Yfirkjörstjórn Reykjavíkur - Fundur nr. 11

Yfirkjörstjórn Reykjavíkur

Ár 2022, föstudaginn 22. apríl, var haldinn fundur yfirkjörstjórnar Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13:07. Viðstödd voru Ari Karlsson, Eva B. Helgadóttir og Tómas Hrafn Sveinsson. Auk þeirra voru mætt á fundinn áheyrnarfulltrúarnir Ásta Karen Ágústsdóttir og Bjarni Sigtryggsson. Í fjarfundarbúnaði var mættur áheyrnarfulltrúinn Helgi Bergmann. Þá voru mætt Helga Björk Laxdal skrifstofustjóri borgarstjórnar og Bjarni Þóroddsson, Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Páll Hilmarsson starfsfólk yfirkjörstjórnar.

Þetta gerðist:

  1. Lögð er fram fundargerð fundar yfirkjörstjórnar 9. apríl sl.

    Samþykkt.

  2. Lagt er fram erindi Arnar Sigurðssonar f.h. E-lista Reykjavíkur, bestu borgarinnar, dags. 9. apríl sl.

  3. Lagður er fram tölvupóstur umboðsmanns Y-lista Ábyrgrar Framtíðar, dags. 19. apríl sl., þar sem spurt er hvort unnt sé að gera breytingu á röð frambjóðenda á listanum, þannig að frambjóðendur í 4.-7. sæti listans víxli sætum.

    Yfirkjörstjórn og áheyrnarfulltrúar leggja fram eftirfarandi bókun:

    Af ákvæði 40. gr. kosningalaga nr. 112/2020 leiðir, sbr. og 46. gr. sömu laga, að ekki er heimild til staðar fyrir umræddri breytingu frambjóðanda á Y- lista. Af því leiðir að yfirkjörstjórn væri ekki heimilt að samþykkja beiðnina. Komi til þess að viðkomandi frambjóðandi nái kjöri getur hann hins vegar óskað lausnar á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar til samræmis við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

  4. Lögð er fram fyrirspurn umboðsmanns Viðreisnar, dags. 13. apríl sl., um leiðbeiningar um það þegar framboð óskar eftir eftir að skipta um umboðsmann listans.

    Yfirkjörstjórn leggur til að skrifstofa borgarstjórnar svari erindinu og veiti umbeðnar leiðbeiningar.

    1. Yfirkjörstjórn leggur til, með vísan til 5. mgr. 53. gr. kosningalaga nr. 112/2020 og fyrirmæla Landskjörstjórnar, dags. 11. apríl sl., um skilríki umboðsmanna, að frestur umboðsmanna lista til þess að tilnefna aðstoðarmenn og skila nauðsynlegum upplýsingum fyrir gerð skilríkja verði til kl. 16:00 miðvikudaginn 4. maí nk. Jafnframt er lagt til að kynningarfundur með umboðsmönnum framboða fari fram kl. 16:00 mánudaginn 2. maí nk.

      Fram fara umræður.

      Samþykkt.

    2. Lögð er fram próförk kjörseðils fyrir borgarstjórnarkosningar.

      Yifrkjörstjórn leggur til að próförk kjörseðils sé samþykkt, að því gefnu að gerðar verði breytingar á heiti í fyrirsögn þar sem standa skuli borgarstjórnarkosningar og með fyrirvara um endanlegan prófarkalestur skrifstofu borgarstjórnar.

      Samþykkt.

    3. Fram fara umræður um næstu fundi yfirkjörstjórnar, fundarreglur og fyrirkomulag.

    Fundi slitið klukkan 13:42