Velferðarráð - Fundur nr. 52

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2007, miðvikudaginn 28. febrúar var haldinn 52. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.13 að Tryggvagötu 17. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Einar Ævarsson, Björk Vilhelmsdóttir, Þorleifur Gunnlaugsson og Stefán Jóhann Stefánsson. Áheyrnarfulltrúi: Margrét Sverrisdóttir.
Af hálfu starfsmanna: Stella Víðisdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram eftirfarandi skýrslur; Viðhorfskönnun notenda mötuneyta Reykjavíkurborgar og Næringarsamsetning fæðis - Öldrunarþjónusta Reykjavíkurborgar.
Samþykkt var að fresta málinu til næsta fundar.

2. Lögð fram að nýju tillaga Samfylkingar þar sem lagt er til að Félagsbústaðir hf. kanni möguleika á að kaupa íbúðir í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu:

Velferðarráð samþykkir að fela Félagsbústöðum að kanna möguleika á því að kaupa íbúðir í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og mögulega breytingu á eignaraðild Félagsbústaða með aðkomu nágranna-sveitarfélaganna.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

3. Nýr framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur kynntur.
Steinunn Bergmann, nýráðinn framkvæmdastjóri, mætti á fundinn.

4. Lögð fram gögn frá Samhjálp og Velferðarsviði varðandi úttekt á Miklubraut 18 sbr. fyrirspurn á síðasta fundi velferðarráðs.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og F-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og F-lista lýsa undrun sinni yfir því að starfsmenn Velferðarsviðs skuli kjósa að gagnrýna fjölmiðla og fulltrúa minnihlutans vegna umfjöllunar um starfsemi stuðningsbýlisins á Miklubraut 18 með tilkynningu sem send var fjölmiðlum 15. þessa mánaðar. Sú tilkynning var ekki send velferðarráði sem verður einnig að teljast undarlegt. Það ber því vott um sérkennilega afstöðu til almennrar umfjöllunar um opinberan rekstur þegar starfssvið á vegum borgarinnar telur að halda beri frá fjölmiðlum efni skýrslu sem inniheldur úttekt á þjónustu. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðislegri umræðu, ekki síður en kjörnir fulltrúar. Ekki verður með nokkru móti séð að sú umræða sem átt hefur sér stað um efni umræddrar skýrslu skaði á nokkurn hátt notendur þjónustunnar né að ástæða hafi verið til að halda efni hennar leyndu. Markmið umræðunnar er þvert á móti að bæta gæði þjónustu við notendur hennar. Þótt skýrslan dragi fram nokkra jákvæða þætti starfseminna verður ekki litið fram hjá því að neikvæðir þættir eru yfirgnæfandi. Skýrslan er dagsett í september 2006 og kynnt rekstraraðilum í október en velferðarráði ekki fyrr en um miðjan febrúar 2007. Þá var búið að gera nýja samninga við rekstraraðilann. Það hefði verið eðlileg vinnregla að velferðarráð hefði verið upplýst um úttektina áður en nýir samningar voru gerðir. Það er vandséð að trúnaðurinn við þjónustuaðilann eigi að vera yfirsterkari upplýsingaskyldunni gagnvart kjörnum fulltrúum. Jafnframt verður ekki annað séð en að hagsmunir og skoðanir notenda séu að litlu hafðir með því að gerður sé samningur við sama þjónustuaðila án eðlilegrar skoðunar og umræðu í ljósi þeirar stöðu sem upp var komin. Úttekt á starfseminni á Miklubraut 18 vekur upp spurningar um hvort eðlilegt sé að áhugahópar sjái um svo viðkvæma starfsemi sem hér um ræðir. Fagaðilar sem vitnað er til efast um að slíkt sé heppilegt. Í ljósi þessa og ýmissa annarra upplýsinga sem fram hafa komið er eðlilegt að á næstunni fari fram heildarendurskoðun á því hvort og í hve miklum mæli fela beri áhuga- og trúarhópum að sinna viðkvæmri þjónustu á vegum borgarinnar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og F-lista lögðu fram eftirfarandi fyrirspurnir:
a. Hvenær var haft samband við Skipulagssjóð um þær lagfæringar sem talað er um í skýrslunni að skorti á Miklubraut 18?
b. Er Miklabraut 20 með starfsleyfi og ef svo er hvenær gerðist það?
c. Er Miklabraut 18 starfsleyfisskyld starfsemi?
d. Hver er ástæða þess að ekki var skrifað undir samninga um stoðbýlið að Miklubraut 18 fyrr en 6. júlí 2005 vegna ársins 2005 og 22. desember 2006 vegna samnings sem rann út 31. desember sama ár?
e. Þá er ítrekuð ósk um að fá endurskoðaða ársreikninga frá Samhjálp vegna Miklubrautar 18 og 20.

Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ítreka að í þau fjögur ár sem heimilið hefur verið starfrækt hefur ekki verið gerð nein könnun á aðstæðum eða ánægju einstaklinganna sem þar bjuggu, úttekt sú sem nú er til umfjöllunar var gerð í tíð núverandi meirihluta. Það voru ýmsar ástæður fyrir því að dróst að kynna skýrsluna fyrir ráðinu, meðlimum velferðarráðs er vel kunnugt um þær ástæður. Í þessari úttekt komu fram þættir sem ástæða var til skoða og lagfæra. Það var strax farið yfir allar athugasemdir með rekstraraðilum svo þeir gætu bætt úr því sem betur mætti fara. Gerð verður önnur úttekt í haust til þess að skoða hvort það hafi tekist. Það var R-listinn sem ákvað að setja þessa starfsemi í húsnæðið að Miklubraut 18 án þess að gera nauðsynlegar endurbætur á húsnæðinu. Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar hefur nú fengið það verkefni að gera nauðsynlegar lagfæringar á húsnæðinu.

5. Lögð fram að nýju skýrsla starfshóps um eftirmeðferðarmál ungs fólks í Reykjavík dags. 30. maí 2006.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt var að fela sviðsstjóra að forma tillögu út frá skýrslunni. Tillagan verður lögð fram á næsta fundi.

6. Lögð fram að nýju skýrsla starfshóps um þróun spilafíknar meðal ungs fólks í Reykjavík dags. 2. júní 2006.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð vekur athygli starfsfólks á vegum borgarráðs um staðsetningu og rekstur spilakassa, á því að þótt spilafíkn virðist ekki vera algengt vandamál hjá ungu fólki er það þó til staðar hjá litlum hópi. Fyllsta ástæða er til þess að huga að starfsemi spilasala og annarri skyldri starfsemi með það í huga.

Samþykkt var að vísa skýrslunni til starfshóps um forvarnir sem leggi mat á það hvort ástæða sé til að bregðast sérstaklega vð þeim upplýsingum er þar koma fram.

7. Lögð fram að nýju könnun á aðstæðum og viðhorfum meðal aldraðra á biðlista eftir hjúkrunarrými í Reykjavík.
Skrifstofustjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.

8. Lögð fram tillaga sviðsstjóra og formanns velferðarráðs að breytingum vegna úthlutunar styrkja til velferðarmála fyrir árið 2007.

Hjálparstarf kirkjunnar : Lagt til að veittur verði styrkur að fjárhæð kr. 1.500.000 í stað kr. 1.000.000.
Samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur.

Hringurinn í Reykjavík: Lagt til að velferðarráð veiti ekki styrk til Hringsins þar sem þeir fengu styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 hjá borgarráði.
Samþykkt samhljóða.

Sambýlissjóðurinn Hæðargarði 33-35: Lagt til að veittur verði styrkur að fjárhæð kr. 70.000.
Samþykkt samhljóða.

Samtök áhugafólks um spilafíkn: Lagt til að veittur verði styrkur að fjárhæð kr. 500.000.
Samþykkt samhljóða.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og Björk Vilhelmsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:

Ástæða þess að velferðarráð samþykkir aukalega styrk til Hjálparstarfs kirkjunnar er sú að verið er að styrkja faglegt starf og þróun innanlandsaðstoðar. Þar sem Hjálparstarf kirkjunnar hefur verið í fararbroddi í neyðaraðstoð er mælst til þess að skoðað verði hvort gera eigi þjónustusamning við Hjálparstarf kirkjunnar frá og með næsta ári.

Stefán Jóhann Stefánsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, Þorleifur Gunnlaugsson, fultrúi Vinstri grænna og Margrét Sverrisdóttir, áheyrnarfulltrúi F-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Forsendur fyrir styrkveitingum til félags- og velferðarmála breyttust milli funda í velferðarráði þannig að 500.000 kr. bættust við ráðstöfunarfé. Samþykkt var að sú upphæð færi öll til Hjálparstarfs kirkjunnar til að “efla ráðgjöf og talsmannshlutverk”. Hjálparstarf kirkjunnar hafði þegar verið styrkt með einni milljón króna. Við teljum óþarft að hækka þann styrk um hálfa milljón króna þegar unnt hefði verið að styrkja aðra aðila sem fengu miklu lægri framlög.

9. Lögð fram tillaga sviðsstjóra og formanns velferðarráðs dags. 28. febrúar vegna umsókna um styrki til greiðslu fasteignagjalda fyrir árin 2005 og 2006 fyrir Sjálfsbjörg - landssambands fatlaðra, Geðhjálp og Byggingafélag námsmanna.
Málinu er frestað til næsta fundar.

10. Lögð fram tillaga sviðsstjóra og formanns velferðarráðs dags. 28. febrúar um að synja umsókn Sjálfsbjargar - landssambands fatlaðra um styrk til breytinga á íbúðum.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

11. Lagðar fram til kynningar lykiltölur janúar 2006 – desember 2006.

12. Lagt fram til kynningar ársuppgjör 2006 með fyrirvara um útgáfu ársreiknings Reykjavíkurborgar 2006.

13. Lögð fram til kynningar starfs- og fjárhagsáætlun Velferðarsviðs 2007.

14. Lagðar fram þjónustukannanir frá Félagsvísindadeild Háskóla Íslands fyrir Stuðninginn heim og Seljahlíð, heimili aldraðra.
Málinu er frestað til næsta fundar.

15. Skrifstofustjóri velferðarþjónustu kynnti fyrirhugað málþing um stöðu heimilislausra sem halda á þann 23 mars nk.

16. Skrifstofustjóri Velferðarsviðs kynnti opninn fund sem haldinn verður í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 1. mars nk. þar sem kynntar verða niðurstöður viðhorfsrannsóknar um hagi og viðhorf eldri borgara sbr. lið 5 í fundargerð velferðarráðs frá 14. febrúar sl.

Fundi slitið kl 15.20

Jórunn Frímannsdóttir
Sif Sigfúsdóttir Marsibil Sæmundardóttir
Einar Ævarsson Björk Vilhelmsdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson Stefán Jóhann Stefánsson