Velferðarráð
Ár 2025, miðvikudagur 21. maí var haldinn 505. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í Norðurmiðstöð, Efstaleiti 1. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Kjartan Jónsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer skoðunarferð um Norðurmiðstöð.
-
Fram fer kynning á starfsemi Norðurmiðstöðvar. VEL25050032.
Kristinn Jakob Reimarsson, framkvæmdastjóri Norðurmiðstöðvar, og Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkarnir þakka fyrir góða kynningu á starfsemi Norðurmiðstöðvar sem er ein fjögurra miðstöðva, að undanskilinni rafrænni miðstöð í Reykjavík, þar sem íbúar Reykjavíkurborgar geta nálgast fjölbreytta þjónustu, upplýsingar og ráðgjöf.
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL25030023.
Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 13:55 víkur Kjartan Jónsson af fundinum og Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns tekur sæti á fundinum.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 19. maí 2025, um samþykkt þjónustusamnings við Spörvar líknarfélag Reykjavík vegna áfangaheimilisins Draumasetrið, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að velferðarráð samþykki meðfylgjandi drög að þjónustusamningi Reykjavíkurborgar við Spörvar líknarfélag Reykjavík til loka árs 2027. Kostnaður við samninginn, sem er 15 m.kr. á ári á samningstímanum, rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25050030.
Samþykkt.
Vísað til borgarráðs.Kristjana Gunnarsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, og Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð samþykkir samning um þjónustu við áfangaheimilið Draumasetrið. Mikið og gott starf er unnið á Draumasetrinu en samningurinn sem er hér samþykktur mun efla stuðning og styrkja faglegt starf. Stuðningurinn sem velferðarráð veitir felur í sér 15 milljóna króna fjárframlag árlega í þrjú ár. Um er að ræða mikilvægan hlekk í bataferli þeirra sem hafa lokið áfengis- og vímuefnameðferð.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars í máli nr. E1623/2024. Trúnaðarmál. VEL25040038.
Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, og Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á vinnu- og virkniúrræðum velferðarsviðs fyrir fatlað fólk. Einnig lagt fram minnisblað, dags. 19. maí 2025, um flutning virkniúrræðisins Smiðjunnar í Skeifuna 8. VEL25050031.
Lára Sigríður Baldursdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Sigurbjörn Rúnar Björnsson, forstöðumaður Vinnu og virkni, Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, og Ricardo Mario Villalobos, deildarstjóri húsnæðis og búsetuþjónustu, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar velferðarráðs þakka greinargóða kynningu á vinnu og virkni Reykjavíkurborgar fyrir fatlað fólk og flutningi virkniúrræðisins Smiðjunnar og Opus að Skeifunni 8. Um er að ræða mikilvæga þjónustu fyrir fatlað fólk sem hefur verið hluti af starfsemi borgarinnar til fjölda ára og skiptir sköpum fyrir fjölbreyttan hóp með ólíkar stuðningsþarfir. Samstarfsflokkarnir leggja áherslu á að vel sé staðið að öllum undirbúningi vegna flutnings, þ.m.t. hönnun innra rýmis með þarfir notenda að leiðarljósi og vandaðan samráðsvettvang við starfsfólk, aðstandendur og hagsmunasamtök. Mikilvægt er að tryggja samfellu í þjónustu og sem minnst rask fyrir þjónustunotendur og þar með tryggja vellíðan notenda og starfsmanna eftir flutning og að þeir fái þann stuðning og upplýsingar sem þeir þurfa á að halda í ferlinu. Samstarfsflokkarnir leggja mikla áherslu á að hugað verði að öruggu og vel upplýstu aðgengi fyrir öll niður í Laugardal.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Undir þessum dagskrárlið komu velferðarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ýmsum athugasemdum á framfæri til þeirra sem kynntu málið. Þessar athugasemdir byggðust á því sem ýmsir í starfsliði og í hópi aðstandenda hafa gert grein fyrir varðandi flutning Smiðju og Opus í skrifstofuhúsnæðið að Skeifunni 8. Líta verður til þess að gera þarf umtalsverðar breytingar til að aðlaga húsnæðið að þörfum notendahópsins. Slíkt mun taka tíma. Líkur standa til þess að umhverfi Skeifunnar henti þessum notendahópi illa. Sem dæmi er nokkur ganga í Laugardalinn en eðli starfseminnar er slíkt að það er mikilvægt fyrir starfsfólk að geta stigið út með notendur í róandi umhverfi. Óreiðukennd bílastæði í Skeifunni munu seint teljast til róandi umhverfis að ónefndum hávaðanum sem fylgir umferðarþunganum í Skeifunni. Kallað var eftir svörum um hvernig stæði til að mæta ábendingum starfsfólks og aðstandenda. Að lokum var vakin athygli á því að verið er að boða heilmikla þéttingu á svæðinu. Sú þróun svæðisins í Skeifunni skapar enn meira rask í umhverfinu og mun án efa auka á glundroða í bílastæðamálum. Brýnt er að taka tillit til allra þessara þátta við þróun starfseminnar.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á verklagi og ferlum gæðaeftirlits og úttekta þjónustusamninga velferðarsviðs. VEL25050033.
Heiðrún Una Unnsteinsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats, Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs og gæðamats, Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar í velferðaráði þakka góða yfirferð og kynningu á verklagi og ferla þess gæðaeftirlits, árangursmats og úttekta sem þjónustusamningar velferðasviðs falla undir.
-
Fram fer kynning á niðurstöðum könnunar meðal notenda Virknihúss 2024. VEL25050034.
Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs og gæðamats, Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lögð fram drög að umsögn velferðarráðs, dags. 21. maí 2025, um drög að reglum Reykjavíkurborgar um styrki. ÞON24080006.
Samþykkt.Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram til kynningar húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar 2025-2034. VEL25050029.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkarnir setja húsnæðismál á oddinn með sterkum félagslegum áherslum. Stefnt er að 16.000 nýjum íbúðum á næstu tíu árum, þar af 35% óhagnaðardrifnum. Aðgengi að öruggu og viðeigandi húsnæði, óháð stétt eða stöðu, er grunnforsenda félagslegs réttlætis. Áherslan er til að mynda á aukið framboð leiguhúsnæðis fyrir tekjulægri hópa, ólík búsetuform fyrir alla aldurshópa og gæði húsnæðis og umhverfis. Boðið verði upp á fjölbreytt framboð fyrir öll í öllum hverfum og borgarhlutum. Samstarfsflokkar velferðarráðs leggja ríka áherslu á áframhaldandi samstarf við verkalýðshreyfinguna, hið opinbera og uppbyggingaraðila óhagnaðardrifins húsnæðis. Velferðarsjónarmið verði ávallt í forgrunni í uppbyggingu húsnæðis í Reykjavík.
Fylgigögn
-
Fundadagatal velferðarráðs fyrir tímabilið september - desember 2025. VEL25050035.
Frestað. -
Lögð fram tillaga velferðarráðs um veitingu hvatningarverðlauna velferðarráðs 2024, ásamt fylgiskjölum. Trúnaður er um málið þar til hvatningarverðlaunin hafa verið afhent.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25050047.
Samþykkt. -
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarfulltrúi Framsóknar leggur til að velferðarráð setji á fót stýrihóp sem skila á tillögum um hvernig megi samþætta þjónustu borgarinnar til að ná betur utan um ungmenni á aldrinum 16-29 ára sem ekki eru í virkni. Lagt er til að horft sé til þróunarverkefnisins Elja virkniráðgjöf, sem starfrækt er í Árborg. Elja miðar að því að styðja ungmenni á aldrinum 16-29 ára við að móta framtíðarsýn og setja sér markmið og stuðlar að því að öll ungmenni fái þann stuðning sem þau þurfa til að geta vaxið, orðið sjálfstæð og náð að aðlagast félagslega. Áhersla er jafnframt lögð á að efla almenna vellíðan og lífsgæði ungmenna með einstaklingsmiðaðri og heildstæðri nálgun.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25050052.
Frestað.Fylgigögn
-
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi Framsóknar leggur til að velferðarráð fái kynningu frá Janus heilsueflingu fyrir eldra fólk. VEL25050053.
Frestað.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á fundi velferðarráðs 30. apríl 2025 lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar fram beiðni um að umsókn Memmm Play um opinn leikskóla yrði sett á dagskrá næsta fundar velferðarráðs. Síðan þá hafa tveir fundir verið haldnir án þess að tillagan hafi verið tekin fyrir á fundi ráðsins. Hver er ástæða þessa og hvenær má ætla að tillagan komi á dagskrá ráðsins? VEL25050054.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hversu margir starfslokasamningar hafa verið gerðir við stjórnendur stofnana innan velferðasviðs og stjórnenda á velferðasviði á tímabilinu 1. janúar 2015 til og með 31. desember 2024? Hver er kostnaður Reykjavíkurborgar við hvern starfslokasamning á föstu og gildandi verðlagi? Hversu langur er hver starfslokasamningur sem velferðarsvið hefur gert við stjórnendur? Hvert er starfsheiti og aldur starfsmanns á bakvið hvern starfslokasamning? Hvaða skýring liggur að baki hverjum starfslokasamningi og hvers vegna var þessi leið valin? Hversu margir stjórnendur hafa sagt upp störfum á tímabilinu 1. janúar 2015 til og með 31. desember 2024? VEL25050055.
-
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Janus endurhæfing mun loka geðendurhæfingarúrræði sínu þann 1. júní n.k. vegna þess að ekki hefur náðst samningur við ríkið um áframhaldandi rekstur úrræðisins. Ekki liggur enn fyrir hvert þeir einstaklingar sem þar hafa notið þjónustu muni fara í þjónustu og því er spurt hverjar afleiðingarnar af því gætu orðið fyrir þjónustuþega velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar sem hafa fengið þjónustu hjá Janus endurhæfingu eða eru á biðlista eftir þeirri þjónustu. Mun þetta hafa áhrif á þjónustuþörf Reykjavíkurborgar? VEL25050056.
-
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Framsóknar óskar eftir því að fá upplýsingar um afdrif tillögu Framsóknar frá 7. apríl s.l. sem hljóðar svo: ,,Lagt er til að velferðarráð fái kynningu á skýrslu HLH ráðgjafar er varðar skipulag málaflokks fatlaðs fólks“. VEL25050057.
Fundi slitið kl. 16:31
Sanna Magdalena Mörtudottir Guðný Maja Riba
Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns Helgi Áss Grétarsson
Magnea Gná Jóhannsdóttir Sara Björg Sigurðardóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 21. maí 2025