Velferðarráð - Fundur nr. 507

Velferðarráð

Ár 2025, miðvikudagur 11. júní var haldinn 507. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í Austurmiðstöð, Gylfaflöt 5. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Gunnlaugur Sverrisson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer skoðunarferð um Austurmiðstöð.

    Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Austurmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  2. Fram fer kynning á starfsemi Austurmiðstöðvar. VEL25060019.

    Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Austurmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkarnir þakka fyrir góða kynningu á starfsemi Austurmiðstöðvar sem er ein fjögurra miðstöðva (að undanskilinni Rafrænni miðstöð) í Reykjavík, þar sem íbúar Reykjavíkurborgar geta nálgast fjölbreytta þjónustu, upplýsingar og ráðgjöf.
     

  3. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL25030023.

  4. Fram fer kynning á dagdvölum. VEL25060024.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka fyrir greinargóða samantekt á stöðu dagdvala í Reykjavík. Dagdvöl er mikilvægur hlekkur í þjónustukeðju við eldra fólk og lykilþáttur í því að styðja sjálfstæða búsetu, efla lífsgæði og sporna gegn félagslegri einangrun. Samstarfsflokkar velferðarráðs telja mikilvægt að Reykjavíkurborg, uppbyggingaraðilar og ríkið hefji samtal um hvernig fjölbreytt samþætting þjónustu við eldra fólk verði háttað samhliða uppbyggingaráformum næstu ára til að tryggja samfellu og þjónustu innan hverfa þegar heilsunni hrakar vegna skammvinnra veikinda eða til langs tíma.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað, dags. 6. júní 2025, um dagdvölina Þorrasel. Trúnaðarmál. VEL25060026.

    Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  6. Fram fer kynning á starfsemi Y-Foundation í Finnlandi. VEL25060041.

    Juha Kaliha, alþjóðafulltrúi Y-Foundation, Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, og Soffía Hjördís Ólafsdóttir, deildarstjóri í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar samstarfsflokka velferðarráðs þakka fyrir greinargóða og áhugaverða kynningu á starfsemi Y-Foundation í Finnlandi. Við tökum heilshugar undir mikilvægi slíkra stofnana sem byggja á mannréttindasjónarmiðum og varanlegum lausnum í húsnæðismálum, þar sem húsnæði er grunnur að öryggi, sjálfstæði og mannlegri reisn. Y-Foundation sýnir fram á hvernig markviss stefna og þverfaglegt samstarf getur skilað raunverulegum árangri í baráttunni gegn heimilisleysi. Við lítum til þeirra sem hvetjandi fyrirmyndar í áframhaldandi vinnu okkar að réttlátari og manneskjulegri borg fyrir alla.

    Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir fróðlega og áhugaverða kynningu á þeim árangri sem Finnland hefur náð í baráttunni gegn heimilisleysi. Þar hefur heimilisleysi dregist markvisst saman með samstilltu átaki ríkis og sveitarfélaga, sem byggist á skýrum markmiðum og raunhæfum lausnum. Ljóst er að Ísland þarf að móta heildstæða þjóðarstefnu í málaflokknum til að bregðast við vaxandi fjölda heimilislausra einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Átak í málaflokknum hefur reynst vera þjóðhagslega hagkvæmt í Finnlandi. Í kynningunni kom fram að 25% nýrra íbúða í Helsinki eru félagslegt, óhagnaðardrifið eða hagkvæmt húsnæði. Til samanburðar er í nýjum húsnæðissáttmála Reykjavíkurborgar stefnt að því að 35-40% íbúða í nýjum hverfum falli í þann flokk. Það vekur athygli að Finnland hefur náð þessum árangri með lægri hlutdeild slíkra íbúða, sem sýnir að fleiri þættir skipta máli – einkum forvarnir og samfelld þjónusta. Aðgerðir Finnlands ættu að vera Ísland til fyrirmyndar – þær sýna að með vilja, samvinnu og markvissum aðgerðum er hægt að ná árangri í málaflokknum. 

  7. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga sviðsstjóra, dags. 6. júní 2025, um nýtt húsnæði fyrir framleiðslueldhús velferðarsviðs. VEL25060025.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu öldrunarmála, og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri skrifstofu öldrunarmála, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  8. Lögð fram drög að erindisbréfi stýrihóps um mótun stefnu í málaflokki fatlaðs fólks. VEL25060043. 
    Samþykkt.

    Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, ráðgjafi í málaflokki fatlaðs fólks, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  9. Fram fer kynning á umbótateymi Rafrænnar miðstöðvar á velferðarsviði. VEL25060022.

    Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar og Rafrænnar miðstöðvar, og  Auður Guðmundsdóttir, teymisstjóri umbótateymis, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar samstarfsflokkanna í velferðarráði fagna þeirri þróun og nýsköpun sem umbótateymi velferðarsviðs hefur leitt áfram undir merkjum velferðartækni og stafrænnar umbreytingar. Hvort sem er í fjarvöktun heimahjúkrunar, notkun fjölskynjara í búsetuúrræðum, innleiðingu stafrænnar lausnar eins og dala.care eða nýrrar málaskrár í Ráðgjafanum – er mikilvægt til að tryggja samræmda, skilvirka og manneskjulega þjónustu fyrir fjölbreytta hópa íbúa borgarinnar. Við fögnum því að þetta umbótastarf er unnið af fagmennsku, með skýrri framtíðarsýn og í virku samtali við þjónustunotendur og starfsfólk.

  10. Fram fer kynning á uppgjöri velferðarsviðs á fyrsta ársfjórðungi 2025. Trúnaður er um málið þar til uppgjörið hefur verið lagt fyrir borgarráð. VEL25060020.

    -        Kl. 15:58 víkur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir af fundinum og í hennar stað tekur Sandra Hlíf Ocares sæti á fundinum með rafrænum hætti.

    Agnes Sif Andrésdóttir, fjármálastjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  11. Lagt fram yfirlit yfir innkaup á velferðarsviði yfir 10 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2025. Trúnaður er um málið þar til uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2025 hefur verið lagt fyrir borgarráð. VEL25060037.

    Agnes Sif Andrésdóttir, fjármálastjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  12. Lögð fram skýrsla með greiningu á matsviðmiðum sérstaks húsnæðisstuðnings með aðferðafræði kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar, dags. janúar 2025. VEL25060021.

    Agnes Sif Andrésdóttir, fjármálastjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands um rýni á matsviðmiði og reglum sérstaks húsnæðisstuðnings:

    Lagt er til að það verði metið hvort og þá hvernig hægt sé að breyta reglum um sérstakan húsnæðisstuðning þannig að einungis verði litið til fjárhagslegrar stöðu í stað þess að félagslegar aðstæður umsækjenda þurfi einnig að vera metnar til stiga út frá matsviðmiði. Í núverandi reglum kemur fram að staða umsækjanda verði að vera metin til að lágmarki sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varðar félagslegar aðstæður, sbr. matsviðsmið sem fylgir með reglunum, til að viðkomandi eigi rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi. Óskað er eftir því að velferðarsvið vinni greiningu á því hvað þyrfti að breyta í reglum þannig að sérstaki húsnæðisstuðningurinn næði til þeirra sem ekki uppfylla matsviðmið nú, þrátt fyrir að vera með íþyngjandi húsnæðiskostnað.  

    Greinargerð fylgir tillögu. VEL25060036.
    Frestað. 

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknar um kynningu á Janus heilsueflingu fyrir eldra fólk, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 21. maí 2025. VEL25050053.
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknar um kynningu á skýrslu HLH ráðgjafar um skipulag málaflokks fatlaðs fólks, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 9. apríl 2025. VEL25040011.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar að fresta afgreiðslu tillögunnar.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúinn lýsir yfir mikilli óánægju með að tillögunni hafi verið frestað aftur. Einnig er óánægja með hversu langan tíma það tók að leggja þessa tillögu fram eftir að hún var send inn til velferðarráðs. Það er eins og meirihlutinn vilji ekki kynna fulltrúum velferðarráðs umrædda skýrslu sem unnin hefur verið. Ótvírætt er að efni skýrslunnar á brýnt erindi við velferðarráð. Það er grundvallaratriði í lýðræðislegri stjórnsýslu að kjörnir fulltrúar hafi aðgang að upplýsingum sem varðar þá málaflokka sem þeir eru í forsvari fyrir jafnvel þótt að hún sé lögð fram í trúnaði. Fyrir liggur skýrsla sem unnin hefur verið en hefur ekki verið kynnt ráðinu. Það dregur úr gagnsæi, skerðir upplýsingaflæði og takmarkar möguleika ráðsins til að sinna hlutverki sínu með ábyrgð og yfirsýn. Fulltrúinn telur nauðsynlegt að skýrslan sé lögð fram og kynnt velferðarráði, til að tryggja trausta og upplýsta ákvarðanatöku.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram fundadagatal velferðarráðs ágúst – desember 2025. VEL25050035.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun

    Minnihlutinn telur óþarfi að færa fundi velferðarráðs. Vel er hægt að mæta kl. 13:00 daginn eftir borgarstjórnarfundi.  
     

  17. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. júní 2025, við fyrirspurn fulltrúa Framsóknar um áhrif lokunar Janus endurhæfingar á þjónustuþega velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs frá 21. maí 2025. VEL25050056.

    Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúinn lýsir yfir áhyggjum vegna lokunar Janus starfsendurhæfingar þann 1. júní sl. án þess að tryggð hafi verið sambærileg úrræði í staðinn, fyrir þá einstaklinga sem nutu þjónustu þar eða voru á biðlista. Um er að ræða sérhæft geðendurhæfingarúrræði sem hefur sinnt ungu fólki. Lokun slíks úrræðis hefur mikil áhrif á þá sem þar hafa verið í þjónustu og jafnvel þótt ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda þeirra sem eiga lögheimili í Reykjavík er líklegt að íbúar Reykjavíkurborgar hafi fengið þjónustu þar. Alvarlegt er að ekki hafi verið tryggð viðeigandi þjónusta fyrir alla sem nýttu sér úrræðið áður en til lokunar kom. Það skapar óásættanlega óvissu fyrir einstaklinga í viðkvæmri stöðu, sem þurfa áframhaldandi stuðning og samfellu í þjónustu. Þótt Reykjavíkurborg bjóði upp á ýmis úrræði til virkni og endurhæfingar, skortir sérhæfð geðendurhæfingarúrræði fyrir ungt fólk og mikilvægt er að heilbrigðisráðherra tryggi hratt og örugglega viðeigandi úrræði fyrir þá einstaklinga sem nutu þjónustu Janusar.

    Fylgigögn

  18. Velferðarráð leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Samningi á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, hefur verið sagt upp. Afleiðingar þess eru óljósar, sérstaklega hvað varðar áframhaldandi aðgang barna að leikskólum borgarinnar. Óvissa ríkir um hvort þau börn sem þegar eru í leikskóla og hafa fallið undir samninginn fái að halda áfram dvöl sinni, og óljóst er hvort að ný börn í sambærilegri stöðu muni fá leikskólapláss. Samningurinn gerði ráð fyrir að börn flóttafólks hefðu aðgang að leikskólum og gætu tekið þátt í íþrótta- og frístundastarfi. Þar sem ríkið rekur hvorki leikskóla né frístundarheimili blasir við að óljóst er hvort að börn muni geta fengið aðgang að fyrsta menntunarstiginu og íþrótta- og frístundastarfi nema ríkið fari í það að opna ný úrræði á vegum ríkisins. Óskað er eftir upplýsingum um hvaða áhrif uppsögn samningsins um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, hefur á börn á leikskólaaldri:  Börn sem þegar hafa fallið undir samninginn og eru með leikskólavist í leikskólum Reykjavíkurborgar: munu þau börn geta áfram haldið sínu leikskólaplássi og mun ríkið greiða fyrir leikskólavist þeirra? Börn sem nýverið hafa komið eða munu koma til landsins: munu þau börn geta farið í leikskóla og mun ríkið greiða fyrir leikskólavist þeirra? VEL25060067.

Fundi slitið kl. 17:19

Sanna Magdalena Mörtudottir Guðný Maja Riba

Sandra Hlíf Ocares Magnea Gná Jóhannsdóttir

Sara Björg Sigurðardóttir Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns

Helgi Áss Grétarsson