Velferðarráð
Ár 2025, miðvikudagur 1. október var haldinn 515. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Sara Björg Sigurðardóttir og Þorvaldur Daníelsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Sandra Hlíf Ocares. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á Janusi heilsueflingu fyrir eldra fólk. VEL25090089.
Janus Guðlaugsson og Daði Janusson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Til lengri tíma litið verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu starfsemi Janusar heilsueflingar og er ástæða til að þakka fyrir þá kynningu sem veitt var hér í dag um starfsemina. Í því samhengi er ástæða til að rifja upp svohljóðandi tillögu Sjálfstæðisflokksins, sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar 3. maí 2022 (MSS22050020): „Reykjavíkurborg bjóði íbúum yfir 65 ára að taka þátt í markvissri heilsueflingu. Velferðarsvið í samráði við öldungaráð Reykjavíkurborgar fái það hlutverk að kanna hvort framkvæmdin skuli vera í samstarfi við íþróttafélögin í borginni eða sjálfstætt starfandi fagaðila.“ Þessari tillögu var vísað áfram í rangölum borgarkerfisins, í þetta skipti lenti tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í höndum „stýrihóps um mótun stefnu í málefnum eldra fólks til ársins 2026“, samanber 14. dagskrárlið fundargerðar frá fundi velferðarráðs 11. janúar 2023. Sá stýrihópur hætti störfum og nýr var skipaður í byrjun febrúar 2024 (VEL22070013). Lítið bólar hins vegar á tillögum frá þeim stýrihópi. Á hinn bóginn hefur það lengi verið á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins að borgin eigi að stuðla að markvissri heilsueflingu á meðal eldra fólks.
-
Fram fer kynning á efnahagslegum hreyfanleika á Íslandi. VEL25090090.
Dr. Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent í efnahagsfélagsfræði við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á drögum að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2026. Trúnaður er um málið þar til fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar hefur verið vísað til borgarstjórnar. VEL25090046.
Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
-
Lögð fram til kynningar drög að gjaldskrám velferðarsviðs 2026. Trúnaður er um málið þar til fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar hefur verið vísað til borgarstjórnar. VEL25090058.
Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 29. september 2025, um hækkun hámarks samanlagðra húsaleigubóta og sérstaks húsnæðisstuðnings:
Lagt er til að samþykkt verði að hækka fjárhæð samanlagðra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings sem fram kemur í 2. mgr. 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning úr 100.000 kr. í 110.000 kr. Breytingin taki gildi frá 1. janúar 2026.
Áætlað er að kostnaður vegna tillögunnar á ársgrundvelli verði um 180 m.kr. og óskað er eftir að fjárheimildin endurspeglist í áætlun bundinna liða í fjárhagsáætlun 2026.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25090107.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs.Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Til að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leggja samstarfsflokkarnir í velferðarráði til að hámark samanlagðra húsaleigubóta og sérstaks húsnæðisstuðnings hækki frá áramótum um 10.000 kr., úr 100.000 kr. í 110.000 kr., leigjendum til hagsbóta. Hátt leiguverð hefur veruleg áhrif á stöðu leigjenda og því skiptir stuðningur við þau sem fá sérstakan húsnæðisstuðning miklu máli. Áhrifin verða mest hjá þeim sem búa fleiri en eitt í húsnæði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 29. september 2025, um breytt fyrirkomulag á skráningu heimilisþrifa og gjaldtöku vegna innleiðingar á dala.care:
Lagt er til að gjaldtöku eftir tímamælingu við heimilisþrif verði hætt og þess í stað verði innheimt gjald eftir fjölda skipta. Miðað verði við tvö þjónustuþrep í samræmi við umfang verkefna, byggt á mati teymisstjóra heimastuðnings.
Í samræmi við breytt verklag er lagt til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á gjaldskrá heimastuðnings:
1. og 2. mgr. 1. gr. í gjaldskrá heimastuðnings verði svohljóðandi:
Gjald fyrir hvert skipti vegna stuðningsþjónustu í formi þrifa á heimili er:
Þrif - þrep 1 – léttari þrif 1.655 kr.
Þrif - þrep 2 – umfangsmeiri þrif 3.310 kr.Þjónusta í formi þrifa sem eru umfram fjögur skipti á mánuði á hvert heimili er endurgjaldslaus.
Breytingin felur ekki í sér kostnaðaraukningu fyrir velferðarsvið.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25090093.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs.Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, og Auður Guðmundsdóttir, deildarstjóri heimahjúkrunar velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Ástæða samþykktra breytinga af samstarfsflokkum velferðarráðs er fyrst og fremst vegna tæknilegra ástæðna. Nýtt skráningarkerfi dala.care styður ekki nákvæma tímaskráningu án þess að bæta þurfi við umtalsverðri aukavinnu og töluverðum kostnaði. Gjald verður innheimt eftir fjölda skipta í stað tímamælinga. Með nýrri útfærslu verður gjaldtökuferli tengt þjónustu í formi þrifa einfaldara og sjálfvirkara en nú sem sparar teymisstjórum heimastuðnings verulegan tíma en það er ástæðan fyrir nýju skráningarkerfi. Samstarfsflokkar velferðarráðs fagna þessari innleiðingu sem fer betur með með tíma starfsfólks.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning vegna breytinga á tekjumarki húsnæðisbóta:
Velferðarráð felur velferðarsviði að undirbúa breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning þannig að breytingar á tekjumörkum í reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning verði sjálfkrafa uppfærðar við breytingar á hækkun tekjumarka samkvæmt reglugerð um húsnæðisbætur. Breytingin á reglunum verði lögð fyrir velferðarráð.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25090097.
Samþykkt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér eru samstarfsflokkarnir að leggja til að fela velferðarsviði að undirbúa reglubreytingar þannig að breytingar á reglum borgarinnar um sérstakan húsnæðisstuðning verði sjálfkrafa uppfærðar við breytingar á hækkun tekjumarka samkvæmt reglugerð um húsnæðisbætur. Velferðarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru efins um að reglur um þessi efni eigi að taka sjálfkrafa breytingum heldur eigi velferðarráð að taka sjálfstæða afstöðu til breytinga á tekjumarki húsnæðisbóta á hverjum tíma. Að svo stöddu sitja fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hjá í þessu máli.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Í gegnum tíðina hefur Reykjavíkurborg aðlagað tekjumörk að breytingum sem eiga sér stað hjá ríkinu. Slík breyting hefur farið fram með ákvörðun velferðarráðs. Með þessari tillögu er verið að fela velferðarsviði að undirbúa breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning þannig að breytingar á tekjumörkum um sérstakan húsnæðisstuðning verði sjálfkrafa uppfærðar við breytingar á hækkun tekjumarka samkvæmt reglugerð um húsnæðisbætur. Rétt er að taka fram að tillaga um þessar breytingar á reglum mun koma til staðfestingar ráðsins. Sveitarfélagið getur ávallt tekið ákvörðun um að hækka tekjuviðmiðin umfram þær breytingar á tekjumörkum sem eiga sér stað hjá ríkinu. Samstarfsflokkunum finnst mikilvægt að breytingar á tekjumörkum verði alltaf tilkynntar í velferðarráði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands um endurskoðun á reglum fjárhagsaðstoðar hvað varðar árlega endurskoðun fjárhæða:
Velferðarráð felur velferðarsviði að leggja fram tillögu um hvernig megi tryggja að fjárhæðir fjárhagsaðstoðar verði endurskoðaðar árlega, á ákveðnum tímapunkti við vinnu fjárhagsáætlunar. Jafnframt verði sviðinu falið að kanna hvort unnt sé að kveða á í reglum Reykjavíkurborgar um viðmið um endurskoðun fjárhæða þannig að það taki að lágmarki mið af verðlagsforsendum fjárhagsáætlunar en þó með hliðsjón af samþykktri fjárhagsáætlun hverju sinni.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25090105.
Samþykkt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér eru samstarfsflokkarnir að leggja til að fela velferðarsviði að undirbúa reglubreytingar þannig að breytingar á reglum borgarinnar um endurskoðun fjárhæða fjárhagsaðstoðar verði sjálfkrafa uppfærðar á grundvelli ákveðinna viðmiða. Velferðarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru efins um að reglur um þessi efni eigi að taka sjálfkrafa breytingum heldur eigi velferðarráð að taka sjálfstæða afstöðu til breytinga á fjárhæðum fjárhagsaðstoðar á hverjum tíma. Að svo stöddu sitja fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hjá í þessu máli.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Mikilvægt er að árétta að með tillögu samstarfsflokkanna er velferðasviði falið að rýna það sem kallað er eftir í tillögu samstarfsflokkanna og í kjölfarið leggja fram tillögu fyrir ráðið um útfærslu.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 29. september 2025, um umboð til að ganga til samninga við mennta- og barnamálaráðuneytið vegna PMTO miðstöðvar, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að sviðsstjóra velferðarsviðs verði veitt heimild til að ganga til samninga við mennta- og barnamálaráðuneytið um faglega forystu PMTO miðstöðvar á Íslandi næstu tvö árin.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25080055.
Samþykkt.Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Foreldrafærni eða PMTO (e. Parent Management Training – Oregon) á sér 25 ára sögu hér á landi en um er að ræða gagnreynt úrræði fyrir uppalendur til að stuðla að bættri líðan barna. Á sjötta þúsund fjölskyldna hafa fengið stuðning og þjónustu fram að þessu í níu sveitarfélögum í dag þar á meðal Reykjavík. Úrræðið er líka hluti af meðferðarmenntun fagfólks en 17 aðilar sem stunda nám í dag, munu útskrifast á næsta ári en yfir 90 hafa fengið þessi réttindi og nær helmingur þeirra veita þjónustuna sem meðferðarinngrip og forvörn í sveitarfélögunum í dag. Reykjavíkurborg setti sjálf á laggirnar árið 2020 eigin þjónustumiðstöð í samstarfi við höfuðstöðvar PMTO í Oregon í Bandaríkjunum til styðja við verkefnið Betri borg fyrir börn. Velferðarráð vill tryggja áframhaldandi þjónustu við viðkvæman hóp barna. Ráðið telur brýnt að tryggja áfram órofna þjónustu við viðkvæman hóp barna, og veita sviðsstjóra heimild til að ganga til samninga við ríkið með því skilyrði að fjárhæðin svari raunkostnaði reksturs verkefnisins.
Fylgigögn
- Tillaga sviðsstjóra um umboð til að ganga til samninga við mennta- og barnamálaráðuneytið vegna PMTO
- Fylgiskjal 1 - Fagráð PMTO
- Fylgiskjal 2 - samningur milli ráðuneytis og Reykjavíkurborgar
- Fylgiskjal 3 - Kynning á PMTO miðstöðinni á Íslandi
- Fylgiskjal 4 - Yfirliýsing frá Menntavísindasviði HÍ
- Fylgiskjal 5 - Skólaforðun - upplýsingar um verkefni
- Fylgiskjal 6 - SMT og SEL - upplýsingar um verkefni
- Fylgiskjal 7 - Gagnlegar upplýsingar
- Fylgiskjal 8 - PMTO miðstöð hjá sveitarfélögum
- Fylgiskjal 9 - SMT PBS tölulegar upplýsingar
-
Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 19. september 2025, um áform um frumvarp til laga um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. VEL25090079.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð hefur áhyggjur af fyrirhuguðum breytingum á réttindum til atvinnuleysisbóta og óskar ráðið eftir því að fulltrúi ráðuneytisins komi inn á fund velferðarráðs og kynni ráðinu fyrirhugaðar breytingar og þau virkni- og endurhæfingarúrræði sem setja á á laggirnar samhliða þessum breytingum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að styðja við þau sem eru án atvinnu og tryggja að viðeigandi stuðningur sé til staðar. Hvað varðar fyrirhugaðar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar þá telur Reykjavíkurborg ljóst að tilvitnuð áform muni fyrirsjáanlega hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög. Stytting bótatímabils og breytingar á skilyrðum eru líkleg til að leiða til þess að fleiri leiti stuðnings sveitarfélaga í formi fjárhagsaðstoðar. Samstarfsflokkarnir í velferðarráði ítreka að ráðherra sé skylt samkvæmt 129. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 að hlutast til um að fjárhagslegt mat á áformunum fari fram. Leiði slíkt mat í ljós kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin þarf að tryggja sveitarfélögunum aukna tekjustofna til þess að standa undir honum. Samstarfsflokkarnir í velferðarráði telja það þurfa að koma fram með skýrari hætti hvernig eigi að grípa fólk fyrr sem þarf á stuðningi á að halda.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrirhuguð stytting á tímabili greiðslu atvinnuleysisbóta er til þess fallin að skerða fjárhagslega hagsmuni sveitarfélaga, þar á meðal Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að borgin sinni hagsmunagæslu í þessu máli af fullum þunga. Það sama ætti Samband íslenskra sveitarfélaga að gera. Þegar drög að lagafrumvarpi um þetta efni liggja fyrir þarf að virkja samtakamátt sveitarfélaga og tryggja að ríkið sé ekki enn og aftur að velta kostnaði yfir á sveitarfélögin án þess að fé fylgi.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga, dags. 19. mars 2025, um börn með fjölþættan vanda, ásamt fylgiskjölum. VEL25090094.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er forgangsmál að tryggja öryggi og vellíðan barna. Fulltrúar samstarfsflokkanna í velferðarráði binda miklar vonir við að samkomulagið nái utan um að þjónusta börn með fjölþættan vanda sem mörg hafa mikla stuðningsþörf. Tengslavandi barna og/eða flókin og samsett röskun í tauga- og vitsmunaþroska frá frumbernsku getur m.a. leitt til alvarlegra hegðunarvandkvæða, geðrænna einkenna og í ákveðnum tilfellum vímuefnavanda. Undir samkomulagið geta einnig fallið börn sem þurfa mikla og viðvarandi þriðja stigs þjónustu á vegum barnaverndar vegna vanrækslu og/eða ofbeldis. Auk þess þarf að finna leiðir til að í styðja börn í hefðbundinni búsetu. Það er því brýnt að fjármagn haldist í hendur við þjónustuþörf hverju sinni. Vilja fulltrúar samstarflokkanna ávarpa mikilvægi þess að fjármagnið endurspegli raunverulega þörf á vettvangi Reykjavíkurborgar í stað þess að festa sig í vissri upphæð í gegnum sérfræðingateymið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er fyrir fjárhagslega hagsmuni Reykjavíkurborgar að útfærsla þessa samkomulags frá mars á þessu ári verði viðunandi. Í því samhengi er bent á að á fyrstu sex mánuðum þessa árs varð rekstrarniðurstaða Barnaverndar Reykjavíkur 1.042 milljónum króna umfram fjárheimildir eða 61%. Þessi tiltekni halli, í samanburði við áætlun, skýrist af því að Reykjavíkurborg er að taka að sér verkefni sem íslenska ríkið á að sinna. Sem fyrr er brýnt að borgin grípi til úrræða í því skyni að vernda hagsmuni sína gagnvart ríkinu.
Fylgigögn
- Samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga vegna barna með fjölþættan vanda, dags. 19. mars 2025
- Fylgiskjal - skýrsla stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda, ágúst 2023
- Fylgiskjal - Bréf mennta- og barnamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga til sveitarfélaganna
- Fylgiskjal - Tillögur starfshóps um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk, september 2024
-
Lögð fram skýrsla sérfræðingateymis um málefni barna með fjölþættan vanda - yfirlit yfir þau mál sem teymið hafði til umfjöllunar 2021- 2023. VEL25090095.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram skýrsla Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 16. júlí 2025, um Ylju neyslurými eftir eins árs starfsemi. VEL25090096.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins um heimsókn velferðarráðs í vinnu- og virknimiðaða stoðþjónustu í Skeifunni, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. september 2025. VEL25090076.
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram að nýju svar sviðsstjóra, dags. 1. september 2025, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfslokasamninga við stjórnendur innan velferðarsviðs 2015-2024, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 3. september 2025. VEL25050055.
Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 29. september 2025, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjárhagsaðstoð til einstaklinga af þeim þjóðernum sem nema meira en 1% af heildarfjölda notenda á fjárhagsaðstoð 2022-2024, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs frá 3. september 2025. VEL25090014.
Fylgigögn
-
Lagður fram að nýju 6. liður fundargerðar velferðarráðs frá 3. september 2025, kynning á 6 mánaða uppgjöri velferðarsviðs í janúar - júní 2025. VEL25080023.
Við afgreiðslu málsins var eftirfarandi bókun færð í trúnaðarbók velferðarráðs:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Reglubundinn rekstur velferðarsviðs án bundinna liða fyrstu 6 mánuðina árið 2025 var 6,7% umfram fjárhagsáætlun eða sem nam rúmum 1.400 milljónum króna. Þar af varð rekstrarniðurstaða Barnaverndar Reykjavíkur 1.042 milljónum króna umfram fjárheimildir eða 61%. Þessi tiltekni halli, í samanburði við áætlun, skýrist af því að Reykjavíkurborg er að taka að sér verkefni sem íslenska ríkið á að sinna. Útkoma af þessu tagi er ekki í lagi fyrir rekstur borgarinnar en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent á að það sé óviðunandi að ríkið greiði ekki þann hluta af þessum kostnaði sem því ber að gera lögum samkvæmt og að borgin hafi ekki verið löngu búin að ganga harðar fram í að gæta hagsmuna sinna gagnvart ríkinu. Nú liggur fyrir samkomulag sem undirritað var í mars sl. og er það fagnaðarefni en óljóst er hvaða viðbótarfjárhæðir munu koma frá ríkinu til borgarinnar fyrir árið 2025.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL25030023.
Fundi slitið kl. 16:56
Sanna Magdalena Mörtudottir Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns
Helgi Áss Grétarsson Guðný Maja Riba
Þorvaldur Daníelsson Sara Björg Sigurðardóttir
Sandra Hlíf Ocares
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 1. október 2025