Velferðarráð - Fundur nr. 51

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2007, miðvikudaginn 14. febrúar var haldinn 51. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.10 að Tryggvagötu 17. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Steinarr Björnsson, Björk Vilhelmsdóttir, Þorleifur Gunnlaugsson og Stefán Jóhann Stefánsson. Áheyrnarfulltrúi: Margrét Sverrisdóttir.
Af hálfu starfsmanna: Stella Víðisdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram að nýju fundargerðir starfshóps um forvarnir.
Stefanía Sörheller, verkefnastjóri á Velferðarsviði, gerði grein fyrir vinnu starfshópsins. Lögð var fram fundargerð frá 6. febrúar sl.

2. Lagðar fram skýrslur vinnuhóps sem vinnur að því að skoða aðgengi innan íbúða aldraðra og í sameign húsa með það að markmiði að gera sem flestum kleift að búa lengur á eigin heimili; Bætt aðgengi innan íbúða og í sameign húsa í Vesturbæ og Greinargerð um úrbætur í húsnæði eldri borgara í Vesturbæ Reykjavíkur.

Guðmundur Pálmi Kristinsson, forstöðumaður gæðaþróunar og greiningar á Framkvæmdasviði, hópsstjóri og Guðmundur Sigmarsson, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, mættu á fundinn og önnuðust kynningu á skýrslunni.

Samþykkt að vinnuhópurinn haldi áfram vinnu sinni og útfæri enn frekar þær hugmyndir sem fram eru komnar.

3. Lögð fram úttekt á stuðningsbýlinu að Miklubraut 18 og minnisblað um aðgerðir.
Skrifstofustjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir úttektinni.
Skrifstofustjóri velferðarþjónustu gerði grein fyrir minnisblaðinu.

Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og F-lista í velferðarráði lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í velferðarráði átelja harðlega vinnubrögð þau sem fram koma við úttekt á Miklubraut 18. Úttektin var gerð í júlí og ágúst 2006 og skýrsla um úttektina í september 2006. Alvarlegar athugasemdir eru í niðurstöðum úttektarinnar. Íbúar eru mjög ósáttir við mat og húsnæðisaðstæður og kvarta undan lítilli viðveru starfsmanna og ónógu eftirliti með heimilinu. Ráðgjafar heimilismanna höfðu ýmsar athugasemdir fram að færa og efuðust um að úrræðið hafi nýst notendum sínum.
Það að skýrslan er fyrst kynnt velferðarráði í febrúar 2007 er óviðunandi í ljósi þess að á tímabilinu frá því skýrslan var gerð og þar til nú hefur velferðarráð og Velferðarsvið gert nýja samninga við rekstraraðila Miklubrautar 18, nú um rekstur Gistiskýlisins. Þetta eru algerlega óásættanleg vinnubrögð og ekki að undra að sá grunur fæðist að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt fram yfir samninga við Samhjálp um rekstur Gistiskýlisins að Þingholtsstræti 25.
Þá óska fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og F-lista eftir upplýsingum um fjárveitingar til Miklubrautar 18 og eins að fá að sjá rekstrarreikninga stuðningsbýlisins.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Úttekt á stuðningsbýlinu Miklubraut 18 var lögð fyrir velferðarráð þann 14. febrúar 2007. Í úttektinni er talað við sex íbúa ásamt því að talað var við 2 af 25 einstaklingum sem hafa áður búið á Miklubraut 18.
Í ljós kemur í úttektinni að íbúar telji að lífsgæði sín séu meiri en áður en þeir fluttu þar inn. Íbúar eru einnig ánægðir með þær reglur sem gilda í húsinu og telja að þær séu sanngjarnar og nauðsynlegar. Starfsfólkið er ánægt með Miklubrautina, nokkuð sátt við húsnæðið og umgengnina á því. Skýrslan var birt í febrúar 2007 fyrir velferðarráði og hér hefur því engu verið leynt.
Samhjálp hefur rekið úrræði að Miklubraut 18 síðan árið 2002. Ekki hefur verið gerð úttekt á heimilinu áður. Í úttektinni kemur meðal annars fram óánægja hjá íbúum með mat, viðhald á húsnæði og viðveru starfsfólks. Þann þátt er verðugt að skoða nánar og fá úttekt frá Samhjálp um matarkostnað og framsetningu matar ásamt viðveru starfsfólks.
Úttektir sem þessar eru gerðar til þess að hægt sé að bæta starfsemi slíkra stuðningsbýla. Sjálfsagt er að gera slíkar úttektir áfram og í framhaldi af úttekt á stuðningsbýlinu á Miklubraut 18 hefur verið rætt við forstöðumann Miklubrautar 18 með það fyrir augum að bæta starfsemi m.t.t. til þeirra athugasemda sem fram komu. Jafnframt er lagt til að næsta haust verði gerð önnur úttekt þar sem sérstaklega verða skoðaðir nánar þessir þættir.
Verið er að fara yfir eftirlitsreglur og jafnframt er komin í gang vinna við heildarstefnumótun varðandi málefni heimilislausra af báðum kynjum.

4. Lögð fram tillaga að breytingum á tekju- og eignamörkum vegna félagslegra leiguíbúða og sérstakra húsaleigubóta.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

5. Lögð fram að nýju viðhorfskönnunin Hagir og viðhorf eldri borgara ásamt sérvinnslu fyrir Reykjavík.

Samþykkt var að boða til almenns fundar í samvinnu við aðra sem stóðu að rannsókninni.

6. Lögð fram að nýju könnun á aðstæðum og viðhorfum meðal aldraðra á biðlista eftir hjúkrunarrými í Reykjavík.

Samþykkt var að fresta málinu.

7. Formaður velferðarráðs lagði til að stofnaður yrði starfshópur sem kortleggi sólarhringsúrræði fyrir börn á vegum Reykjavíkurborgar.

Samþykkt samhljóða að fela sviðsstjóra að stofna starfshópinn.
Sviðsstjóri lagði fram drög að erindisbréfi fyrir hópinn.

8. Lögð fram til kynningar tillaga sviðsstjóra Velferðarsviðs og Strætó bs. dags. 6. febrúar 2007 um ferðaþjónustu fatlaðra.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í borgarráði mótmæla því harðlega að fallið verði frá fyrri samþykkt og ákvörðun velferðar- og borgarráðs og þar með svikin gefin loforð um að fatlaðir geti pantað ferðir samdægurs með ferðaþjónustu fatlaðra frá og með 1. janúar 2007. Velferðarsvið og Strætó bs. fengu 13 mánuði til að undirbúa þjónustuna en nýttu ekki tímann sem skyldi.
Nú hefur borgarráð samþykkt nýjar reglur í andstöðu við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og hagsmunasamtök fatlaðra. Einungis þriðjungi þeirra sem nota þjónustuna verður boðið að fá þjónustu samdægurs og er hópum fatlaðra því mismunað. Að hámarki verða í boði 10 ferðir á mánuði frá og með 1. maí nk. Þá þurfa þeir að greiða aukalega 500 kr. fyrir hverja ferð, samtals 1280 kr. fyrir ferðir fram og til baka.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna gagnrýna að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunasamtök um málið eins og borgarráð óskaði eftir. Fulltrúum Sjálfsbjargar, Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags var kynnt tillagan þegar hún var fullfrágengin að hálfu meirihlutans og lýstu samtökin sig ósammála henni. Fatlaðir eiga fullan rétt á að fara ferða sinna þó ákvörðun um það að bregða sér af bæ hafi ekki verið tekin með dags fyrirvara.

Fulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og F-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúi F-lista fagna því að frá og með 1. mai 2007 geti fatlaðir einstaklingar sem bundnir eru hjólastól og þeir einstaklingar sem vegna líkamlegrar fötlunar sinnar eru með öllu ófærir um að nýta sér almenna leigubíla og njóta þegar þjónustu í ferðaþjónustu fatlaðra pantað ferðir samdægurs. Það fyrirkomulag sem með þessari tillögu mun taka gildi 1. mai nk. verður þannig til mikilla bóta fyrir fatlaða og tryggir sannarlega bætta og aukna þjónustu við þennan hóp.

9. Kynning á ráðstefnu sem haldin verður á vegum Reykjavíkurborgar og Háskólans í Reykjavík 22. og 23. febrúar nk. ”Er öldrun úreld í nútímasamfélagi”.

10. Lagðar fram tillögur skrifstofustjóra rekstrar og þjónustuúrræða um styrki til greiðslu fasteignagjalda fyrir árin 2005 og 2006.
Málinu er frestað til næsta fundar.

11. Lagðar fram niðurstöður fyrir Velferðarsvið úr viðhorfskönnun félagsvísindadeildar Háskóla Íslands um þjónustu Reykjavíkurborgar, ásamt niðurstöðum fyrir Reykjavík, Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

12. Rædd mál er tengjast Breiðavík og Byrginu.
Formaður velferðarráðs og sviðsstjóri Velferðarsviðs gerðu grein fyrir málinu.

13. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Fulltrúar Samfylkingarinnar í velferðarráði óska eftir upplýsingum um fjölda þeirra Reykvíkinga sem dvalist hafa í Byrginu á undanförnum 5 árum, annars vegar fjölda kvenna og hins vegar fjölda karla og aldur þeirra.
Velferðarráð óskar eftir upplýsingum, sem verið er að taka saman að beiðni borgarstjóra um fjölda reykvískra drengja sem vistaðir voru í Breiðavík á sínum tíma, verði kynntar velferðarráði og hvaða úrræðum þeim verði boðið upp á.

Stefán Jóhann Stefánsson vék af fundi kl. 14.53

Fundi slitið kl. 15.05

Jórunn Frímannsdóttir
Sif Sigfúsdóttir Marsibil Sæmundardóttir,
Steinarr Björnsson Björk Vilhelmsdóttir, Þorleifur Gunnlaugsson