Velferðarráð - Fundur nr. 521

Velferðarráð

Ár 2025, mánudagur 8. desember var haldinn 521. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 15:05 í Sjávarhólum, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Guðný Maja Riba, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Bára Sigurjónsdóttir, Rannveig Einarsdóttir, Sigþrúður Erla Arnardóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á þjónustu Reykjavíkurborgar við flóttafólk. Lögð fram drög að III. viðauka þjónustusamnings milli félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, Vinnumálastofnunar og Reykjavíkurborgar, um samræmda móttöku flóttafólks, dags. í desember 2025. VEL25110076.

    -    Kl. 15:10 tekur Helgi Áss Grétarsson sæti á fundinum með rafrænum hætti.

    Samþykkt. Fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Markmið samnings um samræmda móttöku flóttafólks er að tryggja flóttafólki  jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins en áður fyrr var verulegur munur á þjónustunni. Velferðarráð Reykjavíkurborgar fagnar því að ekki eigi að hætta með samninginn líkt og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Vinna þarf að því að bæta samninginn. Sem dæmi gerir velferðarráð athugasemdir við að búseta í húsnæði Vinnumálastofnunar sé stytt úr átta vikum í fjórar. Þetta  skapar óraunhæfan þrýsting á þá sem eru í leit að húsnæði sem og á það starfsfólk sveitarfélagsins sem aðstoðar við slíka leit. Velferðarráð telur að endurskoða þurfi greiðslur vegna einstaklinga sem hafa fengið þjónustu lengur en í tvö ár þar sem um er að ræða einstaklinga með umfangsmiklar stuðningsþarfir. Kostnaðarlíkan samningsins kemur ekki til móts við þennan hóp að fullu. Til að tryggja framkvæmd laga um farsæld barna, svo sem vegna stuðnings til íþrótta og tómstunda þeirra, til að fyrirbyggja jaðarsetningu, kallar velferðarráð eftir auknu fjármagni sem fer í að þjónusta börnin. Velferðarráð Reykjavíkurborgar hvetur eindregið til þess að unnið verði í nánu samstarfi við sveitarfélög og að ríkið tryggi fjármagn til að uppfylla markmið samræmdrar móttöku og þar með samfélagslega þátttöku.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Framsóknar gagnrýnir óvönduð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í samskiptum við sveitarfélög vegna samræmdrar móttöku flóttafólks. Í sumar var Reykjavíkurborg tilkynnt um uppsögn samningsins og umsagnartími vegna þessa var í júlí þegar sumarleyfi standa yfir. Síðar var ákveðið að falla frá eða fresta uppsögn og í staðinn lagður fram viðauki við samninginn. Borginni var gefin óeðlilega skammur frestur til að undirrita viðaukann, fyrst til 8. desember með viðvörun um stöðvun greiðslna ef hann yrði ekki undirritaður. Fresturinn var síðar framlengdur til 12. desember eftir athugasemdir velferðarráðs. Slík stjórnsýsla er óásættanleg. Um er að ræða viðkvæman hóp sem þarfnast aukinnar þjónustu til að geta tekið virkan þátt í samfélaginu. Samningurinn er sveitarfélögunum óhagstæður og veltir kostnaði yfir á þau vegna verkefna sem ríkið hyggst taka yfir. Sérstaklega vekur áhyggjur að tími til að útvega húsnæði, samkvæmt viðauka, er styttur úr átta vikum í fjórar, þrátt fyrir mikinn húsnæðisskort. Fulltrúi Framsóknar leggur áhersla á að börn fái nauðsynlega þjónustu sem fjármagna þarf betur af hálfu ríkisins og bendir á stöðu eldra fólks sem einungis á rétt á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga en ekki ellilífeyrisgreiðslum vegna þess að þau hafa ekki verið nægjanlega lengi í landinu.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 16:05

Sanna Magdalena Mörtudottir Guðný Maja Riba

Helgi Áss Grétarsson Sara Björg Sigurðardóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 8. desember 2025