Velferðarráð
Ár 2025, miðvikudagur 17. september var haldinn 514. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlað fólk skv. lögum nr. 38/2018, dags. í febrúar 2025. VEL25090054.
Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, og Jakob Guðmundur Rúnarsson, sérfræðingur á stjórnsýslu- og lögfræðisviði Ríkisendurskoðunar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á drögum að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2026. Trúnaðarmál. VEL25090046.
Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri fjármála og reksturs tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lögð fram til kynningar drög að gjaldskrám velferðarsviðs 2026. VEL25090058.
Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á stöðu málaflokks fatlaðs fólks í Reykjavík. Einnig lagt fram minnisblað, dags. 15. september 2025, um stöðu málaflokks fatlaðs fólks, ásamt fylgiskjölum. VEL25090047.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Þakkað er fyrir ítarlega kynningu á málaflokknum. Hlutverk Reykjavíkurborgar sem sveitarfélags er að leggja grunn að auknum lífsgæðum borgarbúa til lengri og skemmri tíma. Í þjónustu við fatlað fólk hefur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verið borginni leiðarljós en í honum felst viðurkenning á fjölbreytileika mannlífsins og því að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafns við aðra. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vinnur stöðugt að framþróun í málaflokknum og stöðugt er leitað leiða til að bæta þjónustu, auka hagkvæmni og fagmennsku. Greiningar liggja fyrir og halda þarf áfram vinnu út frá þeirri áfangaskýrslu sem liggur fyrir. Samstarfsflokkarnir árétta að ríkið verður að tryggja fullnægjandi fjármögnun málaflokksins.
Fylgigögn
- Minnisblað um stöðu málaflokks fatlaðs fólks - september 2025
- Fylgiskjal - Samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk, 15. desember 2023
- Fylgiskjal - Yfirlit yfir nýja íbúðakjarna fyrir fatlað fólk, teknir í notkun frá 2018
- Fylgiskjal - Lýsingar á þjónustuflokkum
-
Fram fer kynning á skipulagsbreytingum í málaflokki fatlaðs fólks. VEL25090048.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Í janúar á þessu ári voru samþykktar breytingar á stjórnskipulagi málaflokks fatlaðs fólks á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Breytingarnar fela í sér að fagleg og rekstrarleg stýring og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, nánar til tekið búsetuþjónusta, stuðnings- og stoðþjónusta, vinna og virkni og NPA- og beingreiðslusamningar eru nú á ábyrgð einnar starfseiningar í stað fjögurra eins og áður var. Ráðgjöf við fatlað fólk og ýmis umsýsla, til að mynda vegna umsókna um þjónustu, eru áfram á miðstöðvum borgarinnar. Markmið breytinganna er að auka gæði þjónustunnar með einföldun stjórnskipulags, skýrari verkaskiptingu, aukinni yfirsýn og eftirliti, einfaldara verklagi, minni töfum og einfaldari ákvarðanatöku. Jafnframt miða breytingarnar að því að auka skilvirkni við framkvæmd þjónustu með betri nýtingu fjármuna og mannauðs.
-
Fram fer kynning á Bloomberg Harvard verkefninu - Gagnadrifin ákvarðanataka í rekstri sex búsetukjarna á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. VEL25090050.
-
Fram fer kynning á skýrslu HLH ráðgjafar - greining á málaflokki fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg, dags. í janúar 2025. VEL25090049.
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi bókun:
Þakkað er fyrir góða kynningu á skýrslu HLH. Mikilvægt er að unnið sé áfram með efni og tillögur skýrslunnar með það að markmiði að bæta þjónustu borgarinnar við fólk með fötlun.
Fylgigögn
-
Lagðar fram til kynningar tillögur nr. 1, 26, 27, 32, 33, 37, 38, 45, 54 og 62 úr skýrslu HLH ráðgjafar - greining á málaflokki fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs á fundi borgarráðs 24. júlí 2025 og tillögur nr. 2, 10, 29, 35, 36, 43, 44, 47, 48, 49 50, 53, 55, 57 og 60, sem vísað var til meðferðar velferðarsviðs á fundi borgarráðs 24. júlí 2025 sbr. bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. júlí 2025. MSS25060104.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka fyrir kynningu á yfirgripsmikilli greiningu. Mikilvægt er að innleiða tillögur sem miða að bættri þjónustu og hagkvæmni, jafnframt því að standa vörð um réttindi fatlaðs fólks samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna. Samstarfsflokkarnir árétta að ríkið verði að tryggja fullnægjandi fjármögnun málaflokksins. Tillögum úr fjárhagslegri greiningu er vísað til meðferðar velferðarráðs og -sviðs. Samstarfsflokkanir árétta að mikilvægt er að greina útgjaldaliði og tryggja hagkvæmni en á sama tíma að forðast að líta á manneskjur með fjölbreyttar þarfir út frá kostnaði einum saman. Málaflokkurinn er enn vanfjármagnaður af hendi ríkisins og mikilvægt er að úr því verði leyst hið fyrsta.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á endurskoðaðri uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk í Reykjavík. VEL25090052.
Ólafía Magnea Hinriksdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 15. september 2025, um fækkun herbergjasambýla til samræmis við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir:
Lagt er til að velferðarsvið fái heimild til samtals við Félagsbústaði um að þrjú herbergjasambýli fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir verði lögð niður og íbúum boðin búseta í íbúðakjarna í nýbyggingu á Grandatorgi, nánar tiltekið Sólvallagötu 79. Tillagan rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25090051.
Samþykkt.Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi bókun:
Þakkað er fyrir kynningu á tillögunni. Fulltrúinn samþykkir að velferðarsviði verði falið að hefja samtal um hvort að betra sé að loka herbergjasambýlum og bjóða í staðinn einstaklingum sem þar eru búsettir búsetu í íbúðarkjarna í nýbyggingu. Mikilvægt er að það sé gert á forsendum íbúanna.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað, dags. 15. september 2025, um flutninga vinnu- og virknimiðaðrar stoðþjónustu fyrir fatlað fólk úr Bæjarflöt í Skeifuna. VEL25090053.
Lára Sigríður Baldursdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Í vor varð ljóst að ekki var unnt að ná samkomulagi við leigusala um húsnæðið að Bæjarflöt og var velferðarsviði því gert að tæma húsnæðið fyrir 1. júní 2025. Þrátt fyrir knappan tímaramma tókst að finna nýtt húsnæði og valið varð að endanum Skeifan 8 og þurfti að ráðast í umfangsmiklar breytingar á því til að tryggja að húsnæðið sé sniðið að fjölbreyttum þörfum notenda og að gott aðgengi sé. Tímaramminn hefur verið mjög þröngur en breyta þurfti meðal annars lyftu í húsinu til að tryggja aðgengi. Húsnæðið við Skeifuna er um það bil 1800 fermetrar að stærð, mun stærra en eldra rýmið. Aðstandendur hafa átt fund með fulltrúum velferðarsviðs á staðnum þar sem farið var yfir stöðuna, fyrirhugaða flutninga og starfsemina fram undan. Húsnæðið verður vel sniðið að þörfum notenda og stuðli þannig að virkni og stuðningi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Smiðjan, sem heyrir undir Virknimiðstöðina, er virkniúrræði fyrir fatlað fólk á vegum velferðarsviðs. Fyrr á þessu ári var ekki undan því vikist að flytja starfsemi Smiðjunnar úr Bæjarflöt (Gylfaflöt) en þar hafði hún verið í aldarfjórðung. Ákvörðun var tekin um að flytja starfsemina að Skeifunni 8. Einnig er fyrirhugað að flytja starfsemi Opusar úr Völvufelli að Skeifunni. Allar götur síðan í apríl hafa bæði starfsfólk og aðstandendur ítrekað bent á alvarlega annmarka á húsnæðinu í Skeifunni hvað varðar aðgengi, öryggi, hljóðvist og næði. Kjarni málsins er einfaldur, aðstæður í Skeifunni henta vart fólki með flókna þjónustuþörf. Núna hálfu ári síðar þarf starfsfólk og notendur enn að þola vinnuumhverfi sem uppfyllir ekki kröfur starfseminnar og þarfir notenda vegna skorts á nauðsynlegum innréttingum og húsgögnum. Velferðarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins brýna enn einu sinni að ráðast þurfi tafarlaust í að innrétta Skeifuna til að hægt sé að sinna starfseminni sómasamlega. Taka þarf tillit til ábendinga starfsfólks og aðstandenda. Til lengri tíma þarf að huga að flutningi starfseminnar úr einu óreiðukenndasta og umferðaþyngsta verslunarsvæði landsins nær umhverfi þar sem auðveldara er að njóta kyrrðar og náttúrunnar.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. september 2025, við fyrirspurn fulltrúa Framsóknar um afdrif tillögu um kynningu á skýrslu HLH ráðgjafar er varðar skipulag málaflokks fatlaðs fólks, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs frá 21. maí 2025. VEL25050057.
Fylgigögn
-
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að velferðarsviði verði falið að skoða fýsileika þess að koma upp sérstöku búsetuúrræði með stuðningi í herbergjasambýlum borgarinnar fyrir ungt fólk með fjölþættan vanda sem náð hefur 18 ára aldri samhliða mögulegri endurskipulagningu á herbergjasambýlum. VEL25090074.
Frestað.
-
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að velferðarsviði verði falið að vinna tillögu að þrepaskiptu úrræði fyrir einstaklinga með alvarlegan geð- og fíknivanda. Tillögunni skal fylgja kostnaðarmat og greining á forsendum úrræðisins. VEL25090075.
Frestað.
-
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að velferðarráð fari saman í heimsókn til vinnu- og virknimiðaðrar stoðþjónustu fyrir fatlað fólk í Skeifunni til að kynna sér betur starfsemina og rýmið sem starfsemin er staðsett í. VEL25090076.
Frestað.
-
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Framsóknar óskar eftir eftirfarandi upplýsingum:
Fjölda vistunarsamninga á vegum Barnaverndar Reykjavíkurborgar, sundurliðað niður á hvern mánuð fyrir árin 2024 og 2025 vegna barna með fjölþættan vanda.
Fjölda beiðna um vistunarsamninga vegna barna með fjölþættan vanda, þ.e. hversu marga samninga hefur verið óskað eftir, sundurliðað niður á mánuði fyrir sama tímabil (2024 og 2025).
Upplýsingar um eftirstandandi fjármagn til vistgreiðslna Barnaverndar Reykjavíkurborgar vegna barna með fjölþættan vanda á árinu 2025.
Áætlun Barnaverndar Reykjavíkurborgar um hversu marga vistunarsamninga vegna barna með fjölþættan vanda er gert ráð fyrir að verði gerðir það sem eftir er af árinu 2025.
Einnig er óskað eftir sömu upplýsingum vegna vistunarsamninga vegna fósturfjölskyldna. VEL25090073.
Fundi slitið kl. 18:02
Sanna Magdalena Mörtudottir Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir
Guðný Maja Riba Sara Björg Sigurðardóttir
Helgi Áss Grétarsson