Velferðarráð - Fundur nr. 50

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2007, miðvikudaginn 24. janúar var haldinn 50. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.10 að Tryggvagötu 17. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Fanný Jónsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Páll Einarsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Áheyrnarfulltrúi:Guðrún Ámundsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stella Víðisdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram tillaga sviðsstjóra Velferðarsviðs, dags 22. janúar 2007, um flutning kaffistofu Samhjálpar.
Samþykkt er að fresta málinu.

2. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 16. janúar 2007, um kosningu nýs fulltrúa Samfylkingarinnar í velferðarráði.
Stefán Jóhann Stefánsson verður fulltrúi Samfylkingarinnar í stað Oddnýjar Sturludóttur, sem beðist hefur lausnar.

3. Lögð fram tillaga sviðsstjóra Velferðarsviðs, dags. 19. janúar 2007, um öryggissíma.
Lagt er til að gert verði 6 mánaða tilraunaverkefni í samvinnu við Öryggismiðstöð Íslands um rekstur öryggissíma fyrir 100 einstaklinga sem úrræði í félagslegum stuðningi til aldraðra sem þurfa aukinn stuðning til að dvelja á eigin heimili. Öryggissíminn verði starfræktur utan hefðbundins dagvinnutíma heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu, á kvöldin, um helgar og nætur.

Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir tillögunni.
Tillagan er samþykkt samhljóða.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar því að nú loks komist til framkvæmda svokallaður öryggissími sem mun skipta miklu máli fyrir eldri borgara í Reykjavík sem búa heima en þurfa aukið öryggi á kvöldin, um helgar og á næturnar. Stefnt er að því að þjónustan hefjist 1. apríl nk. Því er treyst að í þessu verki verði unnið í samræmi við innkaupareglur Reykjavíkurborgar.

4. Lögð fram til kynningar skýrsla, dags. 19. janúar 2007, um aðskilnað félagslegrar heimaþjónustu og þrifa.
Skrifstofustjóri velferðarþjónustu gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt að vísa málinu til sviðsstjóra sem mun leggja fram nánari útfærslu fyrir 1. apríl nk.

5. Lögð fram drög að samningi við Samhjálp um rekstur Gistiskýlis.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Drögin voru samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Í framhaldi af samningi Velferðarsviðs við Samhjálp um Gistiskýlið óska fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eftir að úttekt, sem gerð var sl. haust um starfsemina á Miklubraut 18, verði kynnt í velferðarráði á næsta fundi ráðsins.

6. Lagðar fram að nýju tillögur um styrki til áfangaheimila, vegna fasteignagjalda, vegna þjónustusamninga og vegna innri leigu.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir tillögunum og lagði fram minnisblað varðandi styrki/niðurfellingar vegna fasteignaskatta.

Marsibil Sæmundardóttir vék af fundi kl.13.55, meðan fjallað var um áfangaheimili.

Tillaga varðandi áfangaheimili var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum með fyrirvara um breytingu í kjölfar niðurstöðu vinnuhóps um endurskoðun á vinnureglum um úthlutun styrkja til áfangaheimila.

Marsibil Sæmundardóttir mætti aftur á fundinn kl. 14.15.

Tillaga varðandi styrki/niðurfellingar vegna fasteignagjalda var samþykkt samhljóða.
Tillaga varðandi niðurgreiðslu á leigu húsnæðis Fasteignastofu til félagsmála var samþykkt samhljóða.
Tillaga varðandi þjónustusamning við Samhjálp var samþykkt, með fyrirvara um breytingar, með sex samhljóða atkvæðum Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Tillögur varðandi aðra þjónustusamninga eru samþykktar samhljóða með fyrirvara um breytingar vegna samninga sem eru ófrágengnir.

7. Lögð fram að nýju umsögn meirihluta velferðarráðs um stjórnskipan velferðarmála, dags. 22. janúar 2007. Einnig lögð fram umsögn fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og F-lista í velferðarráði dags. 24. janúar 2007 um skýrslu INVIS ehf. um stjórnskipan velferðarmála.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Frjálslynda flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Þjónustumiðstöðvar eru nú starfræktar á sex stöðum í borginni og er ætlað að tryggja borgarbúum aðgengilega, heildstæða og markvissa þjónustu eins nálægt íbúum og kostur er. Þessi þverfaglega og hverfistengda framkvæmd þjónustu hefur fyrir löngu sannað sig með hinu 10 ára gamla tilraunarverkefni, Miðgarði í Grafarvogi. Á þeim tæpu tveimur árum sem sex þjónustumiðstöðvar hafa verið starfandi hafa þær ekki síður náð að festa sig í sessi í öðrum hlutum borgarinnar. Hugmyndafræði þjónustumiðstöðvanna var að flytja þjónustuna nær íbúunum, auka þverfaglegt samstarf við þróun þjónustunnar en ekki síst að efla félagsauð og samstarf í hverfum til að efla þannig hverfavitund. Þá gegna þjónustumiðstöðvarnar lykilhlutverki í forvarnarstarfi en þær bera ábyrgð á því viðamikla samstarfi margra aðila sem þarf til að ná hámarksárangri. Kannanir hafa sýnt að stofnun þjónustumiðstöðva naut stuðnings 90#PR borgarbúa og ánægja íbúa með þá þjónustu sem þær veita hefur vaxið umtalsvert á þeim stutta reynslutíma sem þær hafa fengið til að þróast. Þessar góðu viðtökur birtast einnig í því að lögreglan hefur ákveðið að skipuleggja hverfalöggæslu til að endurspegla þjónustusvæði miðstöðvanna, hverfalögreglumenn vinna samhliða starfsfólki þjónustumiðstöðva í Grafarvogi og í Mjódd og áhugi er á því að auka samstarf og samnýta húsnæði víðar, t.d. í Árbæ þar sem rætt hefur verið um að þjónustumiðstöð flytji í húsnæði með nýrri heilsugæslu hverfisins sem þar á að reisa. Þegar Reykjavíkurborg tekur við auknum verkefnum á sviði þjónustu við fatlaða og aldraða er jafnframt augljóst að hún mun falla vel að skipulagi þjónustumiðstöðvanna. Kjarni málsins er að heildstæð og sveigjanleg nærþjónusta er brýnt hagsmunamál íbúa og allrar hverfistengdrar starfsemi. Allar hugmyndir um breytingar þarf því að útfæra og í sátt við þá sem þjónustuna nota, sem þjónustuna veita að ógleymdum lykilsamstarfsaðilum. Þar eiga hagsmunir borgarbúa og hverfanna augljóslega að vega þyngra en hagsmunir stjórnsýslunnar eða stjórnmálamanna. Hugmyndir um að flytja þjónustumiðstöðvar undir eitt tiltekið fagráð ganga í þveröfuga átt. Fyrirliggjandi tillögur Invis ehf. er sjálfsagt að ræða en þær byggja á gefnum forsendum sem standast ekki, og síðast en ekki síst taka þær hagsmuni stjórnsýslu og stjórnmálamanna framyfir hagsmuni þjónustu við íbúa og borgarbúa sjálfa sem er frágangssök. Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra lýsa sig hins vegar reiðubúna til að ræða breytingar á stjórnkerfi eða þjónustu Reykjavíkurborgar sem kunna að styðja enn frekar og stuðla að sátt um það öfluga starf og þverfaglegu þjónustu sem fram fer í þjónustumiðstöðvum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Breytingin er til að einfalda stjórnsýsluna og er einungis í efra skipulagi, breytingin mun ekki hafa áhrif á starfsemi þjónustumiðstöðvanna. Þjónustusamningar munu áfram vera við Menntasvið, Íþrótta- og tómstundasvið og Leikskólasvið. Það að þjónustumiðstöðvar verði hluti af Velferðarsviði mun ekki hafa nein áhrif á þjónustusamningana og engin ástæða er til að endurskoða þá eða breyta á nokkurn hátt. Kostir þjónustumiðstöðvanna munu halda sér. Breytingin mun hins vegar leiða af sér skilvirkari og skjótari nærþjónustu við íbúa í hverfum borgarinnar. Staðreyndin er sú að 88#PR af framlagi fagsviða til þjónustumiðstöðva er frá Velferðarsviði vegna velferðarverkefna sem velferðarráð ber ábyrgð á. Út frá því má álykta að 8-9 starfsmenn af hverjum 10 sem starfa á þjónustumiðstöðvum eigi að vinna við velferðarmál en erfitt er fyrir Velferðarsvið að ganga úr skugga um að svo sé við núverandi fyrirkomulag. Það hefur sýnt sig frá stofnun þjónustumiðstöðva að þetta fyrirkomulag er þungt í vöfum, það hefur í för með sér aukið flækjustig í tengslum við framkvæmd þeirra mörgu vandasömu og ólíku þjónustuþátta sem Velferðarsvið ber ábyrgð á.

7. Lögð fram til kynningar samantekt Landlæknisembættisins frá nóvember 2006 um ”Könnun á aðstæðum og viðhorfum meðal aldraðra á biðlista í Reykjavík – á biðlista eftir hjúkrunarrými í lok september 2006”.
Málið verður rætt á næsta fundi.

8. Lögð fram til kynningar viðhorfskönnunin Hagir og viðhorf eldri borgara desember 2006 – janúar 2007.
Málið verður rætt á næsta fundi.

9. Lögð fram til kynningar dagskrá námskeiðs fyrir kjörna fulltrúa í félagsmálanefndum sveitarfélaga sem haldið verður í febrúar og mars 2007.

10. Lagðar fram til kynningar fundargerðir samráðshóps um forvarnir dags. 27. nóvember 2006 og 11. desember 2006 og 9. janúar 2007.

11. Lagt fram til kynningar heildaryfirlit áfrýjunarnefndar fyrir árið 2006.

Fundi slitið kl.15.20

Jórunn Frímannsdóttir
Sif Sigfúsdóttir Marsibil Sæmundardóttir
Fanný Jónsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Páll Einarsson Þorleifur Gunnlaugsson.