Yfirkjörstjórn Reykjavíkur - Fundur nr. 14

Yfirkjörstjórn Reykjavíkur

Ár 2022, miðvikudaginn 11. maí var haldinn fundur yfirkjörstjórnar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Viðstödd voru Ari Karlsson, Eva B. Helgadóttir og Tómas Hrafn Sveinsson. Auk þeirra voru mætt á fundinn áheyrnarfulltrúarnir Ásta Karen Ágústsdóttir, Guttormur Þorsteinsson og Bjarni Sigtryggsson. Með á fundinum voru þau Helga Björk Laxdal skrifstofustjóri borgarstjórnar, Bjarni Þóroddsson, Páll Hilmarsson, Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Þórhildur Lilja Ólafsdóttir, starfsfólk yfirkjörstjórnar.

Þetta gerðist:

 1. Lagt er fram erindi umboðsmanna E- lista, dags. 9. maí sl., þar sem óskað er leiðbeininga vegna óskar frambjóðandans, Birgittu Jónsdóttur, í 24. sæti listans um að nafn hennar verði numið af listanum.

  Undir þessum lið er jafnframt lagður fram tölvupóstur Birgittu Jónsdóttur, dags. 10. maí sl. þar sem hún upplýsir að hún kannist ekki við undirritun sína á eyðublaði um samþykki frambjóðanda sem fylgdi framboðstilkynningu E-lista.

  Örn Sigurðsson, umboðsmaður E-lista, er boðaður á fundinn undir þessum lið og tekur sæti á fundinum kl. 12:05.

  Mættum umboðsmanni er gert grein fyrir að hann sé kominn á fundinn vegna erindis sem hafi borist yfirkjörstjórn um það að frambjóðandi í 24. sæti E-lista, Birgitta Jónsdóttir, hafi lýst því yfir að undirritun hennar á yfirlýsingu frambjóðanda, sem skilað var með framboðstilkynningu til yfirkjörstjórnar 8. apríl sl., sé ekki hennar. Umboðsmaður er spurður hvort hann kannist við það að ekki sé um undirritun Birgittu að ræða. Aðspurður neitar umboðsmaðurinn að framboðinu hafi verið kunnugt um framangreint eða að ekki væri um undirritun Birgittu að ræða.

  Umboðsmaður óskar eftir því að eftirfarandi yfirlýsing umboðsmanna framboðsins og Guðmundar Óla Scheving verði bókuð:

  Við undirritaðir ábyrgðarmenn framboðsins Reykjavík, besta borgin hörmum þá umræðu sem komin er upp um óánægju aðila með setu sína í 24. sæti á framboðslista og um fullyrðingar þess sama aðila um fölsun undirskriftar. Við erum ekki í aðstöðu til að meta fullyrðingu um fölsun undirskriftar á þessari stundu. Óánægja þessa aðila kemur okkur á óvart og þykir okkur mjög miður. Rannsókn stendur yfir innan framboðsins á meðferð gagna í aðdraganda að skilum á listum yfir meðmælendur annars vegar og hins vegar listum yfir frambjóðendur þann 8. apríl s.l. Við höfum staðið í þeirri góðu trú að listarnir séu réttir. Yfirkjörstjórn hefur úrskurðað að framboðið Reykjavík, besta borgin sé gilt. Framboðið mun því halda áfram að kynna málefnin og taka þátt í konsingabaráttunni. Við munun leggja okkur fram um að eiga gott samstarf við yfirkjörstjórn Reykjavíkur.

  -Klukkan 12:13 víkur Örn Sigurðsson af fundinum.

  Birgitta Jónsdóttir er boðuð á fundinn og tekur sæti á honum kl. 12:13 með fjarfundarbúnaði.

  Birgitta er spurð um afstöðu til málsins. Aðspurð segir Birgitta að hún hafi fyrst orðið þessa áskynja þegar fjölmiðlar höfðu samband við hana í upphafi viku. Hún segir að ekki sé um undirritun sína að ræða á yfirlýsingu frambjóðanda og sýnir í mynd sýnishorn af undirritun sinni því til staðfestingar. Birgitta spyr hvort að nafn hennar muni vera áfram á listanum. Yfirkjörstjórn tekur fram að um að þetta fari samkvæmt kosningalögum en til skoðunar sé hvort að málið verði tilkynnt til héraðssaksóknara. Birgitta er innt eftir afstöðu til þess og lýsir því yfir að hún vilji að málið verði tilkynnt og muni tilkynna það sjálf ef yfirkjörstjórn gerir það ekki.

  -Klukkan 12:27 víkur Birgitta Jónsdóttir af fundinum.
  -Klukkan 12:30 víkja Bjarni Þóroddsson og Páll Hilmarsson af fundinum.

  1

  Fram fara umræður.

  Yfirkjörstjórn og áheyrnarfulltrúar leggja fram eftirfarandi tillögu:

  Eins og hér á stendur hafa ákvæði kosningalaga ekki að geyma heimild til þess að breyta framboðslistum eða nema nafn frambjóðanda af lista eftir að framboðsfrestur er úti samkvæmt 36. gr. kosningalaga. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 388/2022 um kjörgögn, atkvæðakassa og fleira við kosningar skulu kjörseðlar vera að jafnaði fullgerðir eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag. Að því athuguðu er því hvorki heimild samkvæmt kosningalögum né ráðrúm til þess að nema nafn frambjóðanda í 24. sæti E-lista af framboðslistanum við borgarstjórnarkosningar nk. laugardag. Í máli þessu hefur frambjóðandinn staðhæft að hún hafi ekki undirritað yfirlýsingu þar sem hún leyfir að nafn hennar verði sett á listann. Andspænis því hafa umboðsmenn E-lista fullyrt að þeir hafi ekki haft vitneskju um að ekki væri um undirritun frambjóðandans að ræða. Þar sem orð stendur hér gegn orði getur yfirkjörstjórn ekki skorið úr um réttmæti þessara staðhæfinga. Með hliðsjón af gögnum málsins er hins vegar rökstuddur grunur til staðar að ekki sé hér um undirritun frambjóðandans að ræða. Yfirkjörstjórn leggur því til að málinu verði vísað til héraðssaksóknara til rannsóknar á því hvort að framangreint kunni að varða við XXIV. kafla kosningalaga eða eftir atvikum almenn hegningarlög og felur skrifstofu borgarstjórnar að senda þá tilkynningu.

  Samþykkt.

 2. Birgir Steinarsson umboðsmaður Pírata óskar að eftirfarandi sé fært í gerðabók yfirkjörstjórnar:

  Samkvæmt 1. mgr. 92. kosningalaga skal telja atkvæðisbréf og bera þau saman við skráningu kjörstjóra og kjörstjórnin opnar síðan atkvæðisbréfin og kannar hvort þau eiga að taka til greina. Í þessari framkvæmd er byrjað að meðhöndla atkvæðisbréfin áður en búið er að telja þau og stemma af. Gerð er athugasemd við þessa framkvæmd.

 3. Lögð er fram fundargerð fundar yfirkjörstjórnar 4. maí sl.

  Samþykkt.

 4. Lagður er fram tölvupóstur Hagstofu Íslands, dags. 5. maí, sl. ásamt fylgigögnum, til yfirkjörstjórnar um gagnasöfnun Hagstofu vegna sveitarstjórnarkosninga.

 5. Lagt er fram minnisblað yfirkjörstjórnar Reykjavíkur um helstu tímasetningar vegna talningar sem birt verður á kosningavef og komið á framfæri við fjölmiðla.

  Fylgigögn

 6. Lagt er fram tölvupóstur Huldu Katrínar Stefánsdóttur, fulltrúa í landskjörstjórn, dags. 9. maí sl., þar sem hún óskar að fylgjast með framkvæmd kosninga á kjördag.

  Samþykkt.

 7. Lagður er fram tölvupóstur skrifstofu borgarstjórnar f.h. yfirkjörstjórnar, dags. 8. maí sl., til umboðsmanna framboða, um umsýslu atkvæðabréfa þ.m.t. tímasetningar og afhendingu skilríkja yfirkjörstjórnar til umboðsmanna.

 8. Lögð er fram auglýsing sem birtist í dagblöðum á kjördag og á vef Reykjavíkurborgar.

 9. Lagður er fram tölvupóstur Ástu Karenar Ágústsdóttur, dags. í dag., þar sem ábending Sólveigar Daníelsdóttur, dags. í dag., um að auglýsing um borgarlínu í húsnæði Landspítala- Háskólasjúkrahúss, feli í sér dulbúinn kosningaáróður.

  Yfirkjörstjórn þakkar ábendinguna en þar sem umrædd auglýsing varðar hvorki kjörstaði á vegum Reykjavíkurborgar né framboðslista fellur það utan hlutverks yfirkjörstjórnar að taka afstöðu til ábendingarinnar.

Fundi slitið klukkan 13:34