Velferðarráð
Ár 2025, miðvikudagur 15. október var haldinn 516. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Helgi Áss Grétarsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Bára Sigurjónsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2026. Trúnaður er um málið þar til fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026 hefur verið vísað til borgarstjórnar. VEL25090046.
Vísað til fjárhagsáætlunargerðar.
Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lögð fram drög að gjaldskrám velferðarsviðs 2026. Trúnaður er um málið þar til fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026 hefur verið vísað til borgarstjórnar. VEL25090058.
Vísað til fjárhagsáætlunargerðar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL25030023.
-
Fram fer kynning á ársskýrslu velferðarsviðs 2024. VEL25080031.
Heiðrún Una Unnsteinsdóttir, teymisstjóri teymis árangurs- og gæðamats, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka fyrir greinargóða og metnaðarfulla ársskýrslu velferðarsviðs fyrir árið 2024. Skýrslan endurspeglar vel umfang og fjölbreytni þjónustu sviðsins í þágu borgarbúa. Samstarfsflokkarnir fagna þeirri jákvæðu þróun sem fram kemur í skýrslunni, þar má helst nefna aukin gæði í þjónustu við börn og fjölskyldur. Samþætting þjónustunnar fyrir börn og barnafjölskyldur er gríðarlega mikilvæg og hefur snemmtæk íhlutun sannað gildi sitt í þágu farsældar barna þar sem börn eru gripin fyrr í gegnum verklagið Betri borg fyrir börn. Þriðjungur af heildar þjónustuþegum velferðasviðs eru börn eða um 6400 börn sem hafa fengið þjónustu miðstöðva og Barnaverndar. Eftir fjölgun á undanförnum árum fækkaði umsóknum um fyrsta og annars stigs þjónustu. Starfsánægja á velferðarviði mælist góð samkvæmt könnun. Samstarfsflokkarnir taka þó undir að áskoranir séu áfram miklar í þjónustu t.a.m. við börn í vistun utan heimilis, í húsnæðismálum og í málaflokkum þar sem þörf og kostnaður hafa aukist. Mikilvægt er að halda áfram að vinna að því að bæta samræmingu þjónustu, tryggja nægilegt fjármagn og styðja starfsfólk í fremstu línu velferðarþjónustunnar. Samstarfsflokkarnir leggja áherslu á að ársskýrslan sem nú var kynnt er mikilvægur hluti af gagnsæi, ábyrgri framsetningu og stefnumótun í velferðarmálum. Starfsfólki er þakkað fyrir ómetanlegt framlag til borgarbúa.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á áfangaheimilum og búsetuúrræðum fyrir fólk með fíknivanda. VEL25100027.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka yfirferð og kynningu á áfangaheimilum og búsetuúrræðum fyrir fólk með fíknivanda. Sérstaklega var gott að sjá tvö úrræði valin og aðlöguð fyrir kvár innan málaflokksins og að úrræðin voru valin vegna tegundar húsnæðis þar sem betur er hægt að tryggja öryggi og næði kvára. Í ársskýrslu velferðarsviðs 2024 kemur fram að 68% þjónustuþegar VoR-teymisins (vettvangs- og ráðgjafarteymisins) eru karlmenn og 89% með íslenskt þjóðerni sem er því stærsti hópur þeirra sem treysta á þá þjónustu. Vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar gegnir mikilvægu hlutverki í þjónustu við heimilislaust fólk. Starfsfólk þess veitir margvíslegan einstaklingsbundinn stuðning, bæði á vettvangi en einnig í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar sem sérstaklega er ætlað heimilislausu fólki með miklar og flóknar þjónustuþarfir, í félagslegu húsnæði eða húsnæði á almennum markaði. Í búsetuúrræðum fyrir fólk með fíknivanda er unnið með VoR-teyminu. Samstarfsflokkar velferðarráðs telja kynninguna upplýsandi og sýna að mikið starf er unnið á vegum borgarinnar og sér velferðarráð tækifæri til að kynna starfsemina bæði til annarra sveitafélaga sem og ríkisins þar sem þjónusta við þennan viðkvæma hóp er mikilvægur hlekkur í að veita nauðsynlega þjónustu.
-
Fram fer kynning á niðurstöðum könnunar meðal íbúa áfangaheimilanna Brautar og Njálu. VEL25090092.
Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka fyrir greinargóða og gagnlega könnun meðal íbúa á áfangaheimilunum Njálu og Brautinni. Niðurstöðurnar endurspegla að íbúar upplifa almennt góða þjónustu, öryggi og traust til starfsfólks, auk ánægju með aðbúnað og stuðning í endurhæfingu. Samstarfsflokkarnir taka undir mikilvægi áframhaldandi þróunar starfsemi áfangaheimila og að efla tengingu við ráðgjöf og virkni í samfélaginu.
-
Fram fer kynning á niðurstöðum þjónustukönnunar á meðal forráðamanna barna í unglingasmiðjunum Stíg og Tröð. VEL25090091.
Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats, Halldóra Gyða Matthíasd. Proppé, framkvæmdastjóri Keðjunnar, Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, og Katerina Inga Antonsdóttir, forstöðumaður unglingasmiðjanna Stígs og Traðar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar velferðarráðs leggja áherslu á mikilvægi þess að tryggja áframhaldandi stöðugleika og þróun úrræða sem skipta sköpum fyrir ungmenni í viðkvæmri stöðu og fjölskyldur þeirra. Könnun meðal foreldra barna í unglingasmiðjunum Stíg og Tröð er bæði áhugaverð og jákvæð og sýnir mikla ánægju með starfið, gott samstarf við starfsfólk og jákvæð áhrif á félagslega virkni og líðan ungmenna. Á einu ári hafa 125 börn notið þjónustu Stígs og Traðar en starfsemi þeirra er mikilvægur hlekkur í þjónustu við börn í viðkvæmri stöðu.
-
Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 10. október 2025, um frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (öryggisráðstafanir). VEL25100020.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 10. október 2025, um frumvarp til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn. VEL25090082.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 10. október 2025, um frumvarp til laga um réttindavernd fatlaðs fólks. VEL25100004.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 13. október 2025, við fyrirspurn fulltrúa Framsóknarflokksins um vistunarsamninga hjá Barnavernd Reykjavíkur, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. september 2025. VEL25090073.
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þakkað er fyrir greinargóð svör. Vakin er sérstök athygli á að samkvæmt svarinu er ekki til staðar eftirstandandi fjármagn hjá Barnavernd Reykjavíkur vegna vistgreiðslna í einkaúrræðum sem eru sérmerkt börnum með fjölþættan vanda, þrátt fyrir að tveir og hálfur mánuður sé eftir af árinu 2025. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg tryggi áfram fjármögnun í málaflokknum, en jafnframt haldi áfram að þrýsta á að ríkið taki yfir málaflokkinn til framtíðar og að ríkið útfæri þá yfirtöku í nánu samstarfi við sveitarfélögin með hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra að leiðarljósi. Tryggja þarf að engin þjónustuskerðing verði gagnvart börnum á þessu yfirfærslutímabili.
Fylgigögn
-
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að á fundi velferðarráðs verði kynnt hver sé staða húsnæðismála stofnana á sviðinu, samanber til dæmis sambærilegar kynningar sem tilteknir fulltrúar borgarinnar héldu á fundum skóla- og frístundaráðs 27. janúar 2025 og 22. september 2025. Kynningin fari fram sem fyrst, helst á næsta fundi velferðarráðs. VEL25100047.
Samþykkt.
-
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hversu margir einstaklingar í Reykjavík bíða eftir plássi í dagdvöl? VEL25100043.
-
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Framsóknar í velferðarráði óskar eftir upplýsingum um fyrirhugaða flutninga á dagdvölinni Þorrasel sem meirihlutinn og Sjálfstæðisflokkurinn samþykktu á fundi velferðarráðs 25. júní sl. Óskað er eftir upplýsingum um tímalínu flutninga og samskipti vegna þeirra við þjónustuþega Þorrasels.
Greinargerð fylgir fyrirspurninni. VEL25100044.
Fylgigögn
-
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvernig er þjónustu við börn með sykursýki háttað í Reykjavíkurborg? Hvaða úrræði standa til boða og er tryggt að sú þjónusta sé eins á milli miðstöðva?
Greinargerð fylgir fyrirspurninni. VEL25100045.
Fylgigögn
-
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um samskipti Reykjavíkurborgar við íbúa í nágrenni við búsetuúrræði fyrir heimilislausa við Hringbraut 121 og hvaða ráðstafanir borgin hefur gert til að koma til móts við íbúana. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um hvort stofnaður hafi verið starfs- eða stýrihópur um málið, og ef svo er, hvenær áætlað sé að hann skili af sér niðurstöðum, og þá hvert.
Greinargerð fylgir fyrirspurninni. VEL25100046.
Fylgigögn
Fundi slitið kl. 16:02
Sanna Magdalena Mörtudottir Sara Björg Sigurðardóttir
Helgi Áss Grétarsson Guðný Maja Riba
Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Magnea Gná Jóhannsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 15. október 2025