Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2008, miðvikudaginn 9. apríl, var haldinn 78. fundur s og hófst hann kl. 12.15 á Velferðarsviði, Tryggvagötu 17, Reykjavík. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Gunnar Hólm Hjálmarsson, Elínbjörg Magnúsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Stefán Benediktsson og Elín Sigurðardóttir. Áheyrnarfulltrúi: Marsibil Sæmundardóttir. Af hálfu starfsmanna: Stella Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Sigríður Jónsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram bréf borgarstjóra dags. 27. mars sl. og 1. apríl sl. um kosningu fulltrúa og varafulltrúa Sjálfstæðisflokks í velferðarráði. Sif Sigfúsdóttir tekur sæti í stað Björns Gíslasonar. Björn Gíslason tekur sæti varamanns í stað Sifjar Sigfúsdóttur.
2. Lögð fram tillaga sviðsstjóra um stofnun nýs búsetuúrræðis.
Tillagan var samþykkt samhljóða og sviðsstjóra falin vinnsla hennar í samræmi við umræður á fundinum.
3. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra til sviðsstjóra Velferðarsviðs, dags. 7. mars sl., varðandi skýrslu um Breiðavíkurheimilið. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Sviðsstjóri mun annast vinnslu málsins.
4. Lagður fram þjónustusamningur Velferðarsviðs við Samhjálp vegna reksturs kaffistofu og félagsstarfs.
Samþykkt með sex atkvæðum gegn einu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Þann 12. mars sl. voru lagðir fram til kynningar samningar Velferðarsviðs og Samhjálpar. Fulltrúi VG benti á að eðlilegt væri að í þjónustusamningum sem Velferðarsvið gerði við hina ýmsu aðila kæmi fram að ekki mætti mismuna notendum þjónustu á grundvelli kyns, kynhneigðar, trúarskoðana eða uppruna. Vel var tekið í þessa ábendingu og þótti eðlilegt að vísa til mannréttindastefnu borgarinnar. Nú eru lagðir fram fimm þjónustusamningar við eftirfarandi aðila; Samhjálp, Sjónarhól, Blindrafélagið, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og Sjálfsbjörg. Í öllum samningunum er tekið fram að þjónustusala beri að fara eftir þeim grundvallarsjónarmiðum sem fram koma í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Velferðarráð fagnar þessari framför og telur mikilvægt að þetta ákvæði eigi fastan sess í öllum þjónustusamningum Velferðarsviðs.
5. Lagður fram þjónustusamningur Velferðarsviðs við Sjónarhól – ráðgjafarmiðstöð ses.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
6. Lagður fram þjónustusamningur Velferðarsviðs við Blindrafélagið.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
7. Lagður fram samningur Velferðarsviðs við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
8. Lagður fram samningur Velferðarsviðs við Sjálfsbjörg um rekstur sundlaugar að Hátúni 12.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
9. Lögð fram samantekt vegna samþættingarverkefnis heimaþjónustu og heimahjúkrunar maí 2006 til febrúar 2008.
Skrifstofustjóri rannsókna og þjónustumats gerði grein fyrir málinu.
10. Lögð fram rannsókn á Kvennasmiðju. Kristín Lilja Diðriksdóttir, verkefnisstjóri, mætti á fundinn og kynnti niðurstöður rannsóknarinnar.
11. Lagðar fram til kynningar lykiltölur janúar – apríl 2008.
12. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra dags. 17. mars sl. varðandi skýrslu stýrihóps um málefni Reykjavík Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
13. Lagt fram til kynningar bréf félags- og tryggingamálaráðuneytisins dags. 25. mars sl. um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra árið 2008 varðandi nýbyggingu hjúkrunarheimilis að Suðurlandsbraut 66.
14. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð;
Lagt er til að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklinga verði hækkuð frá og með 1. maí nk. úr 99.329 kr. í 112.320 kr. á mánuði eða sem nemur 12#PR. hækkun. Þá er lagt til að fjárhagsaðstoð til hjóna verði hækkuð úr 158.926 kr. í 179.712 kr. á mánuði sem einnig er 12#PR hækkun. Viðmiðunarupphæðin sem um ræðir er grunnlífeyrir almannatrygginga, ásamt tekjutryggingu örorkulífeyrisþega og er framfærsla hjóna sami stuðull margfaldaður með 1.6. eins og reglur um fjárhagsaðstoð gera ráð fyrir. Ennfremur er lagt til að við heildarendurskoðun á reglum um fjárhagsaðstoð sem nú er nýlega hafin verði skoðað hvort ekki sé hægt að tengja grunnfjárhæðir í fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins við bætur almannatrygginga og/eða atvinnuleysisbætur.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista lögðu fram eftirfarandi tillögu um málsmeðferð:
Lagt er til að tillögunni verði vísað til vinnu starfshóps um endurskoðun á reglum um fjárhagsaðstoð sem er að störfum og í sitja bæði fulltrúar meirihluta og minnihluta.
Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar lýsa yfir miklum vonbrigðum yfir því að ekki sé vilji hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og F - lista í velferðarráði að hækka fjárhagsaðstoð, sem er orðin 36#PR - 70#PR lægri en atvinnuleysisbætur og lífeyrisgreiðslur almannatrygginga. Tillögunni er vísað til endurskoðunar fjárhagsaðstoðar sem nú á sér stað og mun taka einhverja mánuði. Frá því að síðustu upphæðir fjárhagsaðstoðar voru samþykktar í desember sl. hefur verð á nauðþurftum hækkað umtalsvert, kjarasamningar hafa verið gerðir og lífeyrisgreiðslur almannatrygginga stórbatnað. Við þessar aðstæður er ekki rétt að láta fólkið sem hefur úr minnstu að moða bíða á meðan heildarendurskoðun á fjárhagsaðstoð fer fram. Hækkunin sem lögð er til er fyrirsjáanleg og einungis fyrsta skrefið sem þarf að taka til að leiðrétta þann mikla mun sem hefur þróast á síðasta ári. Á sama tíma er langtímanotendum að fækka og er það vel og því hefur Velferðarsvið borð fyrir báru til að hækka grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fjárhagsáætlun Reykjavíkur var samþykkt af núverandi minnihluta í tíð síðasta meirihluta. Fjárhagsaðstoð er skoðuð árlega og samþykkti síðasti meirihluti tillögu sviðsstjóra í Velferðarráði þann 12. desember síðastliðinn um 4,2#PR hækkun. Í greinargerð með tillögunni kom fram að þrátt fyrir að almannatryggingar hefðu hækkað umtalsvert 1. janúar 2007 ákváðu flest sveitarfélög þ.m.t. Reykjavík að hverfa frá fyrri viðmiðum í hinum leiðbeinandi reglum og hækka viðmiðunarfjárhæðir fjárhagsaðstoðar samkvæmt vísitölu neysluverðs. Í umsögn Samtaka félagsmálastjóra frá 6. nóvember s.l. kom m.a. fram að samtökin telji ekki óeðlilegt að upphæð fjárhagsaðstoðar sé lægri en bætur almannatrygginga og óskertar atvinnuleysisbætur enda er fjárhagsaðstoð skammtímaaðstoð en ekki framfærsla til lengri tíma. Í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið síðan í þjóðfélaginu og óvenju óstöðugs ástands er ástæða til að vera á varðbergi og fylgjast sérstaklega vel með vísitölu neysluverðs og ef nauðsyn þyki til að endurskoða þá hækkun sem ákveðin var fyrir fjórum mánuðum síðan. Eðlilegt þykir að það sé gert í tengslum við heildarendurskoðun fjárhagsaðstoðarreglna sem nú er í gangi og minnt er á að kjarasamningar Reykjavíkurborgar eru ekki lausir fyrr en í haust. Ekki liggur fyrir kostnaður vegna tillögunnar en ljóst er að kostnaður við hækkun sem þessa er verulegur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það var mat samtaka félagsmálastjóra í desember sl. að leggja til vísitöluhækkun fjárhagsaðstoðar, en líklega er afstaða þeirra önnur nú í ljósi efnahagsástands og þróun bótaflokka.
15. Formaður velferðarráðs lagði fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:
Lagt er til að fjórum gistiplássum verði bætt við í Gistiskýli fyrir heimilislausa við Þingholtsstræti. Lagt er til að sviðsstjóra verði falið að ræða við Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar um þær breytingar sem gera þarf á húsnæðinu svo það gangi eftir, tímaáætlun o.s.frv. og taka upp viðræður við rekstraraðila Samhjálp, varðandi aukinn kostnað samhliða fjölgun plássa.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl. 14.10
Jórunn Frímannsdóttir
Gunnar Hólm Hjálmarsson Elínbjörg Magnúsdóttir
Sif Sigfúsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Stefán Benediktsson Elín Sigurðardóttir