Velferðarráð - Fundur nr. 97

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ


Ár 2009, miðvikudaginn 28. janúar var haldinn 97. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.15 á velferðarsviði, Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Hallur Magnússon, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 15. janúar 2009 um tilnefningu varaáheyrnarfulltrúa í velferðarráði.

2. Staða mála vegna aðgerðaráætlunar velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi.
Þórdís L. Guðmundsdóttir, deildarstjóri á Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis mætti á fundinn og gerði grein fyrir stöðu mála á þjónustumiðstöðinni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarfokks í velferðarráði lýsa yfir ánægju sinni með það góða starf sem unnið er í framlínu velferðarsviðs úti á þjónustumiðstöðvum borgarinnar og þakkar starfsfólki fyrir þá miklu vinnu sem þar fer fram. Við núverandi efnahagsástand er ljóst að aukin eftirspurn er eftir þjónustu borgarinnar. Því hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða af hálfu velferðarsviðs s.s. að fjölga ráðgjöfum á vakt, fjölga símatímum starfsfólks og breyta forgangsröðun verkefna. Mikil aukning hefur orðið í komum og símtölum til þjónustumiðstöðva og í ljósi þess hefur biðtími lengst. Þegar mál eru metin mjög brýn er reynt að verða við viðtölum samdægurs. Aðgerðateymi velferðarsviðs vinnur að því í samráði við hlutaðeigandi þjónustumiðstöðvar að ná biðtíma niður og er það vel.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og óháðra lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og óháðra lýsa áhyggjum vegna aukins álags á starfsfólk þjónustumiðstöðva borgarinnar í kjölfar kreppunnar. Þjónustumiðstöðvar hafa meðal annars brugðist við aðstæðum með breytingum á innra skipulagi sínu með því að fjölga símatímum starfsmanna og setja fleiri viðtöl á starfsmenn. Veruleg aukning í komum á þjónustumiðstöðvar og löng bið eftir fyrsta viðtali er að sjálfsögðu einnig áhyggjuefni þar sem mikið liggur við að fólk í neyð fái skjóta þjónustu. Það virðist því einboðið að huga þurfi að fjölgun starfsmanna þjónustumiðstöðva borgarinnar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks treysta sviðsstjóra velferðarsviðs til þess að meta hvort og þá hvenær þörf er á að bæta við mannafla á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborga vegna aukinnar eftirspurnar. Velferðarráð mun að sjálfsögðu fylgjast með þróun mála og gera viðeigandi ráðstafanir í takt við ástandið hverju sinni.

3. Lögð fram drög að afgreiðslu styrkja til velferðarmála fyrir árið 2009.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Málinu er frestað til næsta fundar.

4. Lögð fram tillaga velferðarráðs að breytingu á fyrri samþykkt velferðarráðs dags. 12. desember sl. um stofnun sérfræðiteymis í málefnum unglinga sem starfi þvert á fagsvið sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 6. janúar 2009.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og óháðra lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og óháðra lýsa ánægju sinni með að í stað grundvallarbreytinga og niðurskurðar um síðustu áramót skuli starfsemi unglingasmiðjanna að Keilufelli og Amtmannsstíg vera óbreytt fyrri hluta ársins og að unnið verði áfram að endurskoðun hennar. Jafnframt er lögð rík áhersla á að í þeirri endurskoðun sem fram mun fara verði haft fullt samráð við notendur, aðstandendur og starfsfólk í anda kjörorðsins “ekkert um okkur án okkar”.

5. Lagt fram samkomulag vegna flutnings félagsstarfsins í Gerðubergi frá menningar- og ferðamálasviði til velferðarsviðs.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar flutningi félagsstarfsins í Gerðubergi yfir til velferðarsviðs. Það er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að FEB er nú að hefja uppbyggingu 48 þjónustuíbúða fyrir eldri borgara í tengslum við Menningarmiðstöðina við Gerðuberg þar sem Reykjavíkurborg mun eiga hluta íbúðanna.

6. Lögð fram bréf félags- og tryggingamálaráðuneytisins dags. 5. janúar 2009 um uppreiknuð tekju- og eignamörk vegna félagslegra leiguíbúða og uppreiknuð eignamörk vegna húsaleigubóta Ennfremur lögð fram tillaga dags. 14. janúar 2009 vegna breytinga á tekju- og eignamörkum félagslegra leiguíbúða og sérstakra húsaleigubóta í Reykjavík.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

7. Lögð fram skýrsla samráðsnefndar Heilsugæslunnar í Árbæ og Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts sbr. samsstarfsyfirlýsingu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um nánara samstarf í framhaldi af undirskrift leigusamnings fyrir nýtt húsnæði Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar skýrslu samráðsnefndar Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og Heilsugæslunnar í Árbæ þar sem fram kemur að stofnanirnar eru fluttar undir sama þak. Slíkt fyrirkomulag getur verið góð fyrirmynd fyrir önnur hverfi borgarinnar. Bæði heilsugæsla og velferðarþjónusta eru dæmi um mikilvæga nærþjónustu við íbúa sama svæðis og því er jákvætt að koma á samstarfi þjónustuþáttanna, bæði hvað varðar skipulag á þjónustu við sameiginlega skjólstæðinga, og einnig þjónustuframboð almennt

8. Lögð fram skýrsla starfshóps um aukna þátttöku notenda í framkvæmd félagsstarfs.
Málinu er frestað til næsta fundar.

9. Lagt fram til kynningar minnisblað dags 23. desember 2008 varðandi breytingu á tímasetningu vegna yfirlýsingar um væntanlegan samning á milli velferðarsviðs og félags- og tryggingamálaráðuneytisins um þjónustu við geðfatlaða.

10. Lagt fram til kynningar bréf frá Hrafnistu dags 15. janúar 2009 varðandi beiðni um viðræður um samstarf við Reykjavíkurborg.
Samþykkt að vísa málinu til sviðsstjóra til frekari skoðunar og úrlausnar.

11. Svar fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa F-lista frá fundi velferðarráðs 14. janúar 2009.

Áheyrnarfulltrúi F-listans í velferðarráði lagði fram formlega fyrirspurn á síðasta fundi ráðsins þar sem hann spyr fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna hvort þeir hafi gengið í lið með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki við að skera niður þjónustu á Unglingasmiðjunum Stíg og Tröð. Áheyrnarfulltrúanum til upplýsingar þá eru fyrirspurnir verkfæri kjörinna fulltrúa til að afla sér upplýsinga innan úr stjórnkerfinu og ber að beina þeim til sviðstjóra velferðarsviðs, þegar fyrirspurn er lögð fram í velferðarráði, en til borgarstjóra ef fyrirspurn er lögð fram í borgarráði. Samkvæmt skrifstofustjóra borgarstjórnar eru fyrirspurnir, sem beint er til kjörinna fulltrúa, ekki tækar á fundum ráðs, og nái slíkar fyrirspurnir á annað borð inn í fundargerð, ber kjörnum fulltrúum ekki skylda til að svara þeim. Í ljósi þessa sjáum við því ekki ástæðu til að svara þeim aðdróttunum og útúrsnúningum sem fram koma í fyrirspurn áheyrnarfulltrúa F-listans á síðasta fundi en bendum honum á fjölmargar bókanir og fyrirspurnir borgarfulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingar og óháðra um málið.

Sviðsstjóri lagði fram svar velferðarsviðs við hluta fyrirspurnarinnar.

12. Vinnureglur borgarfulltrúa.
Ólafur Hjörleifsson, skrifstofustjóri borgarstjórnar, mætti á fundinn.
Farið yfir vinnureglur borgarfulltrúa.

13. Búsetukjarnar fyrir geðfatlaða.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir stöðu málsins.

14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 21. janúar 2009 varðandi almannaheillanefndir. Ennfremur lögð fram tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks dags. 28. janúar 2009 ásamt greinargerð um að fela aðgerðarteymi velferðarsviðs að setja á fót samráðsteymi á hverri þjónustumiðstöð.
Málinu er frestað til næsta fundar.

15. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar:
Allt bendir til þess að málefni fatlaðra flytjast frá ríki til sveitarfélaga eigi síðar en 1. janúar 2011. Óskað er eftir upplýsingum um hvernig unnið er að undirbúningi þessa hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og að lögð verði fram í velferðarráði bæði tíma- og verkáætlun.

Fundi slitið kl. 16.15

Jórunn Frímannsdóttir
Hallur Magnússon Jóhanna Hreiðarsdóttir
Sif Sigfúsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Þorleifur Gunnlaugsson