Velferðarráð - Fundur nr. 67

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2007, miðvikudaginn 24. október var haldinn 67. fundur s og hófst hann kl. 12.10 að Tryggvagötu 17. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Friðrik Dagur Arnarson, Marsibil Sæmundardóttir, Dofri Hermannsson, Jórunn Frímannsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir og Björn Gíslason. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Ingunn Þórðardóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram til kynningar bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar um kosningu í velferðarráð.

2. Kosning varaformanns velferðarráðs.
Formaður velferðarráðs lagði til að Friðrik Dagur Arnarson yrði kjörinn varaformaður ráðsins.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

3. Kosning eins fulltrúa meirihluta og eins fulltrúa minnihluta í áfrýjunarnefnd velferðarráðs og varamanna.
Lögð fram tillaga um skipan Bjarkar Vilhelmsdóttur sem fulltrúa meirihluta í áfrýjunarnefnd og Jórunnar Frímannsdóttur sem fulltrúa minnihluta í áfrýjunarnefnd. Varamaður fulltrúa meirihluta Friðrik Dagur Arnarson og varamaður fulltrúa minnihluta Björn Gíslason.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

4. Lagðar fram áherslur nýs meirihluta í velferðarmálum.
Nýr meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og F-lista leggur áherslu á það í áætlun fyrir starfsárið 2008, að þjónusta við íbúa Reykjavíkur stuðli að auknum lífsgæðum borgarbúa. Til að það megi takast verður markvisst unnið gegn fátækt og öðrum félagslegum aðstæðum sem torvelda fólki að njóta lífsins með reisn.

Áhersluatriði Velferðarráðs eru:
• Húsnæðismál. Átak til að koma til móts við þá sem eru illa settir á húsnæðismarkaði, í samvinnu við ríki og önnur sveitarfélög.Tryggt verði að allir hafi þak yfir höfuðið.
• Efling þjónustumiðstöðva til að tryggja kraftmikla, þverfaglega þjónustu í hverfum borgarinnar í samvinnu við borgarbúa og stofnanir borgarinnar.
• Samþætting, uppbygging og aukin þjónusta við aldraða og fatlaða í heimahúsum.
• Aukin áhersla á barnavernd, forvarnarstarf, stuðning og aðstoð við fátæk börn og börn í áhættuhópum.
• Aukin lífsgæði fyrir þá sem hafa fengið fjárhagsaðstoð í langan tíma með áherslu á endurhæfingu og starfsþjálfun.
• Þróun þjónustu við innflytjendur og flóttafólk.
• Verkefnaflutningur frá ríki til sveitarfélaga. Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að fá verkefni sem koma að nærþjónustu við aldraða og fatlaða frá ríkinu.

Áfram verði sérstök áhersla lögð á málefni aldraðra sem m.a. endurspeglast í eftirtöldu:
• Byggðar verði 200-300 þjónustuíbúðir til ársins 2010 í umsjá stýrihóps í búsetuúrræðum aldraðra á kjörtímabilinu.
• Samþætt og bætt heimaþjónusta.
• Fjölgun dagvistar-, hvíldar- og hjúkrunarrýma í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.
• Aukið samráð haft við eldri borgara varðandi ofangreind atriði.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Hér eru lögð fram áhersluatriði nýs meirihluta velferðarráðs sem byggja að nánast öllu leyti á áherslum fyrri meirihluta enda snúast þessi atriði um hlutverk okkar og lúta að því að auka velferð borgaranna.
Hvað varðar eflingu þjónustumiðstöðva þá vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokks benda á að til stóð að færa eitthvað að starfseiningum frá Velferðarsviði út á þjónustumiðstöðvar. Reykjavík er ekki milljónaborg og miðstöðvarnar misstórar. Mikilvægt er að dreifa ekki sérfræðiþjónustu um of út á miðstöðvarnar, hvort heldur er frá Velferðarsviði eða öðrum sviðum borgarinnar.

5. Lagðar fram að nýju reglur um verksvið og starfshætti áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt samhljóða.

6. Lögð fram ályktun velferðarráðs um frumvarp til laga um breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks.
Samþykkt var einróma eftirfarandi ályktun um frumvarpið:

Velferðarráð Reykjavíkurborgar varar við hugmyndum um aukið frelsi á áfengissölu sem lagt er til í nýju frumvarpi sem nú er til meðferðar á Alþingi Íslendinga. Samkvæmt upplýsingum Lýðheilsustöðvar sýna fjöldi rannsókna að aðeins lítil aukning á aðgengi að áfengi auki áfengisneyslu, þar á meðal ungs fólks. Rannsóknir í Svíþjóð, Finnlandi, Bandaríkjunum og Kanada sýna fram á margföldun á neyslu þegar aðgengi er aukið með afnámi einkasölu. Þessar rannsóknir hafa ekki verið hraktar og ekki hefur verið hafnað tengslum áfengis og félagslegs vanda. Þá leggur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áherslu á að mikil áfengisneysla skaðar heilsu og samfélag og eykur á ýmsan hátt félagslegan vanda. Líklegt er að þeir sem muni nýta sér aukið aðgengi að áfengi séu þeir sem síst skyldi. Afleiðingarnar munu bitna á börnum og ungmennum sem nú þegar búa við erfið uppeldisskilyrði vegna áfengisneyslu forráðamanna sinna.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarfélög muni setja takmarkanir á sölu áfengis og hafa eftirlit með áfengisverslun. Flutningsmenn frumvarpsins hafa þó ekki rætt við Reykjavíkurborg um hvernig eigi að sinna þessum málum og taka á þeim vanda sem aukin áfengisneysla mun óhjákvæmilega leiða af sér. Engar ráðstafanir hafa verið kynntar sem geta unnið gegn aukinni áfengisneyslu. Þá hefur ekki verið talað um hvort ríkið muni styðja sveitarfélög fjárhagslega til að sinna umræddu eftirliti.
Að lokum vill velferðarráð minna á forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar sem vinnur að því að skapa uppeldisskilyrði og samfélag sem eflir sjálfsmynd og sjálfstraust barna og ungs fólks m.a. með því að koma í veg fyrir og draga úr vímuefnaneyslu þeirra. Þá er Reykjavík í fararbroddi 18 evrópskra borga sem vinna markvisst gegn vímuefnanotkun ungs fólks.

7. Lögð fram tillaga að breytingum vegna unglingasmiðja.
Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, mætti á fundinn og gerði grein fyrir tillögunni.
Tillagan var samþykkt samhljóða og samþykkt að vísa málinu til frekari vinnslu hjá sviðsstjóra Velferðarsviðs.

8. Kynnt staða starfs- og fjárhagsáætlunar 2008.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir fjárhagsáætluninni.
Starfs- og fjárhagsáætlanir verða afgreiddar á næsta fundi ráðsins, miðvikudaginn 31. október nk.

9. Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

10. Lögð fram tillaga að breytingu á skipan eftirfarandi fulltrúa í þjónustuhóp aldraðra: Björk Vilhelmsdóttir formaður velferðaráðs og Ellý A. Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri velferðarmála.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

11. Lögð fram tillaga um dagvistunarúrræði fyrir heilabilaða.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

12. Lagðar fram fundargerðir 15. – 21. fundar Samráðshóps um forvarnir.
Málið verður tekið fyrir aftur þegar skýrsla hópsins liggur fyrir.

13. Lagt fram til kynningar drög að nýju samkomulagi um hlutverk og rekstur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
Lögð var fram tillaga formanns velferðarráðs um að Stella K. Víðisdóttir, sviðsstjóri, verði kjörin fulltrúi Velferðarsviðs í stjórn Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og að varamaður hennar verði Ellý A. Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri velferðarmála á Velferðarsviði.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

14. Lagðir fram til kynningar samningar Velferðarsviðs og Húsfélagsins að Sléttuvegi 19-21-23.
Sviðstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.

15. Fulltrúar í velferðarráði undirrituðu trúnaðaryfirlýsingu.

Fundi slitið kl. 14.05

Björk Vilhelmsdóttir
Friðrik Dagur Arnarson Marsibil Sæmundardóttir
Dofri Hermannsson Jórunn Frímannsdóttir
Elínbjörg Magnúsdóttir Björn Gíslason