki, Arnari Vilhjálmi Arnarssyni, Pírötum, Erni Sigurðssyni, Reykjavík, bestu borginni, Sigríði Ingibjörg Ingadóttur, Samfylkingu, Sólrúnu Sverrisdóttur, Sjálfstæðisflokki, Þórdísi Bjarnleifsdóttur og Guðrúnu Vilhjálmsdóttur, Sósíalistaflokki, og Steinari Harðarsyni, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Haft var samband við umboðsmenn þeirra framboðslista sem ekki var mætt fyrir sem lýstu því yfir að ekki yrði mætt af hálfu framboðslistans.
Í kjölfarið heldur áfram yfirferð og flokkun atkvæðabréfa til afhendingar í kjördeildir í borgarstjórnarsal.
-
Fært er í gerðabók að kl. 13:05 í dag, föstudag, tók Eva B. Helgadóttir f.h. yfirkjörstjórnar ásamt Helgu Björk Laxdal, Hildi Lilliendahl Viggósdóttur og Bjarna Þóroddssyni, starfsfólki yfirkjörstjórnar, í Ráðhúsi Reykjavíkur á móti 101.410 kjörseðlum frá prentsmiðju, sem komið var fyrir í fundarherberginu Turninum á 3. hæð norðurhúss Ráðhúss sem innsiglað var með þeim innsiglisnúmerum sem greinir í viðauka við fundargerð þessa.
-
Samtals hefur yfirkjörstjórn móttekið dagana 11.-13. maí 7.862 utankjörfundaratkvæði.
Tekið er til úrskurðar yfirkjörstjórnar hvort taka eigi samtals 105 utankjörfundaratkvæði til greina, sbr. 94. gr. kosningalaga, að viðstöddum eftirfarandi umboðsmönnum framboðslista: Rúnari Sigurjónssyni, Flokki fólksins, Jóhanni Karli Sigurðssyni, Framsóknarflokki, Steinari Þór Guðlaugssyni, Pírötum, Erni Sigurðssyni, Reykjavík, bestu borginni, Láru V. Júlíusdóttur, Samfylkingunni, Þórdísi Bjarnleifsdóttur og Guðrúnu Vilhjálmsdóttur, Sósíalistaflokki, og Steinari Harðarsyni, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði.
Fyrst er tekið til úrskurðar hvort taka eigi til greina fjögur utankjörfundaratkvæði sem öll bárust í innsigluðum atkvæðakössum frá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Utankjörfundaratkvæðin eiga það sameiginlegt að fylgibréf er ekki undirritað af kjörstjóra, en það er stimplað með embættisstimpli.
Yfirkjörstjórn hefur borist staðfesting í tölvupósti Ásdísar Höllu Arnardóttur kjörstjóra hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. í dag. Þar greinir að samkvæmt miðlægu kosningakerfi hafi fylgibréf með sömu dagsetningum verið prentað úr kosningakerfi af starfsmanni með aðgang að kerfinu.
Að þessu athuguðu telur yfirkjörstjórn að fyrir liggi að kjósandi hafi sannarlega greitt atkvæði hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, en kjörstjóra hafi láðst fyrir mistök að undirrita fylgibréfið svo sem skylt er. Fyrir liggur hvaða starfsmaður, sem starfaði við utankjörfundaratkvæðagreiðslu, prentaði viðkomandi fylgibréf út.
Með vísan til þeirrar grunnreglu að túlka beri ákvæði kosningalaga með þeim hætti að vafa beri að skýra kjósanda í hag sé þess kostur úrskurðar yfirkjörstjórn að atkvæðin eigi að taka til greina.
Næst er tekið til úrskurðar hvort taka eigi til greina 31 utankjörfundaratkvæði, öll frá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem öll eiga það sameiginlegt að fylgibréf er undirritað af kjörstjóra, en fylgiseðill er ekki stimplaður með embættisstimpli.
Gengið hefur verið úr skugga um að bréfin séu undirrrituð af kjörstjóra og með vísan til ítrekaðra fordæma úrskurðar yfirkjörstjórn að atkvæðin eigi öll að taka til greina.
Þá er tekið til úrskurðar hvort taka eigi til greina 50 utankjörfundaratkvæði sem eiga það öll sameiginlegt að fylgiseðill er undirritaður af kjósanda og kjörstjóra, en ekki hefur verið hakað í reit á fylgibréfi hvort aðstoð hafi verið veitt eða kosið hafi verið í einrúmi. Yfirkjörstjórn telur engan vafa hér um það að kosning hafi farið fram samkvæmt reglum enda þótt ekki hafi verið hakað við valmöguleika á seðlinum og úrskurðar því að atkvæðin skuli tekið til greina.
Næst er tekið til úrskurðar hvort taka eigi til greina 14 utankjörfundaratkvæði sem eiga það öll sameiginlegt að fylgiseðill er hvorki undirritaður af kjósanda né er merkt að kosið hafi verið með aðstoð. Til samræmis við ítrekuð fordæmi úrskurðar yfirkjörstjórn að þessi atkvæði skuli ekki tekin til greina.
Að síðustu er úrskurðað að ekki skuli taka 6 utankjörfundaratkvæði til greina sem fara í bága við a-lið, 1 atkvæði, og e. eða f. liði, 5 atkvæði, 1. mgr. 94. gr. kosningalaga.
Samtals úrskurðar yfirkjörstjórn því að til greina skuli taka 85 utankjörfundaratkvæði en 20 utankjörfundaratkvæði skuli ekki tekin til greina.
Fundi slitið klukkan 18:26