Velferðarráð
Ár 2025, miðvikudagur 5. nóvember var haldinn 517. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:02 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sara Björg Sigurðardóttir og Tinna Helgadóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Helgi Áss Grétarsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Bára Sigurjónsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á niðurstöðum rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á reynslu og aðstæðum kvenna með örorkulífeyri, dags. í júlí 2025. VEL25100021.
Stefán Þór Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið. Sunna Elvira Þorkelsdóttir, lögfræðingur hjá ÖBÍ réttindasamtökum, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir þakka fyrir kynningu á niðurstöðum rannsóknar Félagsvísindastofnunar um reynslu og aðstæður kvenna sem fá greiddan örorkulífeyri. Skýrslan var unnin að beiðni Tryggingastofnunar (TR) en að rannsókninni standa, auk TR, félags- og húsnæðismálaráðuneytið, velferðarvaktin og Vinnueftirlitið. Niðurstöðurnar varpa skýru ljósi á félagslegar, efnahagslegar og heilsutengdar aðstæður þess hóps sem hefur um langa hríð verið í meirihluta þeirra sem eru með örorku á Íslandi. Vakin er athygli á að aðstæður kvenna á örorku eru mótaðar af samverkandi þáttum en þær eru líklegri til að sinna líkamlega slítandi störfum, bera oftar ábyrgð á ólaunuðum umönnunarstörfum barna og annarra, detta oftar út af vinnumarkaði vegna veikinda, hafa áfallasögu og eru líklegri til að hafa verið beittar ofbeldi. Það er mikilvægt að vanmeta ekki afleiðingar ofbeldis og áfalla sem álagsorsök í lífi kvenna með örorku. Það er samfélagslegt verkefni; hins opinbera, atvinnulífsins, menntastofnana og heilbrigðiskerfisins að reyna eftir mætti að ná utan um orsakir örorku, grípa inn fyrr með fyrirbyggjandi aðgerðir til að taka mið af félagslegum, efnahagslegum aðstæðum og stöðu kynja.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 3. nóvember 2025, um breytingu á gildistíma reglna Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk (NPA):
Lagt er til að samþykktar verði eftirfarandi breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk:
Ákvæði um gildistíma reglnanna, sem nú er til 31. desember 2025, verði fellt brott og að gildistími reglnanna verði ótímabundinn (27. gr.).
Ekki er gert ráð fyrir að tillagan feli í sér viðbótarkostnað.Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25100072.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs.Aðalbjörg Traustadóttir skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, og Rúnar Björn Herrera, formaður stjórnar NPA miðstöðvarinnar, taka sæti á fundinum undir þessum lið. Sunna Elvira Þorkelsdóttir, lögfræðingur hjá ÖBÍ réttindasamtökum, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar velferðarráðs styðja að gildistími NPA-reglnanna verði gerður ótímabundinn til að tryggja réttindi og samfellu í þjónustu fyrir notendur.
Fylgigögn
-
Tillaga sviðsstjóra um breytingar á reglum um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk (NPA). VEL25100073.
Frestað.Aðalbjörg Traustadóttir skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, og Rúnar Björn Herrera, formaður stjórnar NPA miðstöðvarinnar, taka sæti á fundinum undir þessum lið. Sunna Elvira Þorkelsdóttir, lögfræðingur hjá ÖBÍ réttindasamtökum, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
-
Fram fer kynning á mælaborðum velferðarþjónustu. VEL25100078.
Heiðrún Una Unnsteinsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Diemut Haberbusch, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka fyrir kynningu á uppbyggingu mælaborða og gagnalausna fyrir velferðarþjónustu. Samstarfsflokkarnir fagna því að unnið sé að auknu gagnsæi, aðgengi að rauntímagögnum og sameiginlegum mælikvörðum sem nýtast bæði í stjórnsýslu og stefnumótun. Sérstaklega er jákvætt að leggja áherslu á aðgengi starfsfólks, samþættingu gagna og áframhaldandi þróun mælaborða á fleiri þjónustusviðum.
-
Fram fer kynning á verkefni um bók fyrir börn fanga. VEL25100075.
Ásdís Birna Bjarkadóttir og Jenný Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka fyrir kynningu á bókinni „Þegar pabbi fór í fangelsi“ og þakka fyrir það mikilvæga framtak sem varpar ljósi á stöðu og reynslu barna sem eiga foreldri í fangelsi. Mikilvægt er að tryggja aðgengilegt fræðsluefni fyrir fagaðila og börn. Bókin er mikilvægt framlag þar sem hún varpar ljósi á reynsluheim barns í þessari stöðu, mikilvægt er að gleyma ekki börnum þeirra sem eru í fangelsi sem þurfa á stuðningi á að halda. Samstarfsflokkar velferðarráðs hvetja réttarvörslukerfið til þess að huga betur að þörfum barna sem eiga foreldra í fangelsi.
-
Lögð fram drög að samstarfssamningi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Samhjálpar um þjónustu Samhjálpar við heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir, dags. 4. nóvember 2025. VEL25100085.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð fagnar samstarfssamningi um þjónustu Samhjálpar við heimilislausa einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 3. nóvember 2025, við fyrirspurn fulltrúa Framsóknarflokksins um biðlista í dagdvöl, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. október 2025. VEL25100043.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL25030023.
-
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:
Velferðarráð Reykjavíkurborgar óskar eftir upplýsingum frá ríkinu um fjölda einstaklinga í Reykjavík sem bíða eftir plássi í dagdvöl.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25110012.
Samþykkt.Fylgigögn
-
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að staða fólks á fjárhagsaðstoð verði könnuð sérstaklega. Markmiðið með því er að kanna sérstaklega reynsluheim og aðstæður fólks á fjárhagsaðstoð. Árið 2024 voru 2.959 einstaklingar á fjárhagsaðstoð til framfærslu og flestir notenda eru karlar. Árið 2021 voru konur á fjárhagsaðstoð 898 en karlar 1.535. Árið 2023 voru konur á fjárhagsaðstoð 1.446 og karlar 1.814. Því er lagt til að sérstök áhersla verði lögð á að kanna hvers vegna karlar eru líklegri en konur til að vera notendur fjárhagsaðstoðar. VEL25110013.
Frestað.
-
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að Reykjavíkurborg hefji samtal við umsjónarfólk verkefnisins bók fyrir börn fanga um hvernig borgin getur stutt við verkefnið.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25110014.
Frestað.Fylgigögn
Fundi slitið kl. 16:15
Sanna Magdalena Mörtudottir Guðný Maja Riba
Sara Björg Sigurðardóttir Tinna Helgadóttir
Helgi Áss Grétarsson Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Magnea Gná Jóhannsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 5. nóvember 2025