Velferðarráð - Fundur nr. 75

Velferðarráð

Ár 2008, miðvikudaginn 27. febrúar, var haldinn 75. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12:05 á Velferðarsviði, Tryggvagötu 17, Reykjavík. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Björn Gíslason, Björk Vilhelmsdóttir, Stefán Benediktsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Áheyrnarfulltrúi: Marsibil Sæmundardóttir.
Af hálfu starfsmanna: Ellý A. Þorsteinsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Ingunn Þórðardóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir, sem ritaði fundargerð.


Þetta gerðist:


1. Lagt fram til kynningar frumvarp að þriggja ára áætlun 2009-2011 (Velferðarsvið). Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Gunnar Hólm Hjálmarsson mætti á fundinn kl. 12.15.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri - grænna, og Framsóknarflokks lögðu fram eftifarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri - grænna, og Framsóknar furða sig á þremur þáttum í 3ja ára áætlun Velferðarsviðs og óska skýringa á þeim.
1. Búið er að taka út liðinn ,,Efling þjónustumiðstöðva#GL úr samþykktri starfsáætlun Velferðarsviðs og er hann ekki að finna í 3ja ára áætlun og megináherslum Velferðarsviðs fyrir árin 2009 – 2011. Þjónustumiðstöðvar eru til að tryggja kraftmikla, heildstæða og þverfaglega þjónustu í hverfum borgarinnar í samvinnu við borgarbúa og stofnanir borgarinnar og efling þeirra er forsenda þess að sveitarfélagið Reykjavík taki við frekari nærþjónustuverkefnum frá ríki til hagsbóta fyrir þá sem þurfa á velferðarþjónustu að halda í sínu daglega lífi.
2. Fallið er frá auknum fjárveitingum í húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur þar á meðal samþykkt fyrri meirihluta um 270 milljóna króna framlag í húsnæðismál þeirra sem verst eru settir. Þrátt fyrir kjarasamninga nú nýverið sem gera ráð fyrir hækkun húsaleigubóta er ekki gert ráð fyrir auknu fé.
3. Þá vekur athygli að 15 milljónir eru settar í nýtt úrræði fyrir heimilislausar konur árið 2009 og er það jákvætt. En nýtt úrræði fyrir heimilislausa karla kemur ekki inn fyrr en á árinu 2010, þá með 20 milljóna króna framlagi. Þessi seinkun er afar slæm þar sem Reykjavíkurborg er samningsbundin við félags- og tryggingamálaráðuneytið um að opna nýtt úrræði fyrir heimilislausa þegar ár er liðið frá opnun Njálsgötuheimilisins sem verður síðar á þessu ári. Ennfremur er staðan sú að í dag er verið að vísa mönnum frá Gistiskýlinu þar sem það er yfirfullt flesta daga.

Svar verður lagt fram á næsta fundi ráðsins.

2. Lagðar fram niðurstöður viðhorfsrannsóknar á högum og viðhorfum eldri borgara nóvember 2007 – janúar 2008 ásamt tillögu skrifstofustjóra rannsóknar og þjónustumats. Skrifstofustjóri rannsókna og þjónustumats gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt að rannsóknarniðurstöður verði kynntar á almennum opnum fundi. Leitað verður samstarfs við Félag eldri borgara og nærþjónustuhópa aldraðra í hverfum borgarinnar um kynningarfundinn. Stefnt er að því að halda fundinn í mars.

3. Lögð fram að nýju drög að samningi við Ásgarð-handverkstæði ásamt greinargerð. Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt samhljóða.

4. Lögð fram að nýju tillaga dags. 13. febrúar 2008 vegna beiðni Ekron- starfsþjálfunar dags. 22. janúar 2008 um endurnýjun samnings Ekron og Velferðarsviðs um starfsendurhæfingu. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokksins lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn;
1. Hefur verið gerð samanburðarrannsókn á Grettistaki og Ekron og úttekt á úrræðunum?
2. Er Ekron að veita þjónustuþegum eitthvað umfram það sem Grettistak veitir eða er Grettistak fullnýtt úrræði og þörf fyrir frekari úrræði af þessum toga ?
3. Hafa framkvæmdastjórar þjónustumiðstöðva borgarinnar verið spurðir um reynsluna af samstarfinu við Ekron og hversu mörgum hafa starfsmenn þeirra vísað á úrræðið ?
4. Hvaða vanda eiga þeir notendur við að etja sem talið er gott að hafi þennan valkost eftir að meðferð lýkur sem Grettistak eða önnur endurhæfingrarúrræði henta ekki ?

Svar verður lagt fram á næsta fundi ráðsins.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Gerð verði úttekt á gæðum og kostnaði vegna einstaklinga á starfsemi Ekron og Grettistaks og úrræðin borin saman. Úttektin verði framkvæmd af óháðum aðila.

Meðferð tillögunnar er frestað til næsta fundar.
Tillaga formanns var borin upp til atkvæða.
Samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu. Fulltrúar Samfylkingarinnar sátu hjá.
Vegna afgreiðslu velferðarráðs á beiðni Ekron starfsþjálfunar vilja fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar ítreka eftirfarandi bókun frá 27. júní 2007.
Það var tekið mikilvægt skref þegar Velferðarsvið lagði af stað með endurnýjun átaksverkefnisins Grettistaks sem tilraunaverkefnis til tveggja ára. Þar var sett í gang metnaðarfull áætlun um starfsendurhæfingu fíkla í bata sem ekki hafa náð að fóta sig á vinnumarkaði. Reiknað er með að um 60 manns nýti sér þetta úrræði á ári sem gefur góða von um árangur. Það væri eðlilegt að velferðarráð sýni þessari tilraun og þeim sem að henni standa, þá virðingu að láta samsvarandi tilraunir afskiptalausar á meðan reynsla af Grettistaki liggur ekki fyrir. Það skýtur því skökku við að nú skuli verið að semja við verktaka um samsvarandi verkefni en greiða þó talsvert hærri upphæðir vegna hvers einstaklings. Ekki er hægt að ræða um sambærilegan valkost nema álíka upphæðir verði greiddar vegna hvers einstaklings sem nýtir sér Grettistak.
Fulltrúar Sjálfstðisflokks og F-lista lögðu fram eftirfarandi bókun;
Það er stefna nýs meirihluta í borginni að fjölga fjölbreyttum félagslegum endurhæfingarúrræðum. Umræddur samningur við Ekron er eðlilegt framhald þeirrar stefnu enda uppfyllir Ekron öll þau faglegu skilyrði sem Velferðarsvið gerir kröfur um. Miðað við þann fjölda sem er í Grettistaki árið 2007 er rangt að Ekron sé mun dýrara úrræði. Auk þess eru þetta tvö ólík úrræði þó svo að tilgangur þeirra sé sá sami. Þess vegna er eðlilegt að kostnaður sé ekki nákvæmlega sá sami heldur miðist hann við umfang þeirrar þjónustu sem úrræðin veita. Eftirfylgni af hálfu Velferðarsviðs hefur verið á samningstímanum og er áhugi fyrir því að halda áfram samstarfi við Ekron.

5. Lagt fram svar við fyrirspurn vegna tillögu um félagslega leiguíbúðakerfið.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

6. Lagt fram til kynningar bréf frá skrifstofu borgarstjórnar til kjörinna fulltrúa dags. 15. febrúar sl. um nefndir og ráð. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

7. Lagðar fram til kynningar lykiltölur janúar – desember 2007.

8. Lagður fram til kynningar samningur Menntasviðs, Velferðarsviðs og ÍTR um skólaselið í Keilufelli. Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

9. Lagt fram til kynningar yfirlit yfir meðlimi velferðarráðs.

10. Lögð fram til kynningar dagskrá norrænu barnaverndarráðstefnunnar NFBO 2008.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

11. Lögð fram til kynningar yfirlit yfir kynningar Rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd og félagsráðgjafarskorar Háskóla Íslands á vorönn 2008.

12. Lagt fram bréf Styrktarfélags vangefinna dags. 19. desember sl. með beiðni um þjónustusamning við Reykjavíkurborg um heimilishjálp inn í 15 íbúðir þar sem félagið veitir frekari liðveislu. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu.
Velferðarráð Reykjavíkurborgar samþykkir að ganga til viðræðna við Styrktarfélag vangefinna um þjónustusamning um heimaþjónustu við íbúa í 15 íbúðum sem reknar eru af Styrktarfélaginu. Markmiðið er að Styrktarfélagið taki yfir heimaþjónustuna og samþætti við þá þjónustu sem þeir bjóða viðkomandi íbúum. Fyrir vikið yrði þjónustan sem nú er á ábyrgð tveggja aðila komin á eina hendi sem ætti að vera til mikilla hagsbóta fyrir þá sem njóta þjónustunnar.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt að tillögu um viðræður við Styrktarfélag vangefinna verði vísað inn í starfshóp um sameiningu heimahjúkrunar og heimaþjónustu. Tillaga kæmi frá þeim um afgreiðslu málsins á næsta fundi velferðarráðs.

13. Lögð fram tillaga Samfylkingar, Vinsri grænna og Framsóknar dags. 27. febrúar 2008 um áframhald viðræðna við félags- og tryggingamálaráðuneytið um átak í þjónustu við geðfatlað fólk. Greinargerð fylgir tillögunni. Ennfremur lagt fram svar Sjálfstæðisflokks og F – lista.
Samþykkt að halda áfram viðræðum við félags- og tryggingamálaráðuneytið. Sérstök áhersla verði lögð á mikilvægi þess að átakið flytjist yfir og mun það einungis verða til hagsbótar fyrir þá fjölmörgu einstaklinga sem njóta þessarar þjónustu.

14. Lögð fram fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar, Vinstri - grænna, og Framsóknar þar sem óskað er eftir upplýsingum um á hvaða stigi viðræður eru við heilbrigðisráðuneytið um samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun og hvaða hugmyndafræði um rekstur er höfð að leiðarljósi.
Svar verður lagt fram á næsta fundi ráðsins.

15. Lagður fram til kynningar Námsvísir fyrir starfsfólk Velferðarsviðs vorönn 2008.


Fundi slitið kl. 13:30

Jórunn Frímannsdóttir
Elínbjörg Magnúsdóttir Björn Gíslason
Gunnar Hólm Hjálmarsson Björk Vilhelmsdóttir
Stefán Benediktsson Þorleifur Gunnlaugsson