Velferðarráð - Fundur nr. 518

Velferðarráð

Ár 2025, miðvikudagur 19. nóvember var haldinn 518. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sara Björg Sigurðardóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á níu mánaða uppgjöri velferðarsviðs 2025. Trúnaður er um málið þar til uppgjörið hefur verið lagt fram í borgarráði. VEL25110042.

    Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 13:12 tekur Helgi Áss Grétarsson sæti á fundinum.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  2. Fram fer kynning á stöðu húsnæðismála stofnana velferðarsviðs. Trúnaðarmál. VEL25110043.

    Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri fjármála og reksturs, og Ricardo Mario Villalobos, deildarstjóri húsnæðis og búsetu, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 17. nóvember 2025, um áframhald á árlegum viðauka við fjárhagsramma Barnaverndar Reykjavíkur vegna núverandi stöðugilda:

    Lagt er til að auka fjárhagsramma Barnaverndar Reykjavíkur um 45 m.kr. á ári frá og með árinu 2025 til að halda núverandi mönnun. Um er að ræða 3,5 stöðugildi sérfræðinga sem síðustu ár hafa verið fjármögnuð með tímabundnum viðaukum fyrir eitt ár í senn, nú síðast með viðauka VA1618.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25110044.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram yfirlit yfir innkaup á velferðarsviði yfir 10 m.kr. í október 2024 - september 2025, ásamt bréfi velferðarsviðs til innkauparáðs, dags. 19. nóvember 2025. Trúnaður er um málið þar til níu mánaða uppgjör velferðarsviðs 2025 hefur verið lagt fyrir borgarráð. VEL25110055.

    Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins um búsetuúrræði með stuðningi í herbergjasambýlum fyrir ungt fólk með fjölþættan vanda, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. september 2025, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 17. nóvember 2025. VEL25090074.
    Vísað til stýrihóps um mótun stefnu í málaflokki fatlaðs fólks.

    Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri fjármála og reksturs, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillögunni er vísað til meðferðar stýrihóps um mótun stefnu í málaflokki fatlaðs fólks þar sem hún mun fá nánari rýni og umfjöllun.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að veruleg þörf er fyrir sértækt búsetuúrræði með stuðningi fyrir ungt fólk með fjölþættan vanda sem hefur náð 18 ára aldri. Á fundi velferðarráðs 17. september var samþykkt að hefja samtal við Félagsbústaði um niðurlagningu herbergjasambýla í kjölfar þess að íbúum verði boðin búseta í íbúðarkjarna í nýbyggingu. Samhliða því er eðlilegt að skoða fýsileika þess að nýta þau rými sem losna til að koma upp sérstöku búsetuúrræði fyrir ungt fólk. Með því má tryggja að þau rými sem áður hýstu herbergjasambýli og annars stæðu auð nýtist áfram til mikilvægrar þjónustu við ungt fólk. Í umsögn velferðarsviðs kemur jafnframt fram að slíkt úrræði væri umtalsvert hagkvæmara í rekstri en þau úrræði sem borgin hefur nú í boði hjá einkaaðilum. Það styður enn frekar mikilvægi þess að þessi leið verði skoðuð til hlítar.

    Fylgigögn

  6. Fram fara kynningar frá Bjargi íbúðafélagi, Blæ leigufélagi, Félagsstofnun stúdenta, Félagi eldri borgara í Reykjavík, á markhópum þjónustu félaganna, stöðu biðlista og mögulegum úrbótum í húsnæðismálum hjá Reykjavíkurborg. Einnig fer fram kynning frá Teiknistofunni Stiku á hönnun íbúðakjarna að Brekknaási.  VEL25110047.

    Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags, Dýrleif Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík, Eva Huld Friðriksdóttir, arkitekt hjá Teiknistofunni Stiku, Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, Stefán Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri VR, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 16:35 víkur Ellen Jacqueline Calmon og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. Einnig víkur Sara Björg Sigurðardóttir af fundinum og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð þakkar fyrir góðar kynningar og dýrmætt samtal um húsnæðismál og uppbyggingu húsnæðis í almannaþágu. Velferðarráð gegnir hlutverki félagsmála- og húsnæðisnefndar og því er mjög gagnlegt að heyra sjónarmið þeirra sem koma að húsnæðisuppbyggingu fyrir fjölbreytta hópa samfélagsins.

  7. Lagt fram bréf sviðsstjóra, dags. 17. nóvember 2025, varðandi ályktun sameiginlegs fundar félagsmálanefnda sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu frá 7. nóvember 2025, ásamt fylgiskjali. VEL25110046.

    Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg er leiðandi í þjónustu við heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Um viðkvæman hóp er að ræða og því er mjög mikilvægt að velferðarnefndir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafi fundað saman og náð samstöðu um að skora á ríkið um að móta stefnu í málaflokknum til framtíðar og koma meira að fjármögnun hans. Fundurinn var haldinn að frumkvæði Reykjavíkurborgar en sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru með samninga við Reykjavíkurborg um greiðslu gistináttagjalds fyrir skjólstæðinga sína sem nýta sér þjónustu borgarinnar. Aðgerðaáætlun borgarinnar í málaflokknum á næsta ári felur m.a. í sér áframhaldandi uppbyggingu úrræða sem eru sniðin að þörfum heimilislauss fólks með flóknar þjónustuþarfir. Mikilvægt er að móta sameiginlega sýn til framtíðar í málaflokknum og þessi fundur er vonandi upphafið að mun víðtækara samtali milli sveitarfélaga og vonandi til framtíðar, við ríkið. Mikilvægt er að bjóða upp á mannúðlega og stuðningsríka þjónustu og ánægjulegt er að allir þessir kjörnu fulltrúar hafi fundað saman til þess að fjalla um stöðuna.

    Fylgigögn

  8. Minnisblað um samráðsfund mannréttindaráðs 7. september 2025. MSS25010051. 
    Frestað.

  9. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að velferðarsvið hefji leit að annarri staðsetningu fyrir þau vinnu og virkni úrræði Reykjavíkurborgar sem flytja á í Skeifuna 8. Starfsfólk og aðstandendur notenda hafa margsinnis bent á að bæði húsnæðið og staðsetningin hentar illa notendahópnum. Um er að ræða einstaklinga með mikla einhverfu og þroskahamlanir. Fólk sem er afar næmt fyrir allskyns áreiti, þá sérstaklega umhverfisáreiti og þarf greitt aðgengi að hljóðlátu grænu svæði. Þessum hóp hentar alls ekki að vera í miklu fjölmenni, hljóðeinangrun og hljóðaðskilnaður skiptir því miklu máli í starfseminni. Það liggur í augum uppi að bæði að innan sem og að utan er Skeifan 8 óhentugt húsnæði. Þarna er mikill hávaði og umferðarþungi auk þess sem gangstéttum og gangbrautum er ábótavant. Ljóst er að þessi staðsetning þjónar ekki þörfum notenda og því mikilvægt að borgin standi ekki fast við ranga ákvörðun heldur taki réttmætar ábendingar aðstandenda og fagfólks alvarlega. Leita ber nýs, öruggs og viðeigandi húsnæðis sem styður við velferð, öryggi og reisn notenda. VEL25110062.

    Frestað.

Fundi slitið kl. 17:14

Sanna Magdalena Mörtudottir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns

Þorvaldur Daníelsson Helgi Áss Grétarsson

Pétur Marteinn Urbancic Tómasson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 19. nóvember 2025