Velferðarráð - Fundur nr. 509

Velferðarráð

Ár 2025, miðvikudagur 18. júní, var haldinn 294. fundur skóla- og frístundaráðs og 509. fundur velferðarráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.08.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi fyrir hönd skóla- og frístundaráðs: Helga Þórðardóttir formaður, (F), Alexandra Briem (P), Ásta Björg Björgvinsdóttir (B), Helgi Áss Grétarsson (D) og Stefán Pálsson (V). Eftirtaldir fulltrúar í skóla- og frístundaráði tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi  fyrir hönd velferðarráðs: Sanna Magdalena Mörtudóttir formaður (J), Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns (P), Pétur Marteinn Urbancic Tómasson (S), Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir (D), Sandra Hlíf Ocares (D), Sara Björg Sigurðardóttir (S) og Þorvaldur Daníelsson (B).  

Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; fulltrúar foreldra grunnskólabarna: Edith Oddsteinsdóttir, Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Marta Maier, Reykjavíkurráð ungmenna.

Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn: Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Steinn Jóhannsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Anna Garðarsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hákon Sigursteinsson, Hulda Björk Finnsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Sigþrúður Erla Arnardóttir og Soffía Pálsdóttir.

Randver Kári Randversson ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs, dags. 13. júní 2025, um úrbætur í skólaþjónustu, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að: 
    •    Fjölgað verði um fjögur stöðugildi í skóla- og frístundaþjónustu, það er a.m.k. þrjá talmeinafræðinga og einn sérfræðing eftir þörfum til að mæta mikilli þörf, sérstaklega í tengslum við málþroskavanda sem oft liggur að baki öðrum greiningum. Tveir sérfræðingar hefji störf þegar frá hausti 2025.
    •    Fjölgað verði um fjögur stöðugildi sálfræðinga til að styrkja snemmtæka íhlutun, svara ákalli heilbrigðisgeirans eftir frumgreiningum og auka viðveru í skólum. Tveir sérfræðingar hefji störf þegar frá hausti 2025.
    •    Fræðsla fyrir foreldra og kennara verði styrkt með reglubundnum, stuttum og aðgengilegum námskeiðum sem Keðjan mun hafa milligöng um, t.d. um uppeldistækni, málþroska og líðan. Námskeið hefjist frá hausti 2025.

    Áætlaður kostnaður vegna tillögunnar er 146 m.kr. á ári frá og með árinu 2026, þar af 64 m.kr. vegna fjölgunar talmeinafræðinga, 68 m.kr. á ári vegna fjölgunar sálfræðinga og 14 m.kr. á ári vegna fræðslu foreldra og kennara. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjárhagsáætlun sviðanna. Áætlaður kostnaður vegna ársins 2025 verði samtals 26,7 m.kr. en lagt er til að í september verði strax fjölgað um tvo sálfræðinga (10,7 m.kr.) og tvo talmeinafræðinga (11,3 m.kr.) og að fræðsla hefjist jafnframt á sama tíma (4,7 m.kr.). Kostnaður rúmast ekki innan fjárheimilda sviðanna.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS24030028.
    Samþykkt. Tillögunni sem snýr að verkefnum vegna ársins 2025 er vísað til borgarráðs. Kostnaður vegna ársins 2026 fer til umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkar í velferðaráði og skóla- og frístundaráði þakka starfshópnum fyrir ítarlega og faglega vinnu við úttekt á skólaþjónustu og tillögugerð um úrbætur. Við tökum undir alvarleika þess að börn bíði eftir aðstoð sálfræðinga og talmeinafræðinga. Skortur á snemmtækri íhlutun getur haft víðtæk neikvæð áhrif á líðan og námsframvindu barna. Við fögnum þeim tillögum sem lagðar eru fram um fjölgun sérfræðinga og aukna viðveru í skólum. Það er brýnt að byggja upp samfellda og aðgengilega þjónustu þar sem snemmtækri íhlutun og stuðningi er beitt í samræmi við markmið Betri borgar fyrir börn og farsældarlögin. Unnið verði að samræmingu verklags milli miðstöðva, tryggt verði að ráðstöfun stöðugilda taki mið af lýðfræðilegum og staðbundnum aðstæðum. Með markvissum aðgerðum, aukinni fræðslu og skýrri forgangsröðun getum við dregið úr biðlistum og veitt börnum betri þjónustu. Við leggjum áherslu á að fylgst verði grannt með framgangi aðgerðanna, unnið verði áfram af festu og ábyrgð að umbótum í þágu allra barna í borginni. Í ljósi þess telja samstarflokkarnir mikilvægt að hugað verði að markvissari samvinnu og samþættingu skipulegs íþrótta- og tómstundastarfs í farsæld barnsins inn í verklag farsældar þannig að sá þáttur í lífi barnsins verði unninn samhliða öðrum þáttum.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er stytta biðlista barna eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga. Af þeim ástæðum styðja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á sameiginlegum fundi skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs að fjármagn verði aukið til að bæta þessa sérfræðiþjónustu við börn. Fyrir liggur að töluverður skortur er á talmeinafræðingum og sálfræðingum. Fyrir borgina kæmi það sennilega sterkt út að bjóða út þjónustu af þessu tagi í formi rammasamninga við viðeigandi sérfræðinga. Á þann hátt fengist væntanlega fjölbreyttara úrval sérfræðinga sem sinna þjónustunni ásamt því að auðveldara yrði að stýra þjónustustigi eftir þörfum á hverjum tíma.

    Fulltrúar Framsóknar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Framsóknar þakka góða kynningu á stöðu mála. Það er augljóst að leita þarf allra leiða til þess að vinna á þeim biðlistum sem safnast hafa upp yfir tíma. Gangi ráðningar sérfræðinga til starfa ekki eftir þarf að tryggja að gerðir verði rammasamningar við þá aðila sem veita sálfræði- og talmeinaþjónustu. Börnin þurfa að vera í forgangi.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á stöðu verkefnisins Betri borg fyrir börn. VEL25060055.

    -    Kl. 14:01 víkur Alexandra Briem af fundinum og Kristinn Jón Ólafsson tekur sæti á fundinum í hennar stað.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir greinargóða kynningu á stöðu verkefnisins Betri borg fyrir börn. Það er ánægjulegt að sjá vísbendingar um að vel hafi tekist við innleiðingu farsældarlaganna. Samþætting þjónustunnar hefur þróast með jákvæðum hætti og á starfsfólk hrós skilið fyrir þá faglegu og metnaðarfullu vinnu sem unnin hefur verið. Ástæða er þó til að benda á mikilvægi þess að huga þurfi betur að aldurshópnum 16–18 ára – bæði þeim sem halda áfram í framhaldsskóla og þeim sem það gera ekki. Þessi börn eiga rétt á viðeigandi stuðningi og þjónustu samkvæmt farsældarlögunum, og brýnt er að tryggja að þau fái þá þjónustu sem þau þarfnast.

  3. Fram fer kynning á eftirliti og mati á árangri Betri borgar fyrir börn. VEL25060056.

    Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, teymisstjóri teymis árangurs- og gæðamats á skóla- og frístundasviði, Ingibjörg Íris Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats á skóla- og frístundasviði, og Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkar velferðarráðs og skóla- og frístundaráðs fagna þeirri markvissu vinnu sem lögð hefur verið í að þróa mælingar og eftirlit með árangri verkefnisins Betri borg fyrir börn (BBB). Kynningin staðfestir mikilvægi þess að styðjast við gögn til að taka upplýstar ákvarðanir og fylgja eftir því markmiði að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Við teljum það mikils virði að horft sé til heildræns mats á stuðningi við börn, faglegt starf og rekstur og að unnið sé markvisst að því að dýpka greiningu á líðan barna og fagumhverfi starfsfólks. Með reglulegri rýni og skýrri ábyrgðarskiptingu er hægt að tryggja að þær breytingar sem BBB felur í sér skili raunverulegum ávinningi í lífi barna og fjölskyldna þeirra. Við hvetjum til áframhaldandi þróunar mælinga, með sérstakri áherslu á að auka sýnileika og gagnsemi niðurstaðna fyrir vettvanginn. Þannig tryggjum við að gögnin vinni með fólkinu og að við séum á réttri leið með að byggja betri borg fyrir börn.
     

  4. Fram fer kynning á niðurstöðum foreldrakönnunar um skóla-, frístunda- og velferðarþjónustu við börn á grunnskólaaldri í Reykjavíkurborg. VEL25060057.

    -    Kl. 15:40 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum.

    Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, teymisstjóri teymis árangurs- og gæðamats á skóla- og frístundasviði, Ingibjörg Íris Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats á skóla- og frístundasviði, og Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í nóvember 2024 var send út netkönnun til foreldra grunnskólabarna sem höfðu fengið skólaþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar á síðastliðnu skólaári. Mikilvægt er að kanna reglulega upplifun af þjónustu borgarinnar og var markmið könnunarinnar að kanna upplifun foreldra af þjónustu sem fjölskyldan og barnið hafði fengið. Könnunin var send út á fimm tungumálum og svarhlutfall var 44% og hafa 67% foreldra góða upplifun af þjónustunni. Fulltrúar samstarfsflokkanna í velferðarráði og skóla- og frístundaráði telja mikilvægt að nýta niðurstöður könnunarinnar til að bæta upplýsingaflæði og skýrleika þeirra og þar með bæta ánægju með þjónustuna. Þá þarf að rýna betur í þjónustuveitinguna í samhengi við aðra þætti, þar sem 42% foreldra upplifa að þjónusta Reykjavíkurborgar við barnið sitt hafi verið heildstæð. Jákvætt er að sjá að 88% foreldra upplifa oftast eða alltaf vingjarnlegt viðmót frá starfsfólki sem kemur að þjónustu við barnið sitt. Þá fjölgar í hópi þeirra sem telja þjónustuna sem barnið hefur fengið gagnlega og hjá foreldrum sem hafa góða upplifun af þeirri þjónustu sem barnið hefur fengið. Ljóst er að rýna þarf nánar í niðurstöður könnunarinnar og vinna með það sem kemur fram í henni. Þakkað er fyrir skýra framsetningu á niðurstöðum.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna birtingu þessarar könnunar og hvetja önnur svið borgarinnar til að láta af feimni við að kanna upplifun þeirra sem fá þjónustu frá borginni. Samantekið má sjá að þeir sem fá skjóta úrlausn sinna mála eru ánægðir en það á við um innan við helming þjónustuþega. Tæp 70% þjónustuþega töldu biðtímann ekki ásættanlegan. Þjónustan er ekki heildstæð samkvæmt meirihluta foreldra heldur hefur hún verið brotakennd að mati þorra foreldra. Um 40% fannst upplýsingagjöf hvorki skýr né góð.  Þá svarar þriðjungur foreldra því að þjónustan hafi ekki haft nein áhrif á líðan eða hegðun barnsins. Foreldrar lýsa í opnum svörum margra ára bið eftir greiningum og stuðningi og að þjónustan hafi verið svo seint á ferð að hún nýttist ekki þegar hún loksins kom. Af þeim foreldrum sem höfðu þó fengið sérstakan stuðning í leikskóla upplifðu 40% ekki nægan stuðning við barnið við flutning úr leikskóla í grunnskóla. Nauðsynlegt er að ráðast í frekari greiningu á þessum niðurstöðum. Í framhaldinu að láta verkin tala svo vinna megi niður biðlista og tryggja að börnin séu að fá þjónustuna sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum.

  5. Fram fer kynning á niðurstöðum úr fyrirlögn fyrir starfsfólk grunnskóla á könnuninni Viðhorf lykilaðila til skólaþjónustu: Sýnileiki og viðbragðsflýtir. VEL25060058.

    Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, teymisstjóri teymis árangurs- og gæðamats á skóla- og frístundasviði, Ingibjörg Íris Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats á skóla- og frístundasviði, og Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er á niðurstöðum könnunarinnar að í miðstöðvunum verður til flöskuháls í málavinnslu barnanna. Þrátt fyrir að meirihluti stjórnenda og tengiliða telji samstarf við miðstöð ganga vel og viðmót starfsfólks vera styðjandi, sýnir könnunin að sýnileiki og viðbragðshraði sérstaklega er verulegt vandamál. Meirihluti svarenda gátu ekki tekið undir að viðbragðstími starfsfólks miðstöðvar væri almennt góður. Í alvarlegum tilfellum sem flokkast sem fyrsti og annar forgangur taldi einungis helmingur svarenda viðbragðstíma starfsfólks skólaþjónustunnar hafa verið viðunandi. Minna en helmingur svarenda taldi stuðning berast strax frá starfsfólki miðstöðvar vegna alvarlegra tilfella sem þola enga bið. Einungis þriðjungur taldi sig ekki þurfa að ítreka fyrirspurnir til miðstöðvar varðandi mál sem eru komin í vinnslu og mikill meirihluti taldi alltof langa bið eftir greiningu, forskimun eða mati. Minnihluti svarenda vissi hvenær mál eru komin í vinnslu hjá starfsfólki miðstöðvar. Svona niðurstöðum má ekki una að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Það er bráðnauðsynlegt að leysa úr þessum flöskuhálsi og tryggja að miðstöðvarnar hafi þann mannskap sem þarf til að þjónusta skólanna.

  6. Fram fer kynning á farsældarráði höfuðborgarsvæðisins. VEL25060059.

    Hanna Borg Jónsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs höfuðborgarsvæðisins, Margrét Edda Yngvadóttir, sérfræðingur á farsældarsviði Barna- og fjölskyldustofu, og Ásdís Sigurjónsdóttir, sérfræðingur á farsældarsviði Barna- og fjölskyldustofu, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

  7. Fram fer kynning á tilraunaverkefni um miðlægt bráða- og viðbragðsteymi vegna ofbeldis meðal barna. VEL25060060.

    Margrét Edda Yngvadóttir, sérfræðingur á farsældarsviði Barna- og fjölskyldustofu, Ásdís Sigurjónsdóttir, sérfræðingur á farsældarsviði Barna- og fjölskyldustofu, og Hanna Borg Jónsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs höfuðborgarsvæðisins, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 16:13 víkur Edith Oddsteinsdóttir af fundinum.

    -    Kl. 16:16 víkur Kristinn Jón Ólafsson af fundinum.

    Skóla- og frístundaráð og velferðarráð leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð og skóla- og frístundaráð þakka fyrir góða kynningu. Þetta verkefni er mjög aðkallandi tilraunaverkefni til tveggja ára. Mikilvægt er að skapa miðlægt bráða- og viðbragðsteymi fyrir aldurinn 10-18 ára en teyminu er ætlað að tryggja að þau mál sem upp koma á höfuðborgarsvæðinu séu unnin af sérhæfðu teymi sem virkjast um leið og ofbeldi á meðal barna á sér stað eða kemur upp, í samvinnu við ábyrgðaraðila máls í sveitarfélagi barnsins. Mikilvægt er að eignarhald verkefnisins sé skýrt og telja ráðin að verkefni af þessu tagi heyri undir ábyrgðarsvið Barna- og fjölskyldustofu, sbr. 2. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Fundi slitið kl. 16:30

Sanna Magdalena Mörtudottir Sara Björg Sigurðardóttir

Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns Þorvaldur Daníelsson

Sandra Hlíf Ocares Pétur Marteinn Urbancic Tómasson

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Velferðarráð 18.06.2025 - prentvæn útgáfa