Velferðarráð - Fundur nr. 513

Velferðarráð

Ár 2025, miðvikudagur 10. september var haldinn 513. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:02 í Stekk, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba,  Kjartan Jónsson, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sara Björg Sigurðardóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 9. september 2025, um flutning  Vesturmiðstöðvar í Borgartún 12-14:

    Lagt er til að Vesturmiðstöð flytjist í Borgartún 12-14 úr núverandi húsnæði að Austurstræti 8-10. Móttökurými verði samnýtt með þjónustuveri Reykjavíkurborgar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25080049.

    -    Kl. 13:10 tekur Helgi Áss Grétarsson sæti á fundinum.

    Samþykkt.

    Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar og Rafrænnar miðstöðvar, Arna Ýr Sævarsdóttir, skrifstofustjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs, Óskar J. Sandholt, sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, skrifstofustjóri skóla- og frístundasviðs, Steinn Jóhannsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, Daniela Katarzyna Zbikowska, verkefnastjóri hjá eignaumsýslu á umhverfis- og skipulagssviði og Ásdís Olga Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá eignaumsýslu á umhverfis- og skipulagssviði, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vesturmiðstöð er ein af miðstöðvum borgarinnar þar sem íbúar Reykjavíkurborgar geta nálgast fjölbreytta þjónustu, upplýsingar og ráðgjöf. Þar er meðal annars veittur stuðningur við börn, ungmenni, fjölskyldur, fatlað fólk og eldra fólk. Mikilvægt er að viðeigandi húsnæði sé til staðar fyrir starfsemina með góðu aðgengi. Núverandi húsnæði hefur reynst óhentugt, leigusamningur rennur út um áramót og leit að hentugu húsnæði í hverfinu hefur ekki borið árangur. Áætla má að þessi breyting skili sér í lægri húsnæðiskostnaði. Mikilvægt er að hið nýja rými komi til móts við þarfir um aðgengi en miðstöðin verður í nálægð við almenningssamgöngur og mun auka samlegð með annarri þjónustu. Velferðarráð leggur áherslu á að hönnun nýrrar móttöku tryggi hlýlegt og öruggt umhverfi fyrir íbúa og starfsfólk og að breytingin verði unnin út frá þörfum notenda. Velferðarráð leggur áherslu á að í breytingarferlinu verði vel haldið utan um starfsfólk og notendur og óskar ráðið eftir reglulegum upplýsingum um framvindu verkefnisins.
     

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands um gerð áætlunar um framtíðarfyrirkomulag samþættrar heimaþjónustu í Reykjavík:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að hefja vinnu við gerð áætlunar um framtíðarfyrirkomulag samþættrar heimaþjónustu í Reykjavík hvað varðar fjölda starfsstaða og staðsetningu. Áætlunin skal taka mið af breyttum þörfum notenda hvað varðar fjölbreytni í þjónustu og um leið einstaklingsmiðaðri þjónustu, þróun í mönnun og faglegum kröfum til samþættrar félags- og heilbrigðisþjónustu við fólk í heimahúsi. Áætlunin verði lögð fram fyrir ráðið í febrúar 2026.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25090012.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samþætting heimaþjónustu var mikið framfaraskref þegar það var innleitt en þjónustan sameinar heimastuðning og heimahjúkrun þar sem komið er til móts við fólk þar sem það er statt, tryggt er að notendur fái rétta þjónustu á réttu þjónustustigi, m.a. með sérhæfðum teymum og tækniumgjörð sem nýtir skjáheimsóknir og sjálfvirka lyfjaskammtara þar sem það á við. Á undanförnum árum hefur álag aukist vegna flókinna þjónustuþarfa og mönnunarvanda, m.a vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Með sameiningu heimaþjónustu Vestur- og Norðurmiðstöðvar er leitast við  að tryggja faglega og stöðuga þjónustu. Samhliða er mikilvægt að horfa lengra fram í tímann, meta heildstætt fjölda starfseininga, staðsetningu þeirra, tengingu sérhæfðra úrræða við almenna þjónustu og samhæfingu milli heilbrigðis- og félagsþjónustu. Velferðarráð samþykkir að velferðarsvið hefji vinnu við gerð áætlunar um framtíðarfyrirkomulag samþættrar heimaþjónustu. Áætlunin skal lögð fyrir velferðarráð í febrúar 2026 og fela í sér kostnaðarmat og tímasetningar. Samstarfsflokkarnir binda vonir við að þessi vinna tryggi að samþætt heimaþjónusta haldi áfram að þróast sem burðarás í þjónustu við eldra fólk og aðra sem vilja búa lengur heima við reisn, öryggi og góð lífsgæði.
     

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. september 2025, um fjarfundi nefnda og ráða Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. MSS25070098.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL25030023.

Fundi slitið kl. 14:24

Sanna Magdalena Mörtudottir Guðný Maja Riba

Þorvaldur Daníelsson Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Kjartan Jónsson Sara Björg Sigurðardóttir

Helgi Áss Grétarsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs 10.09.2025 - Prentvæn útgáfa