Velferðarráð - Fundur nr. 82

Velferðarráð

Ár 2008, miðvikudaginn 11. júní, var haldinn 82. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12:15 á Velferðarsviði, Borgartúni 10-12. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Gunnar Hólm Hjálmarsson, Þorleifur Gunnlaugsson, Stefán Benediktsson og Þórir Hrafn Gunnarsson. Áheyrnarfulltrúi: Marsibil Sæmundardóttir. Af hálfu starfsmanna: Ellý A. Þorsteinsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram að nýju skýrsla um reynsluverkefni um öryggissíma 3. september 2007 – 29. febrúar 2008 ásamt tillögu að rekstri þjónustusíma. Greinargerð fylgir tillögunni.
Málinu er frestað.

2. Lögð fram til kynningar umsögn velferðarráðs dags. 6. júní 2008 um flutning félagsstarfs eldri borgara í Gerðubergi til Velferðarsviðs.

3. Lögð fram tillaga formanns velferðarráðs dags. 11. júní 2008 að langtímastefnumótun og framtíðarsýn Velferðarsviðs. Greinargerð fylgir tillögunni.
Lagðar voru til breytingar á tillögunni og var hún lögð fram svohljóðandi:
Lagt er til að frá hausti 2008 fram á vor 2009 verði unnið að langtímastefnumótun og framtíðarsýn Velferðarsviðs. Skipaður verði stýrihópur stjórnenda Velferðarsviðs og fulltrúa velferðarráðs sem stýri stefnumótunarvinnunni. Ráðinn verði utanaðkomandi ráðgjafi til verkefnisins og sviðsstjóra verði falið að halda utan um vinnuna.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

4. Lögð fram að nýju áfangaskýrsla febrúar 2008 vegna móttöku flóttamanna í Reykjavík 2007 – 2008. Inga Sveinsdóttir, verkefnisstjóri flóttamannaverkefnisins, mætti á fundinn og gerði grein fyrir áfangaskýrslu um fjárhagslega og félagslega stöðu verkefnisins.

5. Lögð fram drög að hugmyndafræði og stefnu Velferðarsviðs í þjónustu við geðfatlaða. Ennfremur lagt fram minnisblað vegna umræðu- og kynningarfundar með félags- og hagsmunasamtök geðfatlaðra sem haldinn var 27. maí 2008.
Skrifstofustjóri velferðarþjónustu gerði grein fyrir málinu.
Drögin voru samþykkt samhljóða.

6. Lögð fram drög að samningi Velferðarsviðs og Félags heyrnarlausra.
Drögin voru samþykkt samhljóða.

7. Lagt fram svar við eftirfarandi tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks sem lögð var fram á fundi velferðarráðs 14. maí sl. Greinargerð fylgir.

Velferðarráð samþykkir að Velferðarsvið leggi fyrir velferðarráð útfærðar og kostnaðarmetnar tillögur sem miða að því að rýmka skilyrðin fyrir sérstökum húsaleigubótum frá því sem nú gildir. Markmiðið er að vinna að því að fjölga þeim heimilum í Reykjavík sem eigi kost á sérstökum húsaleigubótum og bjóða þannig þeim sem nú eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði úrræði á almennum markaði og mæta fyrirsjáanlegum vanda sem mun skapast á næstu mánuðum.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.

8. Lagt fram til kynningar svar sviðsstjóra Velferðarsviðs dags. 2. júní sl. við fyrirspurn Innri endurskoðunar varðandi rekstur búsetuúrræðis með félagslegum stuðningi.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að þeir aðilar sem buðu í búsetuúrræði með félagslegum stuðningi fyrir 20 manns, fái kost á að tjá sig skriflega til velferðarráðs um svör sviðsstjóra.
Tillagan var felld með þremur atkvæðum gegn einu. Tveir sátu hjá.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi vinstri grænna í velferðarráði hafnar alfarið útskýringum meirihluta velferðarráðs sem rökum fyrir því að ætla að hafna tilboði SÁÁ vegna búsetuúrræðis fyrir 20 einstaklinga.
Það er óumdeild staðreynd að tilboð SÁÁ var lægst eða um fjórðungi lægra en tilboð Heilsuverndarstöðvarinnar/Alhjúkrunar. Þó svo meirihlutinn telji þessa starfsemi ekki útboðsskylda þarf veigamikil rök til að hafna lægsta tilboði og gera verði kröfu um að sýnt verði fram á það með málefnalegum hætti að um sé að ræða yfirburði Heilsuverndarstöðvarinar á þeim sviðum sem þjónustan tekur til og réttlæta þannig þá ákvörðun að borga meira fyrir af almannafé.
SÁÁ hefur 30 ára sérþekkingu í að vinna með hlutaðeigandi einstaklingum (með margháttaðan félagslegan vanda eigandi að baki margar tilraunir til að hætta áfengis- og vímuefnaneyslu) og ef bera á saman SÁÁ og Heilsuverndar-stöðina/Alhjúkrun með tilliti til uppbyggingar einstaklinga sem eiga að baki erfiða félagslega sögu og þurfa að takast á við afleiðingar áfengis- og/eða vímuefnamisnotkunar er samanburðurinn án nokkurs vafa SÁÁ í vil.
Heilsuverndarstöðin/Alhjúkrun er nýtt fyrirtæki og í samanburði við SÁÁ með takmarkaða reynslu á þessu sviði. SÁÁ hefur aftur á móti 30 ára reynslu af því að starfa að áfengis-og vímuefnalækningum, þar á meðal rekstri áfangahúsa. Samkvæmt tilboði SÁÁ eru þar yfir 60 sérhæfðir heilbrigðisstarfsmenn sem eingöngu sinna því starfi að byggja upp einstaklinga sem eiga að baki erfiða félagslega sögu og þurfa að takast á við afleiðingar áfengis- og/eða vímuefna-misnotkunar. Má þar nefna sérfræðinga, sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, áfengis- og vímuefnaráðgjafa og félagsráðgjafa.
Það kemur á óvart að hugmyndafræði sú sem SÁÁ starfar eftir og hefur skipað heilbrigðisþjónustu samtakanna í fremstu röð á heimsvísu, skuli vera talin svo óljós og lítt eftirsóknarverð í augum meirihluta velferðarráðs. Þannig hafa fremstu vísinda- og fræðimenn í Evrópu og Bandaríkjunum sóst eftir rannsóknasamstarfi við SÁÁ.
Hvað húsnæðismál varðar er aðeins hægt að bera saman tilboð í þjónustu og eðlilegt er að spyrja hvort Heilsuverndarstöðin sé handhafi leigusamnings um húsnæði fyrir úrræðið og þá frá hvaða tíma ?
Af framansögðu er ekki óeðlilegt að ætla að í raun hafi verið búið að ákveða að fara í samstarf við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun áður en auglýst var eftir samstarfsaðilum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista lögð fram eftirfarandi bókun:
Þann 9. apríl s.l. samþykkti velferðarráð Reykjavíkurborgar samhljóða að ganga til samninga við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun um rekstur búsetuúrræðis með félagslegum stuðningi fyrir allt að 20 einstaklinga.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F- lista fagna greinargerð frá Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar þar sem fram kemur að það sé mat Innri endurskoðunar að málefnalegar forsendur liggi að baki þeirri ákvörðun Velferðarráðs að ganga til samninga við Heilsuvernarstöðina/Alhjúkrun. Allir aðilar uppfylltu faglegar kröfur að mati Velferðarsviðs en með tilliti til heildarlausna hvað varðar hagkvæmni og þjónustu var talið að Heilsuverndarstöðin/Alhjúkrun væri sá aðili sem best væri fallinn til samstarfsins. Útfærsla Heilsuverndarstöðvarinnar/-Alhjúkrun var best mótuð á grundvelli þeirra faglegu forsendna sem fram komu í auglýsingunni. Þar var m.a. lögð áhersla á að viðkomandi samstarfsaðili gæti veitt félagslega heimaþjónustu með virkni og þátttökuhugmyndafræði að leiðarljósi og aðgang að faglegum stuðningi eftir þörfum til að einstaklingarnir gætu aðlagast samfélaginu á ný eins fljótt og hægt er án vímuefna. Heilsuverndarstöðin-/Alhjúkrun er öflugt fyrirtæki sem sérhæfir sig í heilbrigðis- og velferðar-þjónustu. Hjá fyrirtækinu starfa hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraþjálfar, iðjuþjálfar og sjúkraliðar sem eru allt starfsstéttir sem mikilvægt er að komi að uppbyggingu einstaklinga sem eiga að baki erfiða félagslega sögu og þurfa að takast á við afleiðingar áfengis- og eða vínumefnamisnotkunar.

9. Lögð fram til kynningar skýrsla Innri endurskoðunar um styrki og samstarfssamninga.

10. Lögð fram að nýju til kynningar samantekt vegna viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2008.
Lóa Birna Birgisdóttir, starfsmannastjóri Velferðarsviðs, mætti á fundinn og gerði grein fyrir niðurstöum könnunarinar.

11. Lagður fram til kynningar samningur Umhverfis- og samgöngusviðs f.h. Vinnuskóla Reykjavíkur og Velferðarsviðs um græna heimaþjónustu.

12. Lagt fram yfirlit vegna fjögurra mánaða fjárhagsstöðu.
Ingunn Þórðardóttir, skrifstofustjóri fjármála og rekstrar, mætti á fundinn og gerði grein fyrir fjögurra mánaða fjárhagsstöðu Velferðarsviðs.

Fundi slitið kl.14.20

Jórunn Frímannsdóttir

Sif Sigfúsdóttir Elínbjörg Magnúsdóttir
Gunnar Hólm Hjálmarsson Þórir Hrafn Gunnarsson
Stefán Benediktsson Þorleifur Gunnlaugsson