Velferðarráð
Ár 2025, miðvikudagur 15. janúar var haldinn 495. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:07 í Hofi, Borgartúni 12-14 . Á fundinn mættu: Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á innleiðingu viðverustefnu og heilsustefnu Reykjavíkurborgar. VEL25010015.
Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- kl. 13:10 tekur Ellen Jacqueline Calmon sæti á fundinum.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér eru kynntar helstu áherslur í heilsustefnunni. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verið sé að leggja áherslu á heilsutengd mál. Það er áhyggjuefni hvað veikindahlutfall hjá starfsfólki Reykjavíkurborgar er hátt. Veikindahlutfall borgarstarfsmanna var 7,7% árið 2023 og var það hærra en hjá ríkinu. Hjá Reykjavíkurborg starfa um 11 þúsund manns og jafngildir fyrrgreint hlutfall því að 850 starfsmenn hafi verið veikir dag hvern árið 2023. Veikindahlutfall er hæst á velferðarsviði eða um 8.0 % árið 2023. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessu háa hlutfalli og óttast að þarna spili inn mikið álag sem er á sumum starfsstöðum og einnig má sjá í starfsánægjukönnunum síðustu ára aukningu á kvörtunum. Beðið er eftir nýjum tölum núna. Þolendur eineltis í þeim tilvikum sem ekki tekst að vinna málið til fulls fara oft einmitt í langtíma veikindaleyfi. Markmið heilsustefnunnar er að hlúa að starfsfólki vegna veikinda eða annarra áfalla og draga úr veikindafjarvistum með markvissum hætti. Vonandi verður innleiðing á heilsustefnunni og viðverustefnunni til þess að lækka þetta veikindahlutfall.
-
Fram fer kynning á verkefnum og markmiðum stýrihóps um stefnumótun fjölmenningarborgarinnar Reykjavík. MSS24090132.
Sabine Leskopf, formaður stýrihóps um stefnumótun fjölmenningarborgarinnar Reykjavík, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í stýrihópnum tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir fagna þessari vinnu og telja mikilvægt að halda áfram að þróa og endurskoða stefnumótun í þessum málaflokki í nánu samstarfi við fagfólk og hagaðila. Afar nauðsynlegt er einnig að skapa skýra sýn og aðgerðaráætlun til að styðja og nýta betur þann vaxandi hóp starfsfólks sem er af erlendum uppruna, t.d. með því að byggja upp íslenskukunnáttu.
Fylgigögn
-
Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga sviðsstjóra, dags. 13. janúar 2025, um breytingar á leiguverði Félagsbústaða. Trúnaður er um málið þar til tillagan hefur verið lögð fram í borgarráði. VEL25010021.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Vísað til borgarráðs.Halldóra Káradóttir, sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs, Halla Hallgrímsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu fjármála og reksturs á velferðarsviði, Inga Borg, fjármálasérfræðingur á skrifstofu fjármála og reksturs á velferðarsviði, og Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
- kl. 14:40 víkur Ellen Jacqueline Calmon af fundinum og Heiða Björg Hilmisdóttir tekur sæti á fundinum.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, dags. 13. janúar 2025, um nýja aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að velferðarráð samþykki endurskoðaða aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jafnframt er lagt til að stefna um málefni heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir 2019-2025 verði framlengd til 2027. Áætlaður kostnaður vegna aðgerða um uppbyggingu húsnæðis er um 3.384 m.kr. til loka árs 2027.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25010024.
Samþykkt.
Vísað til borgarráðs.Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, Halla Hallgrímsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu fjármála og reksturs, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar velferðarráðs fagna uppfærslu á aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Aðgerðaáætlunin tekur mið af því að þjónusta borgarinnar mæti fólki þar sem það er statt hverju sinni með aukinni þrepaskiptingu í þjónustunni og tryggi að viðeigandi þjónusta sé til staðar fyrir fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir með skaðaminnkun að leiðarljósi. Áfram verður lögð áherslu á samvinnu við ríkið og sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins um kostnaðarþátttöku og áframhaldandi uppbyggingu í málaflokknum.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni og tryggja að nægt húsnæði og gistirými, sé til staðar sem og viðeigandi stuðningur, þannig að ekki sé beðið til lengdar. Þá er mikilvægt að hægt sé að aðlaga stefnuna og aðgerðaáætlun í þessum málum ef þörf er á og hlusta alltaf á raddir þeirra með reynsluna við stefnumótun.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða tillögu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir um nýja aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Stefna í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir var samþykkt árið 2019 en aðgerðaáætlunin með henni fór síðan tveimur árum síðar í endurskoðun. Margt hefur áunnist svo sannarlega, 29 aðgerðum er lokið. Fimm eru í ferli. Flokkur fólksins vísaði tveimur tillögum til stýrihópsins, annarri um aukinn opnunartíma neyðarskýla. Flokkur fólksins lagði líka til að bæta og efla heilbrigðisþjónusta við þennan hóp. Í kjölfar samtals við ríkið samþykkti ráðuneytið að ráðstafa 30 m.kr. til að tryggja heimilislausu fólki betra aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Það er stór áskorun að fá önnur sveitarfélög til að sinna þessum málum. Mest um vert er þó að borgin reyni að sinna þessum hópi vel t.d. byggi húsnæði og hafi neyðarskýli opin helst allan sólarhringinn. Önnur sveitarfélög virðast hafa hafnað því að styðja við þennan hóp sbr. það sem segir í gögnum: “Engar úrbætur hafa verið gerðar af hálfu umræddra sveitarfélaga í kjölfar þessarar vinnu sem bendir til áhugaleysis sveitarfélaganna til úrbóta”. Þetta er auðvitað bagalegt.
Fylgigögn
- Minnisblað um endurskoðaða aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir
- Endurskoðuð aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir
- Tillaga um endurskoðaða aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir
-
Lagðar fram svohljóðandi tillögur stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, dags. 13. janúar 2025, um aðgerðir á grundvelli endurskoðaðrar aðgerðaáætlunar í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að velferðarráð samþykki að sett verði á fót sértækt tímabundið húsnæði fyrir sex konur. Áætlaður kostnaður er 199 m.kr. í launa- og rekstrarkostnað á ári. Áætlaður leigukostnaður er 19,2 m.kr. á ári. Áætlað er að leigutekjur frá íbúum verði um 1,3 m.kr. á ári.
Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu um fjölgun stöðugilda í Vettvangs- og ráðgjafarteymi velferðarsviðs til að sinna næturþjónustu. Áætlaður kostnaður er 60 m.kr. á ári.
Lagt er til að velferðarsvið samþykki að núverandi starfsemi Konukots flytjist í annað tímabundið húsnæði. Áætlaður leigukostnaður á ári er um 19,8 m.kr.Framlagðar tillögur rúmast innan fjárheimilda ársins 2025 eða samtals 298 m.kr.
Greinargerð fylgir tillögunum. VEL25010022.
Samþykkt.Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, Halla Hallgrímsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu fjármála og reksturs, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni og tryggja að nægt húsnæði og gistirými, sé til staðar sem og viðeigandi stuðningur, þannig að ekki sé beðið til lengdar. Þá er mikilvægt að hægt sé að aðlaga stefnuna og aðgerðaáætlun í þessum málum ef þörf er á og hlusta alltaf á raddir þeirra með reynsluna við stefnumótun.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins styður tillögu um að komið verði á fót sértæku tímabundnu húsnæði fyrir sex konur. Húsnæðið verður að vera fullnægjandi og mæta þeim þörfum sem krafist er fyrir þennan viðkvæma hóp. Reyndar er það aldrei gott þegar húsnæði er tímabundið. Slíkt veldur óöryggi og skapar óvissu sem er álag á þennan viðkvæma hóp. Tímabundið sértækt húsnæði fyrir karla var sett á stofn á árinu 2024 en mikilvægt er að tryggja konum sambærilegt úrræði. Með búsetu í sérstöku húsnæði er hægt að meta þjónustuþörf og undirbúa sjálfstæða búsetu. Um er að ræða sólarhringsþjónustu og því þarf að fjölga stöðugildum í Vettvangs-og ráðgjafarteymi til að sinna næturþjónustu. Flytja á núverandi starfsemi Konukots í annað tímabundið húsnæði. Húsnæði verður að vera fullnægjandi og uppfylla allar venjubundnar kröfur.
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað, dags. 13. janúar 2025, um stöðu húsnæðisleitar fyrir Mánaberg. VEL24090022.
Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, Halla Hallgrímsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu fjármála og reksturs, og Ricardo Mario Villalobos, deildarstjóri húsnæðis og búsetu, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Flokks fólksins leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
-
Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað, dags. 13. janúar 2025, um stöðu húsnæðisleitar fyrir Konukot, ásamt bréfi frá Rótinni, dags. 17 .desember 2024. Trúnaðarmál. VEL24090023.
Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, Ricardo Mario Villalobos, deildarstjóri húsnæðis og búsetu, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
-
Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra dags. 14. janúar 2025, til breytinga á stjórnskipulagi málaflokks fatlaðs fólks á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Trúnaður er um málið þar til tillagan hefur verið lögð fram í borgarráði. MSS25010084.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Velferðarráð leggur fram breytingartillögu sem færð er í trúnaðarbók.
Samþykkt.
Vísað til borgarráðs.Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.
-
Lögð fram niðurstaða eftirfylgni Innri endurskoðunar, dags. 2. desember 2024, með úttekt á sértæku búsetuúrræði að Miklubraut, ásamt bréfi Innri endurskoðunar, dags. 4. desember 2024. Trúnaðarmál. VEL25010050.
-
Lagður fram að nýju 5. liður fundargerðar velferðarráðs frá 20. nóvember 2024, níu mánaða uppgjör velferðarsviðs fyrir janúar – september 2024, sem bókað var um í trúnaðarbók velferðarráðs. VEL24110059.
Við afgreiðslu málsins voru eftirfarandi bókanir færðar í trúnaðarbók velferðarráðs:Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að breytingar á fyrningu orlofsréttar eða túlkun á henni hefur töluverð áhrif á rekstur sviðsins. Mikilvægt er að taka saman hversu mikil áhrif þetta hefur og hvað sviðið má gera ráð fyrir því að fá stóran bakreikning vegna þessa.
Fylgigögn
-
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að Virknihúsi verði falið að kanna möguleika á samstarfi við Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndar sem veitir menntunarstyrki til tekjulágra kvenna, oft einstæðra mæðra. Með það að markmiði að styðja við reykvískar konur sem þurfa samþættan stuðning til að geta nýtt sér menntunarstyrkinn.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25010030.
Samþykkt.Fylgigögn
-
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Kallað er eftir upplýsingum um tíðni bæði skammtíma- og langtímaveikinda sundurliðuð niður á starfseiningar velferðarsviðs eftir árum síðastliðinn áratug. VEL25010031.
-
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Lengi hefur verið talað um að leiguverð hjá Félagsbústöðum miðist við ákveðið hlutfall af leiguverði á almennum leigumarkaði og nefnt í því samhengi að leiga hjá Félagsbústöðum hafi verið um 60% af markaðsleigu. Hvernig er það hlutfall í dag og hver hefur þróunin verið síðustu 10 árin? Einnig er spurt um hæsta leiguverð hjá Félagsbústöðum og fermetrastærð þeirrar íbúðar. VEL25010032.
Fundi slitið kl. 16:52
Heiða Björg Hilmisdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir
Magnús Davíð Norðdahl Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir
Magnea Gná Jóhannsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Þorvaldur Daníelsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 15. janúar 2025