Velferðarráð - Fundur nr. 65

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2007, miðvikudaginn 12. september var haldinn 65. fundur s og hófst hann kl. 12.15 að Tryggvagötu 17. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, Fanný Jónsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Þórir Hrafn Gunnarsson og Dögg Proppé Hugosdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Ásta Þorleifsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stella Víðisdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Ingunn Þórðardóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir, sem ritaði fundargerð.


Þetta gerðist:

1. Lögð fram greining á fjárhagsaðstoð og húsaleigubótum fyrir árið 2006 og fyrstu 6 mánuði ársins 2007.
Skrifstofustjóri rannsókna og þjónustumats gerði grein fyrir málinu.

2. Lagðar fram til kynningar lykiltölur dags. 1. ágúst sl.
Skrifstofustjóri rannsókna og þjónustumats gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:

Í nýjum lykiltölum velferðarsviðs kemur fram að 370 eldri borgarar eru nú á biðlista eftir þjónustuíbúð. Því er spurt:
1. Hversu margar þjónustuíbúðir eru nú í byggingu í Reykjavík ?
2. Hversu stór hluti fyrirhugaðs húsnæðis verður
a. eignaríbúðir
- Fjöldi íbúða eftir stærð
- Áætlað verð íbúða
b. leiguíbúðir
- Fjöldi íbúða eftir stærð
- Áætluð leigufjárhæð

3. Lagðar fram tillögur að breytingum á gjaldskrám velferðarsviðs 1. janúar 2008.
Fjármálastjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.

Tillögur varðandi breytingar á eftirfarandi gjaldskrám voru samþykktar samhljóða:
Gjaldskrá fyrir veitingar.
Gjaldskrá í félagsstarfi.
Gjaldskrá þjónustugjalda í íbúðum aldraðra.
Gjaldskrá í heimaþjónustu.
Breytingarnar taka gildi þann 1. janúar 2008.
Tillögu varðandi breytingu á gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna og útlagðs kostnaðar vegna dvalar hjá stuðningsfjölskyldu var frestað.

4. Lögð fram greinargerð forstöðumanns lögfræðiskrifstofu dags. 7. september 2007 varðandi breytingar á reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur, ásamt drögum að breyttum reglum. Ennfremur lögð fram drög að breyttu samkomulagi velferðarsviðs og Félagsbústaða ehf.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Framangreindar tillögur til breytinga voru samþykktar samhljóða.

5. Lögð fram tillaga sviðsstjóra dags. 7. september 2007 um að fatlaðir framhaldsskóla- og háskólanemendur geti notað Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík endurgjaldslaust veturinn 2007-2008 í tilraunaskyni.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

Velferðarráð fagnar tillögu sviðsstjóra um að fatlaðir framhalds- og háskólanemendur geti notað Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík endurgjaldslaust veturinn 2007-2008. Eðlilegt er að jafnræði ríki meðal allra nema á framhalds- og háskólastigi hvað þetta varðar.

6. Lagt fram svar við tillögu F-listans frá fundi dags. 22. ágúst um stuðningsúrræði fyrir ungmenni sem hlotið hafa skilorðsbundna dóma.
Skrifstofustjóri velferðarþjónustu gerði grein fyrir málinu og lagði fram svohljóðandi breytingartilllögu ásamt greinargerð:
Lagt er til að fulltrúi velferðarsviðs í samráðsnefnd um málefni fanga taki upp umræður í samráðsnefndinni um umgjörð og stuðning sem ungmennum sem hljóta skilorðsbundna dóma stendur til boða. Markmið umræðunnar er að aðilar sem koma að málefnum ungmenna í þessari stöðu sameinist um að veita heildstæðan stuðning við þessa einstaklinga, þegar við á. Fulltrúi Velferðarsviðs upplýsi velferðarráð um niðurstöður nefndarinnar og leiðir til stuðnings.
Breytingartillagan var samþykkt samhljóða.

7. Lagt fram til kynningar bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 28. ágúst sl. varðandi styrkbeiðni Félags áhugafólks og aðstandenda alzheimerssjúkra. Ennfremur lagt fram til kynningar svar borgarstjóra dags. 6. september sl. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um húsnæði fyrir dagþjálfun alzheimerssjúkra.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir stöðu málsins.
Velferðarráð fagnar ákvörðun borgaryfirvalda um að kaupa hús fyrir nýja dagþjálfun heilabilaðra sem Félag aðstandenda alzheimersjúklinga (FAAS) mun reka. Velferðarráð óskar fyrirhugaðri starfsemi velfarnaðar.

8. Lagt fram til kynningar skipurit velferðarsviðs ásamt umsögn borgarritara dags. 3. september sl. um endurskoðað skipulag velferðarsviðs.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

9. Lagt fram til kynningar bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 4. september 2007 um nýjan aðalmann Sjálfstæðisflokks í velferðarráði.

10. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:

Eitt af skilyrðum til að eiga rétt á félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík er að vera undir skilgreindum tekju- og eignamörkum sem eru: Eignamörk eru kr. 2.899.000. Tekjumörk eru kr. 2.078.834.- fyrir einhleyping en kr. 2.911.104 - fyrir hjón og sambúðarfólk, auk þess kr. 348.007- fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára.
1. Hvað eru margir Reykvíkingar undir þeim tekju- og eignaviðmiðunum sem miðað er við í reglum um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur?
2. Hversu margir sækja um félagslegt leiguhúsnæði sem eru yfir þessum tekjumörkum.

Lagt verður fram svar við fyrirspurninni á næsta fundi.

11. Kynning á skipulögðum heimsóknum til aldraðra í Laugardal/Háaleiti og Árbæ. Aðalbjörg Traustadóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis og Sólveig Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, mættu á fundinn og kynntu verkefnið.

12. Áheyrnarfulltrúi F-listans lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

Tekjumörk varðandi rétt á félagslegu leiguhúsnæði eru tæpar 2.1 milljón króna hjá einstaklingum en rúmar 2.9 milljónir króna hjá hjónum. Munurinn er aðeins 0.8 millj. kr. Hverjar eru forsendur þessara tekjumarka?

Svar við fyrirspurninni verður lagt fram á næsta fundi.


Fundi slitið kl. 13.55


Jórunn Frímannsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir
Fanný Jónsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Þórir Hrafn Gunnarsson Dögg Proppé Hugosdóttir