Velferðarráð - Fundur nr. 94

Velferðarráð

Ár 2008, þriðjudaginn 16. desember var haldinn 94. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 11.00 á Velferðarsviði, Borgartúni 12-14. Mættir: Hallur Magnússon, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Ingunn Þórðardóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, óháðra og Vinstri grænna frá síðasta fundi ráðsins varðandi tillögu um stofnun sérfræðiteymis í málefnum unglinga sem starfi þvert á fagsvið:
Lagt er til að óbreytt fjármagn fari til reksturs unglingasmiðjanna Stígs og Traðar en að starfsemin verði þróuð enn frekar með það að markmiði að þjónusta fleiri unglinga og betur en nú er gert. Í þessari tillögu felst hagræðing þar sem fleiri geta nýtt sér þjónustuna og úrræðið þ.a.l. hagkvæmara en nú. Með breyttu rekstrarfyrirkomulagi og aukinni samnýtingu er vel gerlegt að efla úrræðið fyrir sama fjármagn.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Með stofnun sérfræðiteymis í málefnum unglinga þvert á fagsvið borgarinnar er byggt á starfi unglingasmiðjanna um leið og starfið er þróað áfram og tengt betur því unglingastarfi sem þegar fer fram í borginni á vegum félagsmiðstöðva ÍTR, á Menntasviði og með einstaklingsbundnum stuðningsúrræðum Velferðarsviðs eins og persónulegum ráðgjöfum og liðveislu. Með þessum hætti eru þær auðlindir sem borgin býr yfir í þjónustu við unglinga nýttar betur, samstarf fagsviða eykst og um leið er hægt að þjónusta fleiri unglinga með hagkvæmari hætti en gert er í unglingasmiðjunum í dag því þær geta aðeins sinnt hluta af þeirri þörf sem er til staðar. Fjárframlag sem gert er ráð fyrir á fjárhagsáætlun Velferðasvið ætti að tryggja sambærilega þjónustu og nú er veitt í unglingasmiðjunum enda bjargir sóttarar víðar en áður eins og að framan greinir.
Í ljósi þrengri stakks sem Velferðasviði er sniðinn í fjárhagsáætlun vegna efnahagsástandsins er ekki unnt að bæta við þessa þjónustu með auknu fjárframlagi að sinni.
Áheyrnarfulltrúi F-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er samdóma álit þeirra sem þekkja til starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar að þar hafi farið fram mjög gott starf í þágu þeirra unglinga sem notið hafa stuðnings og þjálfunar. Tillaga fulltrúa meirihlutans um þróun og breytingar á starfseminni sem samþykkt var á síðasta fundi velferðarráðs gerir ráð fyrir fækkun stöðugilda og niðurskurði á fjárveitingu til starfseminnar sem nemur um tuttugu milljónum króna á næsta ári. Það er því ekki trúverðugt að markmið sé að bæta þjónustuna við þá unglinga sem hafa notið hennar eða annarra sem á eftir koma.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og óháðra lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er ekki síst nauðsynlegt að hlúa að ungmennunum okkar á þessum erfiðu tímum í þjóðfélaginu. Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð hafa gert kraftaverk fyrir ungt fólk í vanda. Þar er unnið með einstaklingana í hópvinnu við sjálfsstyrkingu og að bættum félagslegum samskiptum. Líf unglinganna sem notið hafa þessa úrræðis og þá um leið aðstandenda þeirra hefur tekið umtalsverðum breytingum því engin fjölskylda er hamingjusamari en óhamingjusamasti meðlimur hennar. Það er því með ólíkindum að meirihluti velferðarráðs skuli nú leggja út í þann leiðangur að tefla góðu starfi Stígs og Traðar í voða með stórfelldum niðurskurði.

2. Lögð fram að nýju drög að breytingum á reglum um greiðslu styrkja til áfangaheimila. Ennfremur lagður fram kostnaðarútreikningur vegna tillögu fulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og óháðra frá síðasta fundi ráðsins.
Drögin voru samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Styrkir verða almennt ekki verðbættir í fjárhagsáætlun Velferðarsviðs 2009 enda gjaldskrár borgarinnar ekki að hækka. Því er ekki talið rétt að styrkir til áfangaheimila verði verðbættir fremur en aðrir styrkir. Velferðarsvið telur að þau áfangaheimili sem nú eru starfandi anni núverandi þörf. Þess má geta að á vegum Velferðarsviðs er nú verið að opna nýtt búsetuúrræði með miklum félagslegum stuðningi fyrir 20 einstaklinga samkvæmt samstarfssamningi við SÁÁ auk þess sem verið að að endurskipuleggja áfangaheimili þar sem pláss eru fyrir 12 aðila.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og óháðra lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það eru mikil vonbrigði að ekki skuli vera hægt að verðbæta styrki til áfangaheimila sem hefði kostað Reykjavíkurborg tæplega 1.5 mkr. á ári. Áfangaheimili fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur í bata er ákaflega mikilvæg fyrir fjölda einstaklinga. Rekstur áfangaheimilanna hefur lengi verið erfiður vegna fjárhagsaðstæðna og fjárstyrkur borgarinnar farið minnkandi þar sem styrkurinn hefur ekki verið verðbættur í nokkur ár. Í árferði sem þessu verða möguleikar áfangaheimilanna til styrkja frá fyrirtækjum minni og er því aukin hætta á rekstrarstöðvun með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þá sem á úrræðinu þurfa að halda.

3. Lögð fram starfs- og fjárhagsáætlun 2009.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir starfsáætlun 2009.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir fjárhagsáætlun 2009.
Fjárhagsáætlun 2009 verður vísað til borgarráðs.
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinar og óháðra lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar, óháðra og Vinstri grænna eru ósáttir við fjárhagsáætlun fyrir Velferðarsvið eins og hún lítur nú út í drögum. Á síðustu vikum hafa fyrirhuguð framlög til sviðsins lækkað á sama tíma og spá um atvinnuleysi og velferðarútgjöld hafa hækkað. Ástæðan er að:
1. Ekki er gert ráð fyrir hækkun fjárhagsaðstoðar sem verður áfram samkvæmt þessu 99.329 fyrir einstakling og 158.926 fyrir hjón á mánuði. Ekki er hægt að sætta sig við annað en að þeir sem fá fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hækki að lágmarki um 20 þúsund krónur á mánuði í samræmi við verðlagsþróun og það sem aðrir launþegar, lífeyrisþegar og íbúar annarra sveitarfélaga fá.
2. Gert er ráð fyrir a.m.k. 30#PR niðurskurði á yfirvinnu, þó svo að yfirvinna á Velferðarsviði sé unnin á sólarhringsheimilum, á heimilum þar sem aldraðir, fatlaðir og börn búa. Raunar er líka kjarasamningsbundin yfirvinna í heimaþjónustunni, en þar á í hlut tekjulægsti hópurinn hjá borginni.
3. Ekki er séð að framlög til húsaleigubóta séu hækkuð í neinu samræmi við fjölgun þeirra sem munu eiga rétt á húsaleigubótum, með minnkandi tekjum og fjölgun leiguíbúða.
4. Ekki er gert ráð fyrir kostnaði vegna félagslegra afleiðinga atvinnuleysis en gera má ráð fyrir aukinni aðsókn á þjónustumiðstöðvar og Barnavernd Reykjavíkur.
5. Ekki er gert ráð fyrir verðbótum á þjónustusamningum við áfangaheimili og frjáls félagasamtök s.s. Kvennaathvarf, Stígamót, Rauða krossinn og fleiri. Þessir aðilar sinna mjög mikilvægri velferðarþjónustu við borgarbúa sem í mörgum tilfellum mun aukast vegna versnandi ástands í tengslum við efnahagsþrengingar hjá fólki.
Fulltrúar Samfylkingar, óháðra og Vinstri grænna í sameiginlegum aðgerðahóp borgarstjórnar hafa í margar vikur reynt að fá fjárframlög til ofangreindra þátta. Það hefur enn ekki tekist, en við gerum eindregna tillögu um að úr því verði bætt áður en fjárhagsáætlun verður lögð fyrir borgarstjórn.
Áheyrnarfulltrúi F-listans lagði fram eftirfarandi bókun :
Fjárhagsáætlun Velferðarsviðs 2009 hefur verið lögð fram til kynningar. Þrátt fyrir yfirlýsingar borgarstjórnarmeirihlutans um að verja grunnþjónustu velferðarkerfisins sést það þó ekki þegar fjárhagsáætlunin er skoðuð. Ekki er gert ráð fyrir vísitöluhækkunum vegna fjárhagsaðstoðar, launakostnaður er skorinn niður, húsaleigubætur halda ekki verðgildi sínu og fleira má nefna. Hér er því gert ráð fyrir miklum niðurskurði á velferðarmálum á Velferðarsviði.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lagði fram eftirfarandi bókun:
Fjárhagsáætlun Velferðarsviðs tekur mið af þeim markmiðum sem borgaryfirvöld hafa sett um að standa vörð um grunnþjónustu Reykjavíkurborgar, störf innan borgarkerfisins verði varin og gjaldskrár verði ekki hækkaðar. Velferðarsvið veitir borgarbúum mikilvæga grunnþjónustu og leikur lykilhlutverki í stuðningi við íbúa borgarinnar á erfiðum tímum. Því hefur ekki verið gerð eins rík hagræðingakrafa á Velferðarsvið og önnur svið borgarinnar. Ljóst er að fjárþörf vegna fjárhagsaðstoðar mun aukast í því efnahagsástandi sem nú ríkir, enda er í fjárhagsáætluninni gert ráð fyrir verulegri aukningu í fjárhagsaðstoð. Að auki er gert ráð fyrir að viðbótarfjármagn verði tryggt í fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur fari þeir liðir fram úr samþykktri fjárhagsáætlun. Ljóst er að ekki verður unnt að draga úr yfirvinnu á Velferðarsviði á sama hátt og öðrum sviðum borgarinnar meðal annars þar sem oft á tíðum er um að ræða sólarhringsþjónustu þar sem ekki er unnt að draga úr yfirvinnu. Í því erfiða efnahagsástandi sem nú ríkir í samfélaginu er mikilvægt að reka ábyrga fjármálastjórn. Því hefur verið nauðsynlegt að hagræða í ákveðnum þáttum sem heyra undir Velferðarsvið en áhersla lögð á að grunnþjónustan sé varin.
Velferðarráð lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðaráð beinir því til þverpólitísks aðgerðarhóps borgarstjórnar að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og heimildargreiðslur vegna barna verði hækkaðar.
Einnig undirstrikar velferðaráð að viðbótarfjármagn verði tryggt í fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur fari þeir liðir fram úr samþykktri fjárhagsáætlun.
Þá er ljóst að velferðaráð getur ekki skorið niður yfirvinnu á sama hátt og önnur svið vegna sérstöðu lögbundinnar sólarhringsþjónustu við börn, fatlaðra og aldraða og kjarasamninga við umönnunarstéttir.

Fundi slitið kl. 13.30

Hallur Magnússon
Jóhanna Hreiðarsdóttir Sif Sigfúsdóttir
Elínbjörg Magnúsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Þorleifur Gunnlaugsson