Velferðarráð - Fundur nr. 522

Velferðarráð

Ár 2025, miðvikudagur 17. desember var haldinn 522. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir.  Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Sara Björg Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Bára Sigurjónsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. desember 2025, þar sem tilkynnt er að samþykkt hafi verið á fundi borgarstjórnar 16. desember 2025, að Magnús Davíð Norðdahl taki sæti sem aðalfulltrúi í velferðarráði í stað Oktavíu Hrundar Guðrúnar Jóns, og að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti sem varafulltrúi í stað Alexöndru Briem. MSS22060049.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á innleiðingu velferðarstefnu Reykjavíkurborgar. Lagt fram minnisblað, dags. 15. desember 2025, með stöðumati á innleiðingu velferðarstefnu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjali. VEL22090177.

    Kristjana Gunnarsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 13:14 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Ásta Þ. Skjalddal Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum í hennar stað með rafrænum hætti.

    -    Kl. 13:15 tekur Helgi Áss Grétarsson sæti á fundinum.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka fyrir greinargott stöðumat á aðgerðaáætlun velferðarstefnu Reykjavíkurborgar og fagna þeim árangri sem náðst hefur, þar sem meirihluta aðgerða hefur verið lokið og sýnileg framför orðið í samþættingu þjónustu, gagnadrifinni ákvarðanatöku og eflingu forvarna. Sérstaklega er jákvætt að skýrar boðleiðir barna og fjölskyldna að þjónustu hafi verið styrktar í anda farsældarlaganna og Betri borgar fyrir börn. Samstarfsflokkarnir telja þó jafnframt mikilvægt að horfa af raunsæi til þeirra aðgerða sem enn eru í vinnslu og þeirra áskorana sem stöðumatið dregur fram, meðal annars varðandi samræmingu þjónustu, gæðastýringu og eftirfylgni. Fulltrúarnir undirstrika að árangur velferðarstefnunnar ræðst ekki einungis af fjölda lokinna aðgerða, heldur af því að innleiðing verði samfelld, stöðug og studd nægilegu fjármagni og mannauði. Samstarfsflokkarnir leggja því áherslu á að áfram verði tryggð skýr forgangsröðun, reglulegt stöðumat og markviss eftirfylgni með þeim aðgerðum sem eftir standa, þannig að markmið velferðarstefnunnar skili raunverulegum og varanlegum umbótum fyrir notendur þjónustunnar.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á stöðu húsnæðismála framleiðslueldhúss velferðarsviðs. Trúnaðarmál. VEL25110084.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  4. Fram fer kynning á starfi frístundatengla. VEL25120035.

    Jóhannes Guðlaugsson, verkefnastjóri í Suðurmiðstöð, Guðrún Halla Jónsdóttir, forvarnafulltrúi Reykjavíkurborgar, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það tilraunaverkefni sem lagt var upp með í Breiðholti 2020 og fest var í sessi árið 2023 hefur sannað gildi sitt. Markmiðið var að auka þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, auka nýtingu frístundastyrksins og  auka íslenskunotkun barna af erlendum uppruna. Frístundatengillinn vinnur náið með barni og fjölskyldu þess, liðsinnir, fræðir og styður við barnið í að finna sér stað sem því líður vel í skipulögðu íþrótta- eða tómstundastarfi. Lykilinn að velgegni er maður á mann nálgunin. Rannsóknir sýna fram á að þátttaka barna í skipulögðu  íþrótta- og tómstundastarfi sé einn af verndandi þáttum gegn áhættuhegðun, hefur mikið forvarnargildi og er ein besta leiðin til samfélagslegrar inngildingar barna í nærsamfélaginu. Með því að samtvinna enn betur skóladag barna í viðkvæmri stöðu við skipulagt frístundastarf er betur hægt að vinna með farsæld barnsins eftir að skóladegi lýkur til að tryggja þátttöku og virkni lengur. Það er mikilvægt að samræma verklag og umgjörð frístunatengla þvert á borgina að fyrirmynd verklags sem Suðurmiðstöð hefur þróað til að halda betur utan um alla þræði verkefnisins og unnið sé eins í öllum hverfum.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ástæða er til að þakka fyrir kynningu á starfi frístundatengla á miðstöðvum Reykjavíkurborgar. Að öðrum ólöstuðum hefur framlag Jóhannesar Guðlaugssonar, starfsmanns Reykjavíkurborgar, í þessum málaflokki undanfarin ár, skipt verulegu máli. Mikilvægt er að þróa áfram þetta starf og styrkja.
     

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands um stofnun teymis frístundatengla til að styðja við börn í viðkvæmri stöðu:

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósalistaflokks Íslands leggja  til að teymi frístundatengla verði stofnað til að þjónusta skólahverfi til að ná til barna í viðkvæmri stöðu; fátækra barna, fatlaðra barna og barna af erlendum uppruna. Fyrir er frístundatengill í Suðurmiðstöð og nýtt stöðugildi frístundatengils var fjármagnað í nýsamþykktri fjárhagsáætlun. Lagt er til að frístundatenglarnir vinni þétt saman og þjónusti alla borgina. Er velferðarsviði falið að útfæra umgjörð og vinnulag að fyrirmynd Suðurmiðstöðvar til að samræma vinnubrögð og verklag í samvinnu við menningar– og íþróttasvið sem heldur utan um nýstofnaðan styrktarsjóð en sjóðurinn er hugsaður til að styðja við greiðslu þátttökugjalda og útbúnað í íþrótta- og tómstundastarfi. Með þessu er verið að samtvinna enn betur skóladag barna í viðkvæmri stöðu við skipulagt tómstundastarf og þannig er hægt að vinna með farsæld barnsins eftir að skóladegi lýkur inn í skipulagt frístunda- og tómstundastarf til að tryggja þátttöku og virkni lengur inn í daginn. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25120037.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rannsóknir sýna fram á að þátttaka barna í skipulögðu í íþrótta- og tómstundastarfi sé einn af verndandi þáttum gegn áhættuhegðun, hefur mikið forvarnargildi og er ein besta leiðin til samfélagslegrar inngildingar barna í nærsamfélaginu. Með því að samtvinna enn betur skóladag barna í viðkvæmri stöðu við skipulagt frístundastarf er betur hægt að vinna með farsæld barnsins eftir að skóladegi lýkur til að tryggja þátttöku og virkni lengur. Fimmtungur barna í borginni sem eiga rétt á frístundarstyrknum nýta hann ekki og þarf að skoða sérstaklega og skima hvort það sé vegna fjárhagslega, félagslegra eða menningarlegra ástæðna. Markmið með stofnun teymis frístundatenglanna er að vinna þvert á borgina með það markmið að styðja börn í viðkvæmri stöðu til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi. Mikilvægt er að velferðasvið vinni náði með menningar- og íþróttasviði þannig að verk- og vinnulag verði samræmt að fyrirmynd sambærilegs verkefnis frístundatengils í Suðurmiðstöð, til að hægt sé að halda betur utan um úrvinnslu gagna og leita samvinnu við menntavísindasvið. Það er von fulltrúa samstarfsflokkanna að verkefnið, og nýstofnaður sjóður til að styðja við verkefnið, muni ná að virkja og valdefla fleiri börn og ná þeim í þátttöku í þeirri tómstund sem þau finna sig og blómstri á eigin forsendum.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði styðja þessa tillögu og taka undir það sem fram kemur í bókun samstarfsflokkanna að starfsemi teymis frístundatengla til að styðja við börn í viðkvæmri stöðu sé afar mikilvægt og hafi hingað til reynst vel. Þýðingarmikið er til lengri tíma að þróa þetta starf enn frekar.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn styður að auknu fjármagni verði varið í frístundatengla. Það er brýnt verkefni að auka þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi. Fulltrúinn gagnrýnir þó efni tillögunnar þar sem hún er efnislega röng. Frístundatenglar eru nú þegar starfandi í borginni, ekki einungis í Suðurmiðstöð eins og haldið er fram í tillögunni. Rétt hefði verið að leiðrétta það. Einnig hefði mátt skýra betur í greinargerðinni með tillögunni hvaða áhrif þessi breyting hefur á núverandi starf frístundatengla. Ekki liggur fyrir hvort þeir eiga að hætta að vinna á þeirri miðstöð sem þeir starfa á og færast yfir í færanlegt teymi eða hvort verið sé að leggja til að bæta við starfsfólki í sérstakt teymi til hliðar við núverandi frístundatengla. Áferðin í málinu hefði verið betri ef þetta hefði verið betur unnið í samstarfi við núverandi frístundatengla og kjörnir fulltrúar hefði fengið frekari upplýsingar um málið hvað þetta varðar.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Samstarfsflokkarnir árétta að einn starfandi frístundatengill er að vinna í borginni og hann er staðsettur í Suðurmiðstöð. Í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár var samþykkt annað stöðugildi og teymi frístundatengla verður til með því að samþykkja tillöguna. Styrktarfjármagni frá ríkinu sem var notað í tímabundin verkefni þvert á miðstöðvar klárast um áramót. Þess vegna var mikilvægt að útvíkka starf frístundatengils fyrir alla borgina til samræmis við vinnulag á Suðurmiðstöð. Samstarflokkarnir geta því ekki tekið undir að margir frístundatenglar vinni hjá borginni.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það er rangt að einungis einn frístundatengill starfi í borginni. Það er ekki bara frístundatengill í Suðurmiðstöð. Í Norðurmiðstöð er íþrótta- og frístundatengill.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2025, varðandi tillögur um betri nýtingu á tíma og fjármunum í rekstri Reykjavíkurborgar, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2025. MSS25040003.

    Fylgigögn

  7. Lagðar fram til kynningar tillögur styrkjahóps velferðarráðs um úthlutun styrkja úr borgarsjóði til verkefna á sviði félags- og velferðarmála. Trúnaðarmál. VEL25080057.

  8. Lagt fram svarbréf innviðaráðuneytisins, dags. 21. nóvember 2025, vegna umsóknar velferðarsviðs um framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna innra eftirlits í þjónustu við fatlað fólk. VEL25110002.

    Fylgigögn

  9. Fram fer kynning á starfsemi Matthildarsamtakanna. VEL25120002.

    Svala Jóhannesdóttir, formaður Matthildarsamtakanna, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir kynninguna. Mikilvægt er að tryggja áfram starfsemina og er því lögð fram tillaga um styrkveitingu.

  10. Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að Matthildarsamtökin verði styrkt um 2 milljónir til að mæta neyðarþörf á fjármagni. Fjármagnið verið tekið úr styrktarsjóði velferðarsviðs. Jafnframt verði  velferðarsviði falið að hefja samtal við heilbrigðisráðuneytið um fjármögnun þessa mikilvæga starfs til langs tíma. VEL25120043.
    Frestað.

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 17. desember 2025, um hækkun grunnfjárhæða fjárhagsaðstoðar til framfærslu:

    Lagt er til að grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækki sem hér segir:

    -    Grunnfjárhæð fyrir einstakling sem rekur eigið heimili hækkar úr 247.572 kr. í  259.951 kr. á mánuði
    -    Grunnfjárhæð til hjóna/sambúðarfólks hækkar úr 396.115 kr. í 415.922 kr. á mánuði.
    -    Grunnfjárhæð til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði hækkar úr 208.591 kr. í 219.021 kr. á mánuði.
    -    Grunnfjárhæð til þeirra sem búa í foreldrahúsum hækkar úr 123.786 kr. í 129.976 kr. á mánuði.
    -    Fjárhæð vegna barna í 16 gr. a hækki úr 19.870 kr. í 20.864 kr. á mánuði.

    Breyting þessi taki gildi frá og með 1. janúar 2026. Áætlað er að aukinn kostnaður við breytinguna nemi um 130 m.kr. á ári.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25120029.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. desember 2025, við fyrirspurn fulltrúa Framsóknarflokksins um þjónustu við börn með sykursýki, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. október 2025. VEL25100045.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir svarið. Mikilvægt er að tryggja að börn með sykursýki fái góða þjónustu óháð búsetu í borginni.

    Fylgigögn

  13. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL25030023.

  14. Lagður fram að nýju 1. liður fundargerðar velferðarráðs frá 19. nóvember 2025, kynning á níu mánaða uppgjöri velferðarsviðs 2025 sem bókað var um í trúnaðarbók velferðarráðs. VEL25110042.

    Við afgreiðslu málsins voru eftirfarandi bókanir færðar í trúnaðarbók velferðarráðs:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:

    Reglubundinn rekstur velferðarsviðs án bundinna liða fyrstu 6 mánuðina árið 2025 var 6,7% umfram fjárhagsáætlun eða sem nam rúmum 2.167 milljónum króna. Þar af varð rekstrarniðurstaða Barnaverndar Reykjavíkur 1.626 milljónum króna umfram fjárheimildir eða 63%. Þessi tiltekni halli, í samanburði við áætlun, skýrist af því að Reykjavíkurborg er að taka að sér verkefni sem íslenska ríkið á að sinna. Útkoma af þessu tagi er ekki í lagi fyrir rekstur borgarinnar en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent á að það sé óviðunandi að ríkið greiði ekki þann hluta af þessum kostnaði sem því ber að gera lögum samkvæmt og að borgin hafi ekki verið löngu búin að ganga harðar fram í að gæta hagsmuna sinna gagnvart ríkinu. Nú liggur fyrir samkomulag sem undirritað var í mars sl. og er það fagnaðarefni en óljóst er hvaða viðbótarfjárhæðir munu koma frá ríkinu til borgarinnar fyrir árið 2025.

    Fylgigögn

  15. Lagður fram að nýju 4. liður fundargerðar velferðarráðs frá 19. nóvember 2025, yfirlit yfir innkaup yfir 10. m.kr. í október 2024-september 2025 sem fært var í trúnaðarbók. VEL25110055. 

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 16:28

Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson

Sara Björg Sigurðardóttir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Magnús Davíð Norðdahl

Magnea Gná Jóhannsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 17. desember 2025