Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2008, miðvikudaginn 25. júní, var haldinn 83. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12:22 á velferðarsviði, Borgartúni 10-12. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Þorleifur Gunnlaugsson og Þórir Hrafn Gunnarsson. Áheyrnarfulltrúi: Marsibil Sæmundardóttir. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram að nýju skýrsla um reynsluverkefni um öryggissíma 3. september 2007 – 29. febrúar 2008 ásamt tillögu dags. 23. júní 2008 að rekstri þjónustusíma. Greinargerð fylgir.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Lögð var fram eftirfarandi breytingartillaga við framangreinda tillögu. Greinargerð fylgir tillögunni:
Velferðarráð samþykkir að vinna að undirbúningi þjónustusíma fyrir allt að 3000 notendur. Þjónustusími er afar mikilsverð nýjung sem verður órjúfanlegur hluti af heildstæðri heimaþjónustu þegar litið er til nánustu framtíðar þar sem hann gefur möguleika á að fylgjast með líðan þjónustuþega í gegnum gagnvirk fjarskipti. Unnið verði að þjónustusímanum samhliða og með þeim aðilum sem koma að sameiningu heimahjúkrunar og heimaþjónustu. Markmiðið er að þjónustusíminn taki til starfa um leið og önnur heildstæð heimaþjónusta um næstu áramót. Lagt er til varðandi þann hóp sem þegar er með öryggissíma að honum standi til boða áframhaldandi þjónusta á kr. 1.900 á mánuði. Á undirbúningstíma verði gerð tilraun í þeim hópi sem þegar er kominn með öryggissíma. Valdir verði 10-15 notendur sem boðin verði gagnvirk þjónusta, þ.e. að hringt verði í þá einu sinni á sólarhring. Þar gæti eftirfarandi m.a. verið kannað með spurningum í samtali; lyfjagjöf, fótaferð, heilsa, næring, hreinlæti og félagsleg líðan. Lagt er til að ekki komi til gjaldtöku í þessu tilraunaverkefni. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar 2008.
Breytingartillagan var samþykkt samhljóða.
2. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokks sem frestað var á fundi velferðarráðs þann 28. maí sl. um að leiga Félagsbústaða verði ekki hækkuð fyrr en náðst hefur samkomulag við ríkisvaldið um að húsaleigubætur hækki reglulega og fylgi verðlagsþróun.
Á fundi velferðarráðs þann 28. maí sl. lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu sem samþykkt var samhljóða.
Velferðarráð felur velferðarsviði að gera úttekt á því hvernig sú kerfisbreyting að hætta almennum niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar til Félagsbústaða hf. vegna félagslegs stuðnings þ.e. sérstakar húsaleigubætur, komi út fyrir leigjendur. Úttektin skal ná til eins árs, miðað við verðbólguspár, taka til beggja kosta til samanburðar og lögð fyrir næsta fund ráðsins.
Ennfremur lögð fram úttekt velferðarsviðs í samræmi við ofangreinda málsmeðferðartillögu.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir úttektinni.
Upphafleg tillaga fulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokks um að leiga Félagsbústaða verði ekki hækkuð fyrr en náðst hefur samkomulag við ríkisvaldið um að húsaleigubætur hækki reglulega og fylgi verðlagsþróun, var borin upp til atkvæða.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F- lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Á fundi velferðarráðs þann 23. apríl sl. var lögð fram tillaga um að í viðræðum milli sveitarfélaga við ríkisvaldið við stefnumótun í húsnæðismálum verði unnið markvisst að því að húsaleigubætur fylgi verðlagsþróun. Tillagan var samþykkt samhljóða. Erindi þess efnis hefur verið sent frá Velferðarsviði til félags- og trygingamálaráðuneytisins.
Velferðarráð gerir tillögu til borgarráðs um upphæð húsaleigu í félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík. Í 7. gr. samþykkta fyrir Félagsbústaði hf. stendur að við gerð rekstraráætlana fyrir félagið vegna ákvörðunar á leigugjaldi sé við það miðað að reksturinn sé sjálfbær. Ríkið ákveður upphæð almennra húsaleigubóta hverju sinni samkvæmt reglugerð þar um. Útilokað er að hægt sé að binda upphæð leigu hjá Félagsbústöðum við aðgerðir ríkisvaldsins, hvorki ákvarðanir um breytingar á reglugerð né aðrar ákvarðanir.
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokks í velferðarráði harma þá ákvörðun meirihlutans að hafna því að leiga Félagsbústaða verði ekki hækkuð fyrr en náðst hefur samkomulag við ríkisvaldið um að húsaleigubætur hækki reglulega og fylgi verðlagsþróun. Húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur hækka einungis með reglugerðarbreytingu. Húsaleiga Félagsbústaða hf. hækkar hins vegar ársfjórðungslega skv. húsaleigulið neysluvísitölu og því mun leiga fólks að óbreyttu hækka jafnt og þétt. Samþykkt var samhljóða í velferðarráði að í viðræðum sveitarfélaga við ríkisvaldið um stefnumótun í húsnæðismálum verði unnið markvisst að því að húsaleigubætur hækki reglulega og fylgi verðlagsþróun. Þar til því markmiði hefur verið náð mun húsnæðiskostnaður leigjenda Félagsbústaða aukast jafnt og þétt. Vegna verðbólgunnar nú er reiknað með því að húsaleiga Félagsbústaða hækki 1. júlí um 6-7#PR og enn bíður beiðni Félagsbústaða um 10#PR leiguhækkun sem leggjast mun ofan á reglubundna hækkun.
3. Lögð fram tillaga formanns velferðarráðs dags. 22. júní 2008 vegna Droplaugarstaða.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Málinu er frestað til næsta fundar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Ákveðið var í velferðarráði í dag að fresta tillögu um að auglýsa eftir samstarfsaðilum, um rekstur Droplaugarstaða. Er það mjög gott enda margt sem þarf að skoða í þessu máli. Reykjavíkurborg hefur í áratugi átt og rekið hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði. Borgin hefur lagt metnað sinn í að reka hjúkrunarheimili sem er til fyrirmyndar og hafa Droplaugarstaðir staðið undir því. Með rekstrinum hefur borgin m.a. tryggt að þeir sjúklingar sem önnur hjúkrunarheimili hafa ekki viljað eða getað sinnt, hafa fengið inni á Droplaugarstöðum. Rökin fyrir tillögunni eru fyrst og fremst hallarekstur á Droplaugarstöðum á undanförnum árum. Sú reynsla er sameiginleg með öðrum sem reka hjúkrunarheimili og taka þarf á þeim vanda. Möguleikar annarra rekstraraðila til að minnka rekstrarkostnað eru annað hvort að lækka laun starfsmanna eða draga saman í þeim aðbúnaði sem heimilisfólki er boðið upp á. Báðir kostirnir eru óásættanlegir. Eins og fram kemur í greinargerð hafa verið viðræður við heilbrigðisráðuneytið vegna rekstrarhallans en þeim er ekki lokið. Gott er að ljúka fyrst viðræðum um rekstrarhalla áður en ákveðið er að bjóða reksturinn út. Þá þarf að huga sérstaklega að málum starfsmanna.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Hallarekstur hefur verið viðvarandi á Droplaugarstöðum í mörg ár. Stjórnendur Droplaugarstaða eru meðvitaðir um vandann og sammála því að leitað sé allra leiða til að ná niður þeim hallarekstri. Það er samstaða um það innan meirihlutans að við það ástand verði ekki unað og nóg annað sé við skattpeninga borgaranna að gera í lögboðinni þjónustu. Það er góð reynsla af rekstri annarra hjúkrunarheimila og ekki ólíklegt að aðrir aðilar geti mögulega rekið heimilið með hagkvæmari hætti og náð hagkvæmni með samnýtingu stoðþjónustu.
4. Lagt fram til kynningar bréf borgarráðs dags. 20. júní 2008 varðandi tilflutning innritunarfulltrúa og leikskólaráðgjafa frá þjónustumiðstöðvum til Leikskólasviðs.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins, lögðu fram eftirfarandi bókun:
Hugmyndafræði þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar snýr að því að þekking og þjónusta sé til staðar sem næst íbúunum. Með tilkomu þjónustumiðstöðvanna hefur þjónusta við borgarbúa eflst til muna og kannanir sýna að ánægja íbúanna með þjónustumiðstöðvarnar er mikil. Fjölmörg verkefni sem unnin hafa verið þvert á fagstéttir hafa fyrir löngu sannað sig. Verði leikskólaráðgjafar slitnir úr samhengi við félagsráðgjafa, sálfræðinga og kennsluráðgjafa, mun sú heildstæða þjónusta sem hugmyndafræði þjónustumiðstöðvanna hvílir á, rýrast til muna. Góð þjónusta við börn og fjölskyldur þeirra byggir á samvinnu ólíkra fagstétta sem þessi breyting mun stórlega skerða. Verði innritunarfulltrúar fluttir inn á miðlægt svið mun þjónustan skerðast því lengra sem verður fyrir íbúana að sækja þjónustuna, hún verður ekki lengur í þeirra hverfi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allltaf átt erfitt með að skilja hugmyndafræðina sem liggur til grundvallar þjónustumiðstöðvunum og þá hugsun að þeir sem vinni náið með íbúum hverfanna, í þeirra nærumhverfi, þekki best hvernig þjónustan getur mætt þörfum íbúanna á hverjum stað. Í þeirri breytingu sem nú er boðuð birtist gamaldags hugsun um miðstýringu ásamt fullkomnu metnaðar- og getuleysi. Í stað þess að taka framsýnar ákvarðanir sem bæta úr núverandi vanköntum þjónustunnar er ákveðið að snúa við í miðri á og skríða upp á bakka miðstýringar á ný.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Mikilvægt er að leggja mikla áherslu á að huga sérstaklega vel að starfsmönnum og réttindum þeirra og að um verði að ræða nána samvinnu milli leikskólasviðs og velferðarsviðs varðandi framkvæmd breytinganna.
Fundi slitið kl. 14.30
Jórunn Frímannsdóttir
Sif Sigfúsdóttir Elínbjörg Magnúsdóttir
Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson Þórir Hrafn Gunnarsson